Föstudagur 10. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Óásættanlegt að karlar áreiti konur án refsingar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér ályktun í ljósi frétta liðinnar viku af kynferðislegri áreitni yfirmanna hjá Orkuveitunni.

„Það er óásættanlegt að konur séu ekki óhultar, hvorki inni á heimilum né á vinnustöðum. Það er óásættanlegt að konur hrökklist úr starfi vegna áreitni og ofbeldis sem þær eru beittar á opinberum vettvangi. Það er óásættanlegt að karlar geti áreitt konur og beitt þær ofbeldi, án hindrana, eftirmála og án refsingar,“ segir í ályktun sem Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér í ljósi frétta liðinnar viku af kynferðislegri áreitni yfirmanna hjá Orkuveitunni.

Fréttaflutningurinn hefur meðal annars snúist um það að framkvæmdastjóranum Bjarna Má Júlíussyni var í liðinni viku vikið úr starfi vegna kynferðislegrar áreitni gagnvart starfsfólki og tveir aðrir hátt settir starfsmenn fyrirtækisins hafa verið sakaðir um áreitni í starfi eða kynferðisbrot áður en störf hófust.

Kvenréttindafélagið ítrekar í ályktuninni að ekki sé nóg að vinnustaðir samþykki metnaðarfullar jafnréttisáætlanir og innleiði staðla og gæðavottanir heldur sé nauðsynlegt að fylgja áætlunum með virkum hætti.

„Fyrirtækin hafa þótt vera í fararbroddi í jafnréttismálum á Íslandi og forsvarsmenn þeirra oft verið talsmenn þess mikla árangurs sem náðst hefur í jafnréttismálum á Íslandi. Árið 2015 var OR veitt Hvatningarverðlaun jafnréttismála og við það tilefni sagði forstjórinn að það væri “ekki nóg að aðhyllast jafnrétti, heldur þarf að fremja það”. Nú ríður á að fyrirtækin bregðist ekki háleitum hugsjónum sínum heldur vinni markvisst að því að uppræta kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustað og gæti þess að starfsfólk allt taki fullan þátt í því starfi,“ segir í ályktuninni.

Ályktuninni lýkur á hvatningu til stjórnenda fyrirtækja um að axla ábyrgð og skapa starfsumhverfi þar sem fólk sé óhult í vinnu. „Við verðum að gera grundvallarbyltingu á samfélagi okkar, þessu samfélagi þar sem ofbeldi og áreitni hefur þrifist í allskonar myndum. Það á ekki að veita neina afslætti í þessum málum.“ segir Kvenréttindafélag Íslands.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -