Sunnudagur 12. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

„Konur eins og amma vörðuðu leiðina“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Amma – Draumar í lit er heiti fyrstu bókar Hólmfríðar Helgu Sigurðardóttur um ævi ömmu hennar og nöfnu, Hólmfríðar Sigurðardóttur, kennslukonu og skálds. Bókin segir sögu Hólmfríðar frá barnæsku á Raufarhöfn til dagsins í dag, þar sem hún býr í Kópavogi, orðin 88 ára gömul. Á yfirborðinu virðist þetta vera saga konu en er í raun saga heillar þjóðar, einkum kvenna sem syntu gegn straumnum. Mannlíf ræddi við nöfnurnar tvær um tildrög verksins, sköpunarferlið og sársaukann sem fylgir því að heimsækja fortíðina.

Amma – Draumar í lit er ekki hefðbundin ævisaga, heldur kafar höfundurinn eftir minningum og leikur sér að sjónarhornum þar sem skiptast á fyrstu persónu-frásagnir, annars vegar aðalpersónunnar, Hólmfríðar Sigurðardóttur, og hins vegar höfundarins sjálfs, Hólmfríðar Helgu Sigurðardóttur.

„Ég var satt að segja alls ekki viss um að þessi saga ætti erindi við nokkurn annan en okkur ömmu,“ viðurkennir höfundurinn, hér eftir kölluð Fríða, fyrir blaðamanni þegar hún er spurð að því hvernig hugmyndin að verkinu hafi kviknað. „Upphaflega var sagan lokaverkefni mitt í meistaranámi mínu í blaðamennsku í Barcelona. Ég átti því handritið, bæði á íslensku og spænsku, og vissi svo sem ekkert hvað ég ætti að gera við það. Svo lásu nokkrar góðar konur það og hvöttu mig til að gefa það út. Ingibjörg Dögg, annar ritstjóri Stundarinnar, var ein þeirra og hún stakk upp á því að Stundin gæfi bókina bara út. Ég bar hugmyndina undir ömmu og þegar hún gaf sitt samþykki sá ég ekki ástæðu til að hika meira.“

Hólmfríður kinkar kolli. „Já, upphaflega vildi hún nefnilega bara fá sögu mína fyrir lokaverkefnið sitt í háskólanum, mér fannst það allt í lagi. En svo vatt hugmyndin upp á sig hjá henni,“ segir hún, glottir og bætir við að Fríða hafi nú þurft að ganga svolítið á eftir sér til að fá hana til að samþykkja að þetta yrði bók. „Mér fannst það svo fjarri lagi,“ segir hún. „Mér fannst ég ekki hafa neitt til brunns að bera, til þess að vera í bók.“

Þessu er Fríða algjörlega ósammála. „Það voru konur eins og amma sem vörðuðu leiðina og sköpuðu þau tækifæri sem við konur í nútímanum höfum, með því meðal annars að brjóta upp hefðirnar og ganga gegn því sem þær sjálfar höfðu alist upp við,“ bendir hún á. „Bara það, til dæmis, að amma fór tvisvar í viku í leikfimi á kvöldin og skildi afa eftir með börnin á kvöldmatartíma. Þær þóttu beinlínis uppreisnargjarnar þessar konur sem tóku þátt í þeirri leikfimi. Svona hlutir eru mikilvægir. Það gera fáir athugasemd við það í dag ef konur taka sér tíma til að sinna líkama sínum en það var bara ekki sjálfsagt fyrir ekki svo löngu síðan.“

„Það voru konur eins og amma sem vörðuðu leiðina og sköpuðu þau tækifæri sem við konur í nútímanum höfum, með því meðal annars að brjóta upp hefðirnar og ganga gegn því sem þær sjálfar höfðu alist upp við.“

Hún segir að við ritun sögunnar hafi hún því ekki aðeins lært ótalmargt nýtt um Hólmfríði ömmu sína heldur hafi hún líka lært margt nýtt um konur almennt af hennar kynslóð. Öðrum þræði hafi hana langað til að segja þeirra sögu. „Mér þykir amma nefnilega einstök en ég gerði mér líka svo vel grein fyrir því að hún er „venjuleg“, það er að segja að mjög margar konur eiga sambærilega reynslu að baki og hún. Þær hafa allar sem ein lifað magnaða tíma og líf þeirra hefur tekið ótrúlegum stakkaskiptum,“ segir hún en játar að henni hafi vaxið það svolítið í augum að fjalla um samfélagið og allar breytingarnar á því í gegnum áratugina. Hún var ekki viss um að sér tækist að gera því nógu góð skil.

Reyndi ekki að fegra sjálfa sig
Í bókinni er líka fjallað um ýmsa átakanlega atburði, ástvinamissi og atvik sem setja skugga á líf fjölskyldunar. Fannst þér þá ekkert erfitt að biðja ömmu þína um að rifja upp þessi mál? „Nei, veistu, mér fannst þetta ekki erfitt ferli heldur fyrst og fremst mjög gefandi. Ég spurði hana út í alls konar hluti, til dæmis ástina, dauðann og sorgina, og hún svaraði hreint út. Hún reyndi ekki að fegra sjálfa sig, leyna hlutum eða tala undir rós og það kunni ég svo vel að meta. Auðvitað þóttu mér sum svörin erfið og sumar sögurnar afar sorglegar enda hefur amma gengið í gegnum ýmislegt. En ég er vön því sem blaðamaður að spyrja fólk nærgöngulla spurninga þegar þörf er á, svo það vefst svo sem ekki fyrir mér. En svo var það líka þannig með okkur ömmu báðar, að þegar við vorum búnar að ákveða að fara út í þetta verkefni tókum við það alla leið,“ segir hún og Hólmfríður amma hennar samsinnir því.

En þetta er kannski ekki bara ykkar saga, eða hvað, því þarna er mikið fjallað um fjölskylduna. Til dæmis afa þinn, Fríða, Grím M. Helgason, og pabba þinn og systkini hans, þar á meðal Vigdísi, sem er einn ástælasti rithöfundur þjóðarinnar. Hvernig brugðust ykkar nánustu við bókinni? „Ég lít reyndar ekki svo á að þetta sé saga fjölskyldu okkar, nema að mjög takmörkuðu leyti. Þetta er fyrst og fremst saga ömmu – eða bara brot af hennar sögu,“ tekur Fríða fram. „Ég gerði ekki tilraun til að segja sögur barnanna, því mér fannst þær ekki eiga heima í þessari bók. Annars hafa flestir tekið uppátækinu vel, þó að það hafi komið sumum á óvart,“ bætir hún við.

Ég spurði hana út í alls konar hluti, til dæmis ástina, dauðann og sorgina, og hún svaraði hreint út. Hún reyndi ekki að fegra sjálfa sig, leyna hlutum eða tala undir rós og það kunni ég svo vel að meta.

- Auglýsing -

En talandi um Vigdísi, þá kemurðu inn á kynferðisofbeldi sem hún verður fyrir og hefur fjallað um í bók sinni Dísusögu. Finnst þér hægt að segja að þessar tvær sögur kallist á? Fríða hallar undir flatt. „Þú segir nokkuð, ég hafði ekki einu sinni hugsað út í það. Vigdís frænka mín hefur skrifað tvær stórkostlegar en gjörólíkar bækur sem byggja á hennar minningum, Minningabók og Dísusögu. Mín bók kallast örugglega á við þær báðar að einhverju leyti, þó að það hafi ekki verið meðvitað og ég myndi aldrei voga mér að bera mín skrif saman við hennar. En ég er undir áhrifum Vigdísar, hún er ein af þessum mögnuðu kvenfyrirmyndum sem ég er svo heppin að geta litið upp til.“

Lítur fyrst og fremst á sig sem blaðamann
Sagan sem vafi lék á að yrði að einhverju meira en skólaverkefni er því komin út á prenti. Og viðtökurnar betri en nöfnurnar gat órað fyrir. Hvernig finnst Hólmfríði að saga hennar skuli vera orðin að almenningseign? „Já, ég hef aldrei litið svoleiðis á málið og hugsa í raun ekkert voðalega mikið um það, enda bý ég hérna uppi í fjöllunum og það koma ekkert voðalega margir hingað til mín,“ segir hún. „En það hringja hins vegar margir og óska mér til hamingju með bókina. Þá tala ég minnst um mig og meira um það hvað Fríða er góður penni.“

Talandi um það, hvernig er að stíga fram á sjónarsviðið sem rithöfundur eftir að hafa starfað sem blaðamaður um árabil, spyr blaðamaður og lítur á Fríðu. „Ég er mjög feimin við þetta orð, rithöfundur,“ svarar hún og fer svolítið hjá sér. „Vinkona mín sagði við mig um daginn: Þú skrifaðir bók og það er búið að gefa hana út. Þá ertu rithöfundur, sama hvort þér líkar það betur eða verr.

- Auglýsing -

Ég er nú samt ekki viss um að ég sé sammála því. Ég lít fyrst og fremst á mig sem blaðamann og það breytist ekki þótt ég hafi skrifað þessa bók.“
En stendur til að skrifa fleiri sögur? „Já, alveg örugglega. Ég á ýmis sögubrot í dagbókum og á blaðsnifsum ofan í náttborðsskúffunni. En hvort þær verði bara þar áfram eða komi einhvern tímann út hef ég ekki hugmynd um. En það er alla vega gaman að eiga þessa einu bók útgefna, hvað sem síðar verður.“

Aðalmynd / Heiða Helgadóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -