Nýi vörulistinn frá IKEA á Íslandi kemur út síðar í þessum mánuðinu, en við á Mannlíf sögðum frá bandaríska vörulistanum fyrir stuttu. Sá íslenski er frábrugðin þeim bandaríska þar sem öll þau lönd þar sem IKEA hefur fest rætur setja ekki eins vörur á markað.
Í íslenska vörulistanum er sýnt frá sjö mismunandi heimilum með mismunandi áherslum. Þetta er allt frá átján fermetra íbúð að einstaklega umhverfisvænu húsnæði, þannig að flestir ættu að geta fundið eitthvað sem heillar í listanum.
Forsvarsmenn IKEA leggja sérstaka áherslu á lífið heima fyrir og við vinnslu bæklingsins var stuðst við rannsóknir fyrirtækisins á heimilislífi fólks og það sem veldur fólki mestu hugarangri.
Í rannsóknum IKEA kemur fram að um heim allan telja 27% manna að samfélagið leggi of mikla pressu á okkur að búa með færri hlutum. Um 49% segja að helsta orsök rifrilda á heimilinu sé óreiða og á mörgum heimilum er fólk ósammála um hvað eigi að vera inni á heimilinu.
Í nýja vörulistanum eru tvö heimili sem taka á þessum atriðum. Annað heimilið snýst um smáhluti og hvernig sé best að skipuleggja þá. Á hinu er kyrrð og samhljómur, með áherslu á sniðugar geymslulausnir.
Nýi vörulistinn er ólíkur fyrri listum þar sem í þetta sinn eru sýnd heimili, ekki herbergi. IKEA vörurnar eru sýndar eftir samræmi og eftir stíl eða litaþema til að auðvelda lesendum að innrétta með IKEA vörum. Að auki er að finna leiðbeiningar í listanum til að skapa ákveðið útlit á viðráðanlegu verði.
IKEA vörulistinn er prentaður á FSC-vottaðan pappír, og er í raun öll framleiðsla listans vottuð frá skógi til prentara, til að tryggja sjálfbærari uppruna á viðartrefjum. Listinn er tæplega þrjú hundruð blaðsíður og kemur, eins og áður segir, út síðar í þessum mánuði. Þangað til getum við skoðað nokkrar myndir úr listanum sem Mannlíf fékk sendar frá IKEA á Íslandi: