Sífellt fleira ungt fólk og fólk á miðjum aldri leitar til Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands (NLFÍ) í Hveragerði vegna kulnunar í starfi.
Áður voru eldri borgarar og fólk sem glímdi við ofþyngd í meirihluta þeirra sem þangað leituðu. Fyrir um sex árum tók meðalaldurinn að lækka hratt og er nú svo komið að eldra fólk er um þriðjungur þeirra sem dvelja á Heilsustofnunni. Nýjasta breytingin á samsetningu sjúklinga á stofnuninni er fólk á miðjum aldri sem er útbrunnið í starfi.
„Við sjáum mikið um kulnun í starfi hjá fólki á miðjum aldri, á milli fertugs og upp í sextugt. Það eru íslensku vinnuhestarnir, góðborgarar sem hafa afrekað tvö lífsverk á hálfri starfsævi. Þegar þeir eru komnir á miðjan aldur þá kannski lenda þeir í samskiptaerfiðleikum eða áföllum. Og þá geta þeir bara ekki meir og kulna,“ segir Haraldur Erlendsson, forstjóri og framkvæmdastjóri lækninga á stofnuninni, og leggur áherslu á að skoðað sé hvaða undirliggjandi þættir valdi því að einstaklingarnir eru komnir í þessa stöðu. „Stundum er þetta áfallastreita, kvíði eða samskiptavandi.“
„Stundum er þetta áfallastreita, kvíði eða samskiptavandi.“
Hann getur þess að yngstu sjúklingarnir, sem eru 18 ára, glími við kvíða og þunglyndi og fleiri sjúkdóma. „Ástæðan fyrir því að svo ungt fólk er farið að leita til stofnunarinnar er sú að Sjúkratryggingar eru ekki með samning við neinn geðlækni á Suðurlandi og því er enginn starfandi geðlæknir í landshlutanum. Heimilislæknar þar vísa ungu fólki með andleg heilsufarsvandamál til okkar. Til viðbótar erum við í samstarfi við Virk starfsendurhæfingu á Suðurlandi.“
Þá segir Haraldur æ algengara að þeir sem leiti til Heilsustofnunarinnar séu greindir með athyglisbrest með ofvirkni (ADHD). „Þetta er yfirleitt frekar duglegt fólk, vinnuhestar sem fleyta kerlingar í lífinu og þurfa að hafa nóg fyrir stafni, vinnur á við 23, og sefur kannski í aðeins fimm til sex klukkustundir. Á meðan þeir eru ungir og hraustir þá gengur allt vel. En þegar heilsan er aðeins farin að gefa sig þá geta þeir ekki hreyft sig eins mikið. Vinnuhestarnir lenda frekar í áföllum, þeir taka áföllin frekar nærri sér en aðrir, lenda þess vegna út á kanti og líður illa. Það skýrir kulnun í starfi. Við greinum mikið af fólki um miðjan aldur með þennan vanda og er það lykillinn að því að viðkomandi kemst aftur til vinnu,“ segir hann. Í kjölfar greiningar er mælt með mikilli hreyfingu, kennslu og iðkun núvitundar og fólki kennt að vinna úr áföllum sínum.
Haraldur segir hins vegar enn mikla fordóma gagnvart ADHD á Íslandi. Það skýrist af því að tiltölulega stutt sé síðan farið var að greina sjúkdóminn og vinna með hann. Aðeins um 2530 ár séu síðan farið var að meðhöndla börn með ADHD að ráði og aðeins 510 ár síðan meðferð fyrir fullorðna bættist við. „Við eigum þess vegna langt í land með að sinna þessum hópi,“ segir hann og bætir við að miðað við það sem hann sjái sé hópurinn stærri á Íslandi með athyglisbrest en talið hafi verið.
„Tíu til fimmtán prósent þjóðarinnar gætu verið með athyglisbrest. Það jafngildir 30.00050.000 manns á Íslandi.“
„Landlæknir hefur lýst yfir áhyggjum af því að athyglisbrestur er greindur í meiri mæli hér en í öðrum löndum og allt að 1% fólks sé á meðferð. Það er vanmeðferð. Tíu til fimmtán prósent þjóðarinnar gætu verið með athyglisbrest. Það jafngildir 30.00050.000 manns á Íslandi. Nýjustu rannsóknir benda til að þetta sé að verða algengasti sjúkdómur sem geðlæknar sinna og sá dýrasti fyrir mannkynið. Þeir sem eru með athyglisbrest klára ekki nám sitt, lenda oftar í slysum en aðrir, skilnaði, eru oftar frá vinnu og fara oftar til læknis. Þetta á við um margt ungt fólk hjá okkur. Það kemst ekki í vinnu á morgnana, heldur ekki út vinnudaginn og líður illa út af því seinnipart dags,“ segir Haraldur og vill aukna vitund um athyglisbrest og meðferð við honum.