Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson við tökur á stórri ofurhetjumynd.
Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson greindi frá því á Twitter-síðu sinni að hann væri staddur í Suður-Afríku (sjá mynd) þar sem tökur eru að fara að hefjast á næstu mynd hans, ofurhetjumyndinni Bloodshot. Í myndinni fer Jóhannes Haukur með hlutverk illmennisins Nick Barris, en það er enginn annar en stórstjarnan Vin Diesel sem fer með aðalhlutverkið.
Upphaflega stóð til að Jared Leto færi með hlutverk þorparans en ekki varð af því og var Jóhannes Haukur ráðinn í hans stað. Komi myndin til með að ganga vel í miðasölunni má fastlega búast við að ráðist verði í gerð fleiri mynda upp úr myndasögunni Bloodshoot sem myndin byggir á en Valiant, útgefandi hennar, og Sony hafa gert samning um gerð fimm slíkra mynda.