Fréttir af kynferðislegri áreitni innan Orkuveitu Reykjavíkur í liðinni viku er aðeins eitt af mörgum hitamálum sem hafa blossað upp í kringum starfsemi fyrirtækisins. Allt frá því Orkuveitan var sett á fót með sameiningu Hitaveitu Reykjavíkur og Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1999 hafa deilur um reksturinn blossað upp með reglulegu millibili og þær jafnvel endað með falli borgarstjórnarmeirihluta. Mannlíf rifjar upp nokkur af helstu hitamálunum.
Rándýrar höfuðstöðvar
Bygging höfuðstöðva OR er um margt sorgarsaga sem enn sér ekki fyrir endann á. Kostnaður við bygginguna nam alls 5,8 milljörðum króna og fór hann 4 milljarða fram úr áætlun. Árið 2013 var ákveðið að selja húsnæðið til lífeyris- og fjárfestingasjóða til að grynnka á erfiðri skuldastöðu fyrirtækisins og leigja það af nýjum eigendum; 5,1 milljarður fékkst fyrir húsið. Síðan kemur í ljós að stór hluti vesturhússins er ónýtur vegna rakaskemmda og að kostnaður við viðgerðir geti numið allt að 7 ½ milljarði króna. Í fyrra kaupir Orkuveitan húsið aftur fyrir 5,5 milljarða, en kaupin voru forsenda þess að hægt væri að ráðast í nauðsynlegar breytingar á húsnæðinu vegna skemmda.
Eitt flottasta eldhús landsins
Árið 2010 beindist athygli landsmanna að stórglæsilegu eldhúsi höfuðstöðva OR eftir að kynningarmyndband fyrirtækisins fór í dreifingu á Netinu. Myndbandið, sem var tæpar 10 mínútur að lengd, var framleitt af kynningardeild fyrirtækisins árið 2004. Var ásókn fagaðila og rekstraraðila í að skoða eldhúsið svo mikil að ákveðið var að gera myndbandið til að draga úr slíkum heimsóknum. Alfreð Þorsteinsson, sem var stjórnarformaður OR á þeim tíma sem eldhúsið var byggt, þvertók fyrir að um of mikinn íburð hafi verið að ræða. „Það var ekkert bruðlað sérstaklega í uppbyggingu þessa eldhúss.“ Almenningur var á öðru máli.
Sértækar skuldaaðgerðir
Rekstur Orkuveitunnar fór afar illa út úr efnahagshruninu enda hafði íslenska krónan hríðfallið og stærstur hluti lána í erlendri mynt. Um mitt ár námu skuldir fyrirtækisins 227 milljörðum króna. Stjórn fyrirtækisins réðist í umfangsmiklar aðgerðir til að bjarga fyrirtækinu sem fólust meðal annars í niðurskurði, hækkun gjaldskráa og endurfjármögnun lána. Var aðgerðaáætlunin nefnd Planið. Áætlunin gekk eftir og gott betur og skilaði hún sér í 60 milljarða króna í bættri sjóðsstöðu, eða 10 milljörðum umfram það sem upphaflega var reiknað með.
Mislukkuð tilraun með risarækjur
Um aldamótin hóf Orkuveitan tilraunir í að koma á fót risarækjueldi. Fyrirtækið lagði fram stofnfé og var áformað að fleiri aðilar kæmu inn í verkefnið sem myndu á endanum taka yfir verkefnið og hefja risarækjueldi í stórum stíl. Þeir létu hins vegar aldrei sjá sig. Alfreð Þorsteinsson, þáverandi stjórnarformaður, sagði þetta hluti af lögboðinni skyldu Orkuveitunnar um að taka þátt í nýsköpun og þegar fyrsta risarækjan var boðin til átu árið 2004 sagði hann ljóst að tilraunin hafði heppnast. Voru menn á þessum tímapunkti á því að risarækjan ætti eftir að slá í gegn. En risarækjudraumarnir runnu út í sandinn og í september 2007 tók stjórn OR þá ákvörðun að hætta risarækjueldinu. Lét Haukur Leósson, þá stjórnarformaður, hafa eftir sér að tilraunastarfsemin hafi ekki skilað fyrirtækinu krónu.
Stórslys í Andakílsá
Starfsmenn Orku náttúrunnar urðu uppvísir að ólögmætri og saknæmri háttsemi við tæmingu á lóni um botnloku á stíflu Andakílsárvirkjunar í Borgarfirði í fyrravor. Gríðarlegt magn aurs flæddi út í Andakílsá með meðfylgjandi stórtjóni fyrir lífríki árinnar. Orkustofnun sektaði ON um eina milljón króna vegna atviksins, enda hafði tilskilinna leyfa fyrir tæmingunni ekki verið aflað. Áhrifanna gætir enn og var engin laxveiði stunduð í Andakílsá í sumar frekar en í fyrra.
REI sprengir borgarstjórn
Á haustmánuðum 2007, þegar sjálfstraust íslenskra viðskiptamanna náði hæstu hæðum, voru uppi stórar hugmyndir um að ráðast í orkuútrás. Til þess stofnaði OR dótturfyrirtækið Reykjavik Energy Invest – REI. Þegar fréttir bárust af því að til stæði að sameina REI og Geysi Green Energy, sem var í eigu FL Group og Glitnis banka, runnu hins vegar tvær grímur á borgarfulltrúa. Þær deilur mögnuðust þegar í ljós kom að útvaldir lykilstarfsmenn áttu að fá kaupréttarsamninga sem mögulega hefði fært þeim háar fjárhæðir. Ekkert varð þó að samrunanum þar sem borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sprakk vegna málsins.
Barist um Hitaveitu Suðurnesja
Síðsumars 2009 risu enn og aftur upp harðar deilur í borgarstjórn þegar Orkuveitan ákvað að ganga til viðræðna við kanadíska fyrirtækið Magma Energy um sölu á 32% hlut OR í Heitaveitu Suðurnesja. Var átakapunkturinn sá að verið væri að færa orkuauðlindir þjóðarinnar í hendur einkaaðila. Kaupin, sem voru reyndar aðeins hluti af harðri baráttu um eignarhald í HS, gengu engu að síður í gegn og á kanadíska félagið – í gegnum sænskt dótturfyrirtæki – enn meirihluta í HS.
Orkufyrirtæki á fjarskiptamarkaði
Á dögum R-listans varð fyrirtæki að nafni Lína.net að einu helsta deiluefninu milli meirihlutans og minnihlutans sem endurspeglaðist í stöðugum skeytasendingum milli Alfreðs Þorsteinssonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem þá var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Lína.net var fjarskiptafyrirtæki í eigu Orkuveitunnar sem átti að sjá um ljósleiðaravæðingu höfuðborgarsvæðisins en varð í augum sjálfstæðismanna, sem töldu fjarstæðu að fyrirtæki í eigu borgarinnar væri að standa í rekstri á samkeppnismarkaði, holdgervingur sóunar almannafjár. Lína.net rann síðar inn í Gagnaveitu Reykjavíkur sem er dótturfélag Orkuveitunnar.