Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Kjánalegir frasar, yfirdrifinn hasar og hlægileg áhættuatriði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tómas Valgeirsson kvikmyndagagnrýnandi og blaðamaður deilir sínum sakbitnu sælum með lesendum.

Spice World (1997)

Spice World er eins og svar Bretlands við Með allt á hreinu, ekki síður í ljósi þess að báðar kvikmyndir innihalda senur þar sem þekkt band kemst í kynni við geimverur og gengur söguþráðurinn ekki út á neitt nema að hafa gaman. Í Spice World er kjánahrollurinn allsráðandi og leikhæfileikar Kryddpíanna langt frá því að vera neitt til að hrópa húrra yfir (þótt hún Geri standi sig eflaust best af öllum hópnum). Söguþráðurinn er þvældur, fáránlegur og ekki undir neinum kringumstæðum ætti myndin að teljast fólki bjóðandi í dag. En gleðiorka stelpnanna er hressilega smitandi, andinn svo flippaður, framvindan furðuleg og jaðrar það við hreina dásemd að sjá fullt af frægu liði skjóta upp kollinum í fáránlegum gestahlutverkum. Og svarið er já, ég fíla tónlistina líka en við skulum ekki fara nánar út í það.

Never Back Down (2008)

Hvað gerist þegar þú endurgerir The Karate Kid fyrir aldamótakynslóðina, með MMA-slagsmálum og án þess að viðurkenna að um endurgerð sé að ræða? Never Back Down er sú mynd, en ekki nóg með það, heldur eru klisjurnar svo yfirdrifnar og margar að það mætti auðveldlega halda að myndin sé bein „paródía“. Handritið er tóm, ólgandi tjara og áhorfandinn er í hættu við það að fá alvarlegar tannskemmdir yfir því að gnísta tönnum yfir illa skrifuðum samræðum. Never Back Down er hins vegar svo alvörugefin og púkaleg að hún gefur frá sér einhvern ljóma sem gerir hana að stórskemmtilegum sora. Að öðru leyti eru slagsmálasenurnar merkilega flottar og taka allar Karate Kid-kvikmyndirnar í nefið. Einnig verður að segjast að aðalleikari myndarinnar lítur ískyggilega mikið út eins og ungur Tom Cruise. Gefum henni prik fyrir það.

Commando (1985)

Ef þú ert að leita að hornsteini kjánalegra „eitís“-hasarmynda, þá er Commando hættulega nálægt toppnum. Hún hefur allt sem þarf; kjánalega frasa, yfirdrifinn hasar, hlægileg áhættuatriði og illmenni sem sigrar Freddy Mercury-tvífarakeppnina. Hann „Ahnuld“ Schwarzenegger er í hörkustuði og tekur sig alvarlega með prýði, en það er ekki auðvelt markmið þegar persóna hans gengur undir hinu kostulega nafni John Matrix. Því er það ekkert nema gargandi snilld að horfa á Commando í góðum félagsskap, sérstaklega með þeim sem hafa aldrei séð hana. Það verður hlegið fram á næsta dag. Því get ég lofað.

Blossi – 810551 (1997)

Blossi er algjört barn síns tíma, en hvílíkt barn! Myndin á sér hreinlega engan sinn líka og er nánast svo rugluð og vond að hún fer heilan gæðahring og er nálægt því að vera költ-gimsteinn fyrir vikið. Myndin er pönkuð, stefnulaus, súrrealísk, illa leikin niður í tær og í sjálfu sér algjört frávik í íslenskri kvikmyndagerð hvað byggingu og speki varðar. Stíllinn er hraður, háfleygur og lokaatriðin þarf nánast að sjá til að trúa. Það að myndin skuli ekki enn vera fáanleg í neinu stafrænu formi er glæpi líkast fyrir okkar dægurmenningu. Blossi má alls ekki þurrkast út úr íslenskri kvikmyndasögu, hvort sem við elskum hann, hötum, elskum að hata eða öfugt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -