Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Einstakt að ganga í bjartri nóttunni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jónsmessunæturferðir frá Fimmvörðuhálsi yfir að Básum hafa notið sívaxandi vinsælda en ferðin markar hápunkt í starfi Útivistar ár hvert.

Skúli Skúlason, framkvæmdarstjóri Útivistar.

„Það sem gerir þessa göngu einstaka er kannski fyrst og fremst sú stemning sem fylgir því að ganga í bjartri nóttinni.  Kyrrðin verður næstum áþreifanleg, jafnvel fuglarnir eru farnir að sofa,“ segir Skúli Skúlason, framkvæmdarstjóri Útivistar.

Gangan fer þannig fram að brottför er síðdegis á föstudegi frá BSÍ.  Ekið að Skógum og gengið yfir nóttina yfir Fimmvörðuháls með nokkrum stoppum á leiðinni, meðal annars við skála Útivistar efst á Fimmvörðuhálsi þar sem boðið verður upp á heita kjötsúpu.  Stuttan spöl norðan við Fimmvörðuskála eru tvö yngstu fjöll landsins, þeir bræður Magni og Móði. Gengið er upp á Magna og horft yfir splunkunýtt apalhraunið sem enn rýkur úr. Það er einstök tilfinning að standa á eldfjallinu og finna hve jörðin er volg undir iljunum.

Áfram er haldið í norður og fljótlega blasir Fjallabak við í morgunbirtunni. Gengið er fram á Heiðarhornið en þaðan sést stórkostleg náttúra hvert sem litið er. Síðasti áfangi göngunnar er niður í Strákagil og þaðan heim í Bása þar sem notalegur svefnpokinn bíður þreyttra göngumanna.

Þegar kemur fram á morgun fer hópurinn að týnast í Bása og flestir þá væntanlega orðnir þægilega þreyttir þannig að það verður gott að leggja sig í nokkra klukkutíma. Allur farangur er fluttur yfir í Bása þannig að svefnpoki og tjald verður komið á staðinn þegar þangað er komið. Um kvöldið verður svo slegið upp grillveislu þar sem boðið verður upp á klassískt lambalæri.  Eftir matinn verður svo slegið upp varðeldi og að sjálfsögðu tekið lagið eins og í öllum góðum útilegum.

Skúli segir umgjörðina um þessa göngu vera umfangsmeiri en í venjulegum Fimmvörðuhálsferðum og kjötsúpan uppi á hálsinum sé bara einn þáttur í því.  „Loks er það svo sú stemning sem er í Básum þessa helgi, en fjöldi fólks gerir sér ferð þangað til að upplifa hana þó að það taki ekki þátt í göngunni sem slíkri.“

„Fyrir mörgum kemur sumarið ekki fyrir alvöru fyrr en með Jónsmessugöngunni á Fimmvörðuháls og gleðinni í Básum.“

Fatnaður og góðir skór skipta öllu máli
Að hans sögn er lögð áhersla að fara ekki of hratt yfir og alltaf sé gætt vel af því að hafa nægilega marga fararastjóra með í för svo þörfum allra sé sinnt, hvort sem þeir fari hægt yfir eða hratt.  „Það er snúnara að hætta við á miðri leið. Við gerum þó ráðstafanir til að geta brugðist við ef einhverjir gefast upp eða meiðast og geta ekki haldið áfram göngu. Ég tel þessa ferð henta öllum sem á annað borð geta stundað göngur.  Það er þó rétt að hafa í huga að leiðin er 24 km sem er nokkuð drjúg dagleið og auk þess verið að ganga að næturlagi.“

- Auglýsing -

Þegar kemur að útbúnaði fyrir slíka ferð segir hann mikilvægt að huga að góðum gönguskóm og hlífðarfatnaði. „Mikilvægt er að hafa meðferðis allt sem göngumaðurinn þarfnast og forðast að taka með sér óþarfa hluti sem hægt er að vera án. Of þungar byrðar gera ferðina erfiðari og draga úr ánægju göngumannsins af henni. Fyrir utan líkamlegt atgervi gegna skóbúnaður og fatnaður lykilhlutverki. Veðrið í bænum við brottför segir ekki allt um hvernig veðrið er uppi á Fimmvörðuhálsi. Það má alveg ganga að því vísu að þar sé talsvert kaldara, ekki síst um miðja nótt.  Hlý undirföt, millilag og svo er nauðsynlegt að vera með regnheldan jakka og buxur í bakpokanum, jafnvel þótt það sé sólskin við brottför.  Svo þarf líka að vera með orkuríkt nesti og vatnsflösku. Líkaminn þarf orku í gönguna og þó svo við bjóðum upp á hressingu á leiðinni er það ekki nóg.“

Gengið er yfir nóttina yfir Fimmvörðuháls með nokkrum stoppum á leiðinni, meðal annars við skála Útivistar efst á Fimmvörðuhálsi þar sem boðið verður upp á heita kjötsúpu.

Að því sögðu segir Skúli að mikil tilhlökkun sé vegna göngunnar því ferðin marki alltaf ákveðin hápunkt í starfi Útivistar. „Við leggjum allt í að gera þessa helgi skemmtilega og fyrir mörgum kemur sumarið ekki fyrir alvöru fyrr en með Jónsmessugöngunni á Fimmvörðuháls og gleðinni í Básum. Á sunnudeginum er svo lagt af stað heim með rútum um hádegisbilið en fararstjórar Útivistar sjá um alla leiðsögn á heimleiðinni. Þar eru fjölmörg náttúruundur sem vert er að skoða á leiðinni með kærkomnum kaffistoppum.“

Áríðandi er að hafa meðferðis allt sem göngumaðurinn þarfnast.
Góður skóbúnaður og hlífðarfatnaður er m.a. mikilvægur.
Hlý undirföt, millilag, regnheldur jakki og buxur í bakpokanum.
Orkuríkt nesti og vatnsflaska.
Ekki of þungar byrðar.
Gott líkamlegt atgervi.

- Auglýsing -

Myndir / úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -