Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

„Verður gaman að fá sína fimm mínútna frægð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Drónaskot eftir Sigurð Þór Helgason verða notuð í Netflix-þáttunum The Dark Crystal: Age of Restistance.

Sigurður Þór Helgason, framkvæmdastjóri verslunarinnar DJI Store Reykjavík, á drónaskot í þáttunum The Dark Crystal: Age of Resistance, en fleiri erlendar aðilar hafa keypt af honum myndefni í gegnum tíðina. Hér er hann ásamt syni sínum, Alvari Óskarai ellefu ára.

„Umboðmaður sem vinnur við að finna efni fyrir Netflix sá drónaskot eftir mig, vinsælt vídeó á Netinu sem heitir Mystic Iceland og honum fannst það alveg smellpassa við fantasíuheim þáttanna. Þannig að hann sýndi framleiðendum þáttanna það og þeir kolféllu fyrir því,“ segir Sigurður Þór Helgason um aðdraganda þess að drónaskot eftir hann enduðu í nýjum Netflix-þáttum, The Dark Crystal: Age of Resistance.

Þættirnir eiga að gerast á undan klassísku kvikmyndinni The Dark Crystal sem kom úr smiðju Jims Henson sáluga, skapara Prúðuleikaranna, árið 1982 og fjallar um baráttu góðra og illra afla vera á fjarlægri plánetu. Sigurður segist ekki vita nákvæmlega hvernig skotið eftir hann kemur til með að verða notað í þáttunum en hann hafi verið svo heppinn að ná því á Stokksnesi í ágúst í fyrra.

„Í sannleika sagt var ég ekkert á leiðinni þangað, var með allt önnur plön en einhver rödd í höfðinu á mér sagði mér að fara og mynda þar sólarupprás. Ég ákvað að hlýða og keyrði heila 500 kílómetra um nóttina, alveg þar til ég kom á leiðarenda klukkan fjögur um morguninn og varð þá vitni að því hvernig sólargeislarnir brutust fram og skinu í gegnum þoku í fjöruborðinu þannig að þokan virtist glóa. Þetta var svo stórkostlegt sjónarspil að ég náði varla andanum. Algjört milljón dollara skot sem ég náði með drónanum.“

„…það er ótrúlega gaman að skot eftir mig skuli vera notað í verkefni sem tengist hugarheimi þessa mikla snillings.“

Sigurður segist hlakka mikið til að sjá útkomuna í þáttunum enda hafi honum þótt The Dark Crystal góð á sínum tíma. „Hún var mjög sérstök og dökk, eins og heitið gefur til kynna. Sem krakki elskaði maður auðvitað allt sem kom úr smiðju Henson, prúðuleikarana og fleira, þannig að það er ótrúlega gaman að skot eftir mig skuli vera notað í verkefni sem tengist hugarheimi þessa mikla snillings.“

Umrætt „milljón dollara“ skot sem notað verður í þáttunum.

Hann bætir við að framleiðendur þáttanna séu svo ánægðir með myndefnið að þeir hafi þegar falast eftir fleiri skotum. „Við höfum verið í sambandi í gegnum umboðsmanninn og ég er að leita að meira efni fyrir þá,“ segir hann glaðlega. „Það verður gaman að fá sína fimm mínútna frægð.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -