Rapparinn Herra Hnetusmjör prýðir forsíðu Mannlífs sem kemur út á morgun. Hann hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn á Íslandi. Hann er 21 árs gamall og keyrir um á lúxuskerru, í Gucci-úlpu með gulltennur – alveg eins og bandarísku rapphetjurnar. Hann telur sig besta rappara á Íslandi og ætlar að búa til stórveldi úr tónlistinni.
„Ég held að þú getir ekki verið bestur í neinu ef þú trúir því ekki að þú getir verið bestur. Ég er ekki hér til að taka þátt. Ég er hér til að vinna,“ segir Herra Hnetusmjör.
Herra Hnetusmjör byrjaði ungur að fikra sig áfram í rappheiminum og gaf út sitt fyrsta lag árið 2014 – smellinn Elías sem vakti mikla athygli.
„Það varð að einhverri költ-klassík meðal unglinga. Í laginu rappa ég um Kársneskrakkana og að við höfum alltaf verið að drekka og halda partí í kjallaranum hjá strák sem heitir Elías. Algjört unglingadót.“
Sumarið 2016 var mjög dimmur tími
Í framhaldinu fékk hann sér umboðsmann og kom fyrsta plata rapparans, Flottur skrákur, út á afmælisdegi Herra Hnetusmjörs, þann 31. ágúst árið 2015. Við tóku miklar annir, en árið 2016 reyndist honum erfitt.
„Ég var með fullt af lögum í spilun í útvarpi og var til dæmis bókaður á stórt svið á Secret Solstice. En ég missti mig. Ég fór út af brautinni og hætti að gera tónlist. Ég var bara að djamma og spila,“ segir Herra Hnetusmjör og heldur áfram. „Ég var farinn að missa tökin meira og meira og sumarið 2016 missti ég þau endanlega. Þá var ég í max rugli og á öllu sem hægt er að hugsa sér. Ég týndist bara í sósunni. Sumarið 2016 var mjög dimmur tími,“ segir Herra Hnetusmjör. Í framhaldinu fór hann í meðferð á Vogi
„Ég er alkóhólisti og sama hvað ég var með skýr markmið á öllum sviðum og vissi nákvæmlega hvað ég vildi gera þá tók alkóhólistinn alltaf yfir. Það komst ekkert að því ég var alltaf að fá mér.“
„Mig langar í mikið af peningum“
Í dag er rapparinn edrú og eyðir peningum sínum í merkjavöru í staðinn fyrir fíkniefni. Peningar eru honum einmitt mjög hugleiknir.
„Mig hefur alltaf langað í peninga. Mig langar í mikið af peningum. Bandaríski rapparinn 21 Savage sagði einu sinni í viðtali að honum væri drullusama hver besti rapparinn væri. Hann vildi ekkert vera með í þeim samanburði. Hann var að reyna að vera ríkasti rapparinn. Ég tengi við það, þó að ég sé mjög stoltur af rappinu. Ég trúi því að ég sé langbesti rapparinn á Íslandi en ég vil líka græða,“ segir hann.
Viðtalið við Herra Hnetusmjör, ásamt fullt af öðru vönduðu efni, má lesa í Mannlífi sem kemur út á morgun, föstudaginn 17. ágúst.
Myndir / Hallur Karlsson