Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

„Tækifæri sem fæst bara einu sinni í lífinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tryggvi Snær Hlinason er á fljúgandi ferð upp á stjörnuhimin alþjóðlega körfuboltans.

Ferill Tryggva:
Janúar 2014 mætir á sína fyrstu körfuboltaæfingu hjá Þór Akureyri
2014. Spilar sinn fyrsta meistaraflokksleik með Þór
Íþróttamaður Þórs á Akureyri 2015
2015. Valinn í landsliðsúrtök: U-18 og A-landslið karla
2015. Spilaði með U-18 ára landsliðinu bæði Norðurlandamótinu og Evrópumótinu
2016. Fyrsti leikur með A-landsliðinu
Valinn í lokahóp A-landsliðsins fyrir undankeppni EM
Íþróttamaður Þórs á Akureyri 2016 og Körfuboltamaður Þórs 2016
Júní 2017. Skrifar undir samning við Valencia á Spáni, ríkjandi meistara.
Júní 2017. Spilar með A-landsliði Íslands á smáþjóðaleikunum
Júlí 2017. Valinn í lið mótsins í A-deild U-20 ára eftir frábæran árangur á mótinu
Ágúst 2017. Valinn í 15 manna æfingahóp fyrir EuroBasket 2017
September 2017. Leikur á EM í Finnlandi, EuroBasket 2017 með landsliði karla
Sumar 2018. Fer í nýliðaval NBA, en er ekki valinn. Tekur þátt í sumardeild NBA með Toronto Raptors.
Tímablilið 2018-2019. Er lánaður tili Monbus Obradoiro í efstu deild til að fá fleiri leikmínútur.
Mynd/ KKI

Tryggvi Snær Hlinason skaust upp á stjörnuhimin alþjóðlegs körfubolta með ógnarhraða og erlendir miðlar halda vart vatni yfir ótrúlegri sögu hans. Bóndasonurinn úr Bárðardal er samningsbundinn körfuboltaliði Valencia á Spáni til fjögurra ára, tók þátt í nýliðavali NBA-deildarinnar í Bandaríkjunum fyrr í sumar og er undanfarnar vikur búinn að vera heima í sveitinni eftir að hafa leikið með liði Toronto Raptors í sumardeild NBA í Las Vegas og allt þetta aðeins fjórum árum eftir að hann byrjaði að æfa körfubolta norður á Akureyri.

Tryggvi Snær er ekki maður margra orða og lætur sér, að því er virðist, fátt um eigin frama finnast. Hann segir reynsluna af því að spila í sumardeildinni aðallega hafa veitt sér innsýn í hvernig körfuboltinn gengur fyrir sig í Bandaríkjunum.
„Það er í sjálfu sér ekki hægt að bera saman hvernig þetta gengur fyrir sig í Bandaríkjunum og Evrópu,“ segir hann. „En það var gaman að kynnast þessu og ég er spenntur fyrir framhaldinu.“

Spurður hvort hann viti eitthvað hvert það framhald verður segir Tryggvi Snær svo ekki vera, en hann stefni að því að komast inn í NBA-deildina. Hvernig það þróist verði bara að koma í ljós. Honum líði vel í Valencia og liggi ekkert á.
„Valencia er með gott lið, borgin er mjög falleg og veðrið er gott svo ég hef ekki undan neinu að kvarta þar,“ segir hann og hlær.

Ekki hægt að segja nei
Tryggvi Snær hefur oft talað um það í viðtölum að körfuboltaferillinn hafi alls ekki verið það sem hann stefndi að í framtíðinni þegar hann byrjaði að æfa með Þór á Akureyri eftir að hafa byrjað nám í Verkmenntaskólanum þar.
„Ég ætlaði aldrei svona langt inn í þetta,“ segir hann. „Planið var bara að byrja að æfa körfubolta til að halda mér í formi, en það plan breyttist mjög hratt og þetta varð mun stærra í sniðum en ég hafði reiknað með.“

„… það að hafa tekið þátt í nýliðavalinu og spilað í sumardeildinni eru ákveðin þrep á leiðinni upp í deildina og síðan taka bara við samningaviðræður við þau lið sem sýna manni áhuga.“

Var hann aldrei efins um að halda út á þessa braut?
„Það var ekki hægt að segja nei,“ segir hann ákveðinn. „Þetta var svo spennandi og opnaði svo marga glugga að það kom ekki annað til greina en að kýla á það.“

Kærasta Tryggva Snæs, Sunneva Dögg Robertson, er afrekskona í sundi og er á leið í háskólanám í Bandaríkjunum í haust eftir að hafa dvalið með honum í Valencia síðastliðið ár. Það er væntanlega enn einn hvatinn til þess að reyna að komast á samning í Bandaríkjunum, eða hvað?
„Já, ég neita því ekki,“ segir hann. „Það væri allavega ekki verra.“

- Auglýsing -

Reynir að gera sitt besta
Tryggvi Snær vill ekki gera mikið úr þeim breytingum sem orðið hafa á lífi hans síðustu árin, þótt þær hafi vissulega verið róttækar. „Þetta er bara svo skemmtilegt,“ segir hann brosandi. „Ég veit að þetta er tækifæri sem fæst bara einu sinni í lífinu og ég reyni bara að gera mitt besta og standa mig.“

Tryggvi Snær er ekki beint að falla á tíma með að komast áfram í körfuboltaheiminum, hann er ekki nema tvítugur og hann segir að það geti þess vegna verið allt að tuttugu ár eftir hjá honum í þeim heimi. „Það er reyndar mjög bjartsýn spá,“ segir hann og hlær. „En það er alltaf séns.“

Tryggvi Snær er búinn að njóta sumarsins heima í Bárðardal en spurður hvort hann sé ekki nokkurs konar þjóðhetja í dalnum vill hann sem minnst úr því gera. „Nei, ég myndi nú ekki segja það,“ segir hann yfirvegaður. „Auðvitað er maður vel þekktur, en þegar maður kemur heim fer maður bara í gamla gírinn og er fljótur að falla inn í mynstrið sem var manni eðlilegt. Ég hjálpa pabba og mömmu við bústörfin og hitti fólk sem ég þekki og svona. Allt voða rólegt. Það er mjög gott að vera kominn heim aftur og ég ætla mér að njóta þess.“

- Auglýsing -

Stefnir enn að NBA-deildinni
Áður en körfuboltinn tók völdin í lífi hans stefndi Tryggvi Snær að því að verða bóndi og taka við búinu af foreldrum sínum þegar þar að kæmi. Eru þau sátt við að þau plön hafi breyst?
„Þau hafa ekkert endilega breyst,“ fullyrðir hann. „Það er bara ekki tímabært að slá neinu föstu um framtíðina. Ég veit það af eigin reynslu að viðmið manns geta breyst mjög hratt. Það er ekki eins og það sé tímabært að afskrifa foreldra mína strax, þetta er ekkert sem þarf að taka ákvörðun um hér og nú.“

Næstu skref Tryggva Snæs, nú eftir að sumarfríinu í sveitinni lýkur, eru að fara aftur til Valencia og halda áfram að spila í Evrópu, en draumurinn er að komast á samning við bandarískt lið sem leikur í NBA-deildinni og hann segist munu halda áfram að reyna að koma sér á framfæri þar.

„Það er harður heimur, mikil samkeppni og margir sem vilja komast þangað,“ segir hann. „En það að hafa tekið þátt í nýliðavalinu og spilað í sumardeildinni eru ákveðin þrep á leiðinni upp í deildina og síðan taka bara við samningaviðræður við þau lið sem sýna manni áhuga. Það kemur allt í ljós. Eins og er tek ég bara einn dag í einu.“

Aðalmynd / Anton Brink

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -