Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Þúsund bílum fargað í hverjum mánuði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sífellt fleiri bílaeigendur kjósa að farga bifreiðum sínum. Færst hefur í vöxt að fólk skilji númeralausa bíla eftir á fyrirtækjalóðum, á bílastæðum og víðavangi.

Æ fleiri bílaeigendur kjósa að farga bílum sínum frekar en að gera við þá sjálfir eða fara út í viðgerðir og viðhald. Samkvæmt upplýsingum Úrvinnslusjóðs hafa tæplega 9.000 bílar verið afskráðir á árinu. Það er um 25% aukning frá sama tíma í fyrra. Rúmlega helmingur þeirra bíla sem eru afskráðir á Íslandi fara í endurvinnslu hjá fyrirtækinu Hringrás.

Daði Jóhannesson, framkvæmdastjóri Hringrásar, segir talsvert fleiri bílum fargað nú en á síðasta ári. Það sé álíka mikil aukning og var á milli áranna 2016-2017. „Mér sýnist sama aukning vera að endurtaka sig nú á þessu ári,“ segir Daði, en flestir bílar sem koma til Hringrásar eru frá Vöku eða á bilinu 300-400 á mánuði. Bílapartasölur koma með það sem út af stendur auk þess sem fólk kemur með eigin bíla til förgunar. „Bílarnir eru tæmdir af spilliefnum, öllum vökva tappað af þeim og dekk og rafgeymar fjarlægðir. Bílarnir eru pressaðir í böggla og eru síðan sendir í endurvinnslustöðvar í Hollandi. Þar eru bílarnir settir í stóra kvörn, allir málmar aðgreindir og endurunnir. Óendurvinnanlegt plastefni úr bílunum er síðan notað sem eldsneyti til húshitunar eða raforkuframleiðslu í Hollandi. Hjólbarðar sem Hringrás tekur á móti eru tættir niður og fluttir erlendis þar sem gúmmíið er endurnotað.“

Skilja eftir númeralausa bíla

Valdimar Haraldsson annast flutninga á ökutækjum hjá Vöku og segist hafa yfirleitt nóg að gera við að ná í bíla út um allar koppagrundir. Hann fari oftar en áður að fjölbýlishúsum til að ná í númeralausa bíla. Formenn húsfélaga séu þeir einu sem geta sent inn beiðni til Vöku um að láta fjarlægja bílana af sameign húsa og sífellt algengara sé að þeir grípi til slíka úrræða.

Þá segir Valdimar líka hafa aukist að starfsmenn hjá hreinsunardeildum bæjarfélaga hafi samband til að láta fjarlægja númeralausa bíla af götum, víðavangi og á lóðum fyrirtækja. Hann fari jafnvel austur á Selfoss til að ná í bíla. „Það er alveg óhætt að segja að við tökum fleiri bíla en áður.“ Hann kveðst ekki hafa tölulegar upplýsingar um aukninguna en segir tilvikin mun fleiri en áður.

- Auglýsing -

Leggja ekki í viðgerðir

Spurður hvernig bílar þetta séu segir Valdimar þetta vera bíla frá um 1990 eða yngri, allt frá rusli og upp í bíla í ágætis ásigkomulagi með fulla skoðun. „Í þeim tilvikum er fólk búið að kaupa sér nýjan bíl en hefur ekki tíma til að setja hinn í sölu eða því finnst það ekki borga sig að ráðast í kostnaðarsamar viðgerðir í ljósi þess hversu lágt verð er á notuðum bílum í dag. Þótt eigendur bíla komi akandi á bílunum til okkar og þeir líti sumir ágætlega út þá er ekki þar með sagt að þeir séu í stakasta lagi. Eigandinn hefur kannski verið búinn að borga 200 þúsund krónur í viðgerðir en þarf að leggja út 300 þúsund til viðbótar til að koma honum í ökuhæft ástand síðar. Í þeim tilvikum kaupir fólk frekar annan bíl,“ segir Valdimar og getur þess að þegar komið er með bíl til afskráningar og förgunar fær bíleigandi númeraplötur bílsins og greitt skilagjald sem er 20.000 krónur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -