„Ég gleymi því aldrei þegar ég horfði á prufuna hans,“ segir Simon Duric, handritshöfundur Netflix-seríunnar The Innocents sem hóf streymisgöngu sína fyrir stuttu, í viðtali við Den of Geek!. Einn af leikurum seríunnar er Jóhannes Haukur Jóhannesson, en þættirnir fjalla um ungt kærustupar sem flýr að heiman og kemst svo að því að stúlkan er formbreytir. Raunar eru margir í heiminum formbreytar – eitthvað sem parið gerði sér enga grein fyrir.
Eins og fram kemur í greininni var Jóhannes Haukur beðinn um að senda inn áheyrnarprufu sem hann tók upp sjálfur þar sem lék senu þar sem persónan hans er tekin yfir af formbreyti á unglingsaldri. Bæði Simon, og höfundurinn Hania Elkington, eru sammála um að þessi prufa hafi sannfært þau um að serían gæti orðið að raunveruleika, en þau voru ávallt staðráðin í því að túlka formbreyta með eins litlum tæknibrellum og hægt væri.
„Þetta var átakanlegt, gjörsamlega átakanlegt. Og þetta er stór og sterkur náungi. Við hugsuðum…já! Þetta getur virkað. Þetta getur virkað,“ segir Simon um stundina þegar hann horfði á áheyrnarprufu Jóhannesar.
„Þetta var stundin þegar við hugsuðum að þessi brjálaða hugmynd gæti verið útfærð í sjónvarpi,“ bætir Hania Elkington við.
„Hann gerði svolítið sem ég hef aðeins séð ungar stúlkur gera. Þær toga bolinn sinn niður til að reyna að fela sig sjálfar. Bara þessi eina hreyfing sagði heilanum mínum að þetta væri ung stúlka. Þessi stund var töfrum líkust,“ bætir hún við.
The Innocents hafa fengið mjög góða dóma, sem gerir það að verkum að líklegra er að gerð verði önnur þáttaröð fljótlega. Á meðan situr Jóhannes Haukur þó ekki auðum höndum. Nýjasta mynd hans, Alpha, var frumsýnd í vikunni og hann er nú við tökur á kvikmyndinni Bloodshot, þar sem hann leikur rússneskan skúrk á móti stórstjörnunni Vin Diesel.