Höfundur: Kolbeinn Óttarsson Proppé
Félög launafólks hafa nú mörg hver birt kröfugerð sína fyrir komandi kjarasamninga. Af þeim má ljóst vera að ærið verkefni bíður samningsaðila; verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Ljóst er að metnaður forystufólks verkalýðsfélaga er mikill fyrir hönd umbjóðenda sinna og fyrir það ber að hrósa, sem og þann mikla baráttuanda sem ríkir innan verkalýðshreyfingarinnar. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að við höfum öll færi á að lifa mannsæmandi lífi á laununum okkar.
Hafandi fylgst með þjóðmálum ansi lengi þykist ég greina annan tón í forsvarsmönnum atvinnurekenda. Mér finnst þeir opnari fyrir ýmsu sem áður hefur verið talið útilokað og vonast til þess að þetta gefi góðan tón fyrir samningana. Oftar en ekki hefur ferlið í kjarasamningum verið þannig að verkalýðshreyfingin setur fram kröfur sínar, atvinnurekendur loka á þær allar og síðan sest fólk að samningaborði.
Ríkisstjórnin tók strax aðra stefnu hvað vinnumarkaðinn varðar en lengi hafði verið við lýði. Fundað var með aðilum í stjórnarmyndunarviðræðum og eftir stofnun ríkisstjórnar hafa verið haldnir tíu fundir. Nokkrum verkefnum er lokið, hækkun atvinnuleysistrygginga, hækkun hámarksgreiðslna Ábyrgðarsjóðs launa og niðurlagning kjararáðs, en fjölmörg eru enn í skoðun. Þar má nefna hagsveifluleiðrétt atvinnuleysistryggingagjald, úttekt á Fræðslusjóði, starfshóp um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga, tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar og ýmislegt fleira.
Þá hefur ríkisstjórnin tilkynnt að unnið sé að ýmsum málum sem eiga eftir að koma launafólki – og raunar samfélaginu öllu – vel. Til dæmis breytingar í skattkerfinu, lækkun á tryggingagjaldi og það hvernig skattbyrði verður best létt af tekjulæsta fólkinu og lægri millitekjuhópum. Þá er ljóst að taka verður rækilega til hendinni í húsnæðismálum.
Kjarasamningar eru hins vegar á milli launafólks og atvinnurekenda. Ríkið kemur að sumum þeirra sem launagreiðandi, en slíku er ekki að heilsa á almenna markaðnum. Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar er fyrst og fremst að semja um kaup og kjör félagsmanna. Það er ekki í hennar höndum að taka ákvarðanir sem er okkar alþingismanna að taka sem handhafa löggjafavaldsins. Að sjálfsögðu er eðlilegt og nauðsynlegt að verkalýðshreyfingin komi skoðunum sínum á umbótum á framfæri, en þær geta aldrei orðið krafa á stjórnvöld.
Ríkisstjórnin hefur ítrekað lýst því yfir að hún sé reiðubúin til að greiða fyrir málum og hún hefur þegar sýnt það í öllum sínum gjörðum að svo er, bæði með samráði og þeim verkefnum sem hér hafa verið talin upp. Fyrstu skref í skattkerfisbreytingum sem birtust í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár eru í anda yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að þær gagnist best tekjulægsta fólkinu og lægri millitekjuhópum. Þar er verið að hækka barnabætur svo um munar, hækka persónuafslátt umfram neysluvísitölu og samræma viðmiðunarfjárhæðir í skattkerfinu þannig að neðri og efri mörk þróist með sambærilegum hætti.
Það verður áhugavert að sjá hvernig aðilum kjaraviðræðna tekst að nálgast hver annan. Íslenskt samfélag er ríkt að verðmætum og við ættum öll að geta haft það býsna gott. Það er von mín að kjarasamningar skili raunverulegum kjarabótum og bæti líf og kjör þeirra sem svo sannarlega þurfa á því að halda. Það á að vera metnaðarmál okkar allra að fólk fái vel greitt fyrir störf sín og að lífskjör batni.