Leikkonan Auður Finnbogadóttir sem gengur undir listamannsnafninu Audi Finn erlendis hefur náð góðum árangri í Hollywood undanfarið ár og var nýlega valin besta leikkonan á bandarísku kvikmyndahátíðinni Festigious Film Festival í Los Angeles.
„Ég skal alveg viðurkenna það að ég átti nú einhvern veginn ekki von á þessu því þarna voru margir frábærir leikarar tilnefndir. En þetta er klárlega mikill heiður og það að svona virtir gagnrýnendur og dómarar skuli á endanum hafa valið mig er kannski ákveðin staðfesting á því að maður sé á réttri hillu í lífinu,“ segir Auður Finnbogadóttir í samtali við Mannlíf en hún var nýverið valin besta leikkonan á bandarísku kvikmyndahátíðinni Festigious Film Festival í Los Angeles.
Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi leik aðalleikkonu í sjálfstæðri („indie“) kvikmynd og komu þau í hlut Auðar fyrir leik hennar í No Surprises, dramatískri stuttmynd sem fjallar um gifta konu sem verður barnshafandi eftir fyrrverandi elskhuga sinn og ákveður að eiga barnið.
„Þetta er klárlega mikill heiður og það að svona virtir gagnrýnendur og dómarar skuli á endanum hafa valið mig er kannski ákveðin staðfesting á því að maður sé á réttri hillu í lífinu.“
Auður segir hlutverkið hafa verið krefjandi og töluvert frábrugðið því sem hún hefur fengist við fram til þessa, en síðastliðið ár hefur hún verið að leika í þáttum, stuttmyndum og kvikmyndum í Bandaríkjunum og því aldrei að vita nema einhverjir íslenskir áhorfendur kunni að hafa barið leikkonuna ungu augum án þess að gera sér grein fyrir að þar væri Íslendingur á ferð.
„Hérna heima hef ég mest verið að leika á sviði og talsetja teiknimyndir eins og Barbie og Monster High en úti hef ég aðallega verið að leika í fantasíum og kómedíum í þáttum og er oft „tæpköstuð“ í hlutverk fyndnu ljóskunnar eða einhverra ævintýrapersóna. Er t.a.m. að leika um þessar mundir í annarri seríu af vinsælum ævintýraþáttum á YouTube, WitchHaven, þar sem ég fer með aðalhlutverkið,“ nefnir hún sem dæmi.
„Þannig að það var spennandi að fá að spreyta sig á einhverju allt öðru en maður hefur verið að gera hingað til, á hlutverki sem krafðist þess að ég sýndi á mér nýjar hliðar.“
Fékk hlutverkið upp í hendurnar
Auður segir hlutverkið í No Surprises jafnframt það fyrsta sem hafi boðist sem var skrifað sérstaklega með hana í huga. Hún hafi ekki einu sinni þurft að mæta í leikprufur heldur fengið handritið í hendurnar, nokkuð sem sé draumur allra leikara og alls ekki sjálfsagður hlutur.
„Hérna úti þurfa leikarar oft að hafa mikið fyrir því að landa hlutverki sem þeim líst vel á. Senda framleiðendum myndbönd með sjálfum sér eða sækja um að komast í leikprufur,“ útskýrir hún og segir að það sé nokkuð sem hún þekki vel af eigin raun þar sem hún hafi þurft að leggja mikið á sig til að komast á þann stað sem hún er í dag. Það sé eiginlega ótrúlegt að eftir aðeins eitt ár í bandaríska kvikmyndabransanum skuli framleiðendur vera farnir að hafa samband að fyrra bragði og boða hana í prufur.
Spurð hvernig það sé eiginlega fyrir unga leikkonu frá Íslandi að fóta sig í Hollywood segir Auður að þetta sé stór bransi þarna úti, miklu stærri en á Íslandi og uppfullur af tækifærum en hann sé harður líka. „T.d. er mjög erfitt að vera fjarri fjölskyldunni á Íslandi þótt maður heimsæki hana annað slagið og eigi í reglulegum samskiptum við hana á Netinu. Þetta er náttúrlega bara allt öðruvísi lífsstíll en flestir þekkja, þessi bransi hérna úti. Sjálf nýt ég þess að mæta í prufur og á alls konar kvikmyndatengda viðburði en það er einmitt mikilvægt að reyna að hafa gaman af hlutunum og gleðjast t.d. eins og þegar maður landar hlutverki eða þegar maður vinnur óvænt til verðlauna á hátíð eins og Festigious Film Festival. Það skiptir svo miklu að halda í jákvæðnina ef maður ætlar að endast í þessum bransa.“
„Þetta er náttúrlega bara allt öðruvísi lífsstíll en flestir þekkja, þessi bransi hérna úti.“
Spennandi verkefni fram undan
En telur hún að umrædd verðlaun muni opna fleiri dyr í Hollywood? „Ég get alla vega ekki geta kvartað undan verkefnaskorti,“ segir hún og hlær. „Fram undan eru t.d. áframhaldandi tökur á WitchHaven og tökur á annarri seríu af The Let Down, „hermannaþáttum“ þar sem ég fer með stórt hlutverk og sem hafa verið sýndir við miklar vinsældir á straumsveitunni VETTv. Þá er ég líka að fara að leika í myndinni Serpentine upp úr áramótum á móti leikaranum Daniel Gregory Feuerriegel, sem lék m.a. í myndinni Pacific Rim og þáttunum Spartacus. Þannig að það er alveg nóg að gera hjá mér.“
Það er nú ekki beint að heyra að þér leiðist erillinn og vinnuálagið í Hollywood? „Nei, síður en svo,“ segir hún glöð. „Ég er í heildina mjög sátt.“