Föstudagur 10. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

„Við erum alltaf að reyna að vera stórþjóð, en við erum það ekki“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og formaður stýrihóps um mótun nýsköpunarstefnu Íslands, hefur marga fjöruna sopið í nýsköpunarmálum og hefur nú starfað fyrir tæknirisann Google í fjögur ár. Þar hefur hann meðal annars komið því á koppinn að íslenska er eitt þeirra tungumála sem Google Assistant styður.

„Ég hef reyndar verið þess heiðurs aðnjótandi að starfa tvisvar hjá Google. Fyrst fór ég þangað eftir að ég útskrifaðist úr MBA-náminu hjá MIT árið 2005 og í seinna skiptið keypti Google fyrirtækið mitt, Emu, árið 2014 og hef ég starfað þar síðan þá,“ segir Guðmundur sem í millitíðinni var yfir vöruþróun hjá Siri, sem var keypt af Apple, og stofnaði svo sitt eigið fyrirtæki, sem eins og áður var sagt, var keypt af Google.

„Ég hef verið yfir vöruþróun alla mína tíð og það starf felst í ýmsu en þó helst að móta stefnu vöruþróunar sem þýðir að reyna að átta sig á hvaða vandamál fólk stendur frammi fyrir, hvernig tæknilausn getur tekist á við það vandamál, og svo sannfæra hópa af fólki að það sé raunin.

Þegar ég kom fyrst til Google var ég yfir vöruþróun á Google Maps fyrir farsíma, kom því á markað og endaði með því að semja við Apple um að það væri á fyrsta iPhone-símanum. Þar næst var ég yfir þróuninni á „voice search“, þ.e. að gera fólki kleift að tala við Google-leitina, kom því einnig á markað og í hendur á fólki með hvers kyns farsíma. Núna nýlega hef ég verið yfir vöruþróuninni á Google Assistant, og sama sagan þar að ég setti saman upprunalegu sýnina og fylgdi því á markað og áfram.“

Mikilvægt að tækin skilji íslensku

Guðmundur verður með fyrirlestur í Háskóla Íslands í dag þar sem hann mun tala um nýsköpun almennt. „Hvers vegna hún er mikilvæg í heiminum og hvernig við getum beitt henni til að bæta okkar þjóðfélag og mögulega haft áhrif víðar en það,“ segir Guðmundur. Hann segir að ýmislegt sé gert hér á landi í nýsköpun en einnig sé margt sem megi bæta.

„Nýsköpunarumhverfið hefur þróast mjög hratt og það má segja að innviðirnir hafi ekki endilega haldið í eins og þyrfti en það er eitthvað sem við erum að skoða. Annað sem mér finnst áhugavert er að við erum alltaf að reyna að vera stórþjóð en við erum það ekki. Ég held að það væri miklu farsælla fyrir okkur að sjá okkur eins og við erum, lítil nútímaþjóð sem getur látið hlutina gerast hratt, og finna hvernig við getum nýtt okkur það sem styrkleika. Sífellt koma fleiri tæki á markað sem hægt að að tala við og mikilvægt að íslenska verði eitt af tungumálunum sem þau munu skilja.“

„Annað sem mér finnst áhugavert er að við erum alltaf að reyna að vera stórþjóð en við erum það ekki. Ég held að það væri miklu farsælla fyrir okkur að sjá okkur eins og við erum, lítil nútímaþjóð sem getur látið hlutina gerast hratt.“

- Auglýsing -

Mörg skemmtileg tækniundur eru pípunum og Guðmundur er spenntur fyrir þeim mörgum. „Til dæmis sjálfkeyrandi bílar og ýmis spennandi verkefni varðandi nútímavæðingu samfélags á öllum sviðum en það er alveg vonlaust að vita hvert heimurinn er að fara með einhverri vissu. Það er reyndar eitt af því sem er að gerast í dag, að heimurinn er að breytast hraðar en nokkru sinni fyrr en tæknin sem við erum að þróa er orðin ofsalega öflug sem gerir framtíðina, að mínu mati, meira spennandi en nokkru sinni fyrr. En þá er líka eins gott að við séum að taka markvisst þátt í þeirri þróun svo við verðum ekki skilin eftir.“

Mynd / Aðsend

 

- Auglýsing -

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -