Heilsumarkþjálfinn Júlía Magnúsdóttir hjá Lifðu til fulls býður upp á ókeypis fyrirlestur í kvöld, miðvikudaginn 22. ágúst, klukkan 20.30. Fyrirlesturinn fer fram á netinu og því getur hver sem er hlýtt á. Júlía fer yfir víðan völl á fyrirlestrinum.
„Á fyrirlestrinum lærir þú ómissandi ráð til að hefja breyttan lífsstíl, auka orkuna og losna við sykurlöngun. Allir sem mæta í beinni fá ókeypis uppskriftir og sérstakt hreinsunarpróf. Í lokin verður opnað fyrir spurningar á línunni svo þú getur spurt mig að því sem þú hefur verið að velta fyrir þér varðandi heilsuna,“ segir Júlía og bætir við að mikilvægt sé að skrá sig á fyrirlesturinn þó hann sé ókeypis á netinu.
„Það eru takmörkuð pláss í boði og því um að gera að skrá sig strax. Við höfum haldið þessa fyrirlestra tvisvar til þrisvar síðustu ár og það er alltaf fullt á þá. Í fyrra til að mynda skráðu sig um það bil átta hundruð manns.“ Hægt er að skrá sig á fyrirlesturinn með því að smella hér.
Galdraefni í léttu pasta
Í tilefni fyrirlesturins ákváðum við hjá Mannlífi að fá eina holla og næringarríka uppskrift hjá Júlíu, sem deilir hér með lesendum fljótlegum pastarétt.
„Það kemur flestum á óvart að það sé hægt að finna gott „ostabragð“ án þess að það innihaldi mjólkurafurðir eða sykur. Sósan og rétturinn sem ég deili hér er vegan og léttari í maga en hefðbundið ostapasta,“ segir Júlía. Í uppskriftinni notar hún til dæmis næringarger, sem hægt er að fá meðal annars í Bónus, Hagkaupum og Heilsuhúsinu, og er talið algjört undraefni.
„Næringarger er óvirkt ger sem er ekkert líkt hefðbundu bakstursgeri. Það er gríðarlega ríkt af B-vítamínum og B-12 sérstaklega. B-vítamín getað aukið orkuna yfir daginn en engin hætta er þó á því að þú borðir næringarger að kvöldi til og verðir vakandi frameftir. Hægt er að nota það yfir popp, salöt eða allt sem þú vilt fá gott ostabragð á á næringarríkan hátt.“
15 mínútna fettucine „osta“ pasta með stökku blómkáli
Vegan „osta“ sósa:
1 bolli kókosmjólk
1/2 bolli rifinn vegan parmesan eða parmesan
1 msk næringarger
1 hvítlauksrif (ég notaði einn perlulauk)
chilli á hnífsoddi
1 tsk dijon
klípa af salti
nokkrir dropar stevia eða kókospálmanektar
Grænmetið:
1 msk olífuolía
2 hvítlauksrif (ég notaði tvo perlulauka)
1/2 blómkálshaus
1/2 kúrbútur
handfylli ferskt rósmarín
Borið fram með:
spínati
valhnetum/furuhnetum
ferskri steinselju
sítrónusneiðum
rifnum vegan parmesan eða parmesan
Aðferð:
Setjið öll hráefni sósunnar í blandara og vinnið þar til silkimjúkt. Sjóðið vatn í potti og leyfið suðu að koma upp. Bætið pasta út í vatnið, lækkið undir og sjóðið samkvæmt leiðbeiningum á pakka, sirka 6 til 8 mínútur.
Hitið pönnu. Steikið hvítlauk, blómkál, kúrbít og kryddjurtir á pönnu og hrærið í 5 til 7 mínútur. Hellið sósunni í pönnuna ásamt pastanu og hrærið örlítið. Leyfið að malla í nokkrar mínútur.
Berið fram með því sem þið kjósið og njótið!
Hollráð
Ef þú vilt hafa blómkálið enn stökkara má setja það í ofninn við 180°C með örlítið af olíu og salti og pipar í 25 mínútur. Þá er gott að snúa við blómkálinu eftir sirka 15 mínútur. Til að flýta fyrir má gera vegan „osta“ sósuna yfir helgi eða kvöldið áður og geyma í kæli. Einnig má frysta sósuna sem ég tel þó ólíklegt að gerist þar sem sósan er svo bragðgóð að hún klárast yfirleitt strax.