Mannlíf hefur síðustu vikur fjallað ítarlega um mál þriggja stúlkna sem kærðu háttsettan lögreglumann fyrir kynferðisbrot. Mál stúlknanna voru felld niður vegna ónægra sannanna. Maðurinn var ekki leystur frá störfum meðan á rannsókn stóð og starfar enn í lögreglunni.
Umfjöllun Mannlífs hófst með forsíðuviðtali við mæðgurnar Halldóru Baldursdóttur og Helgu Elínu. Árið 2007 var dóttur Helgu Elínu, sem þá var tíu ára gömul, boðið í sumarbústaðaferð með skólasystur sinni, Kiönu Sif Limehouse, móður hennar og stjúpföður. Í kjölfar þessarar ferðar urðu breytingar á hegðun Helgu en Halldóra tengdi þær ekki við ferðina. Fjórum árum eftir umrædda sumarbústaðaferð, þann 5. október 2011 var Halldóra boðuð á fund í skóla dóttur sinnar.
„Skólastjórinn hringdi og ég heyrði strax á raddblænum að fundurinn snérist ekki um skróp eða heimavinnu. Á fundinum voru auk okkar umsjónarkennari Helgu og fulltrúi frá barnavernd. Þarna var mér tilkynnt hvað hafði gerst. Dóttir mín hafði trúað vinkonu sinni fyrir því að stjúpfaðir skólasystur þeirra hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi í sumarbústaðaferð fjórum árum áður. Vinkonan hvatti Helgu til að segja frá og saman fóru þær til umsjónarkennarans. Heimurinn hrundi. En á þessari stundu féllu öll púslin saman varðandi líf okkar síðustu ár á undan,“ sagði Halldóra í viðtali við Mannlíf.
Lögreglumaðurinn sakaði stúlkurnar um samsæri gegn sér
Þegar að Helga steig fram og sagði frá meintu broti höfðu tvær aðrar stúlkur kært lögreglumanninn fyrir kynferðisbrot; fyrrnefnd stjúpdóttir hans, Kiana Sif Limehouse, og önnur stúlka. Halldóra hefur mikið út á rannsókn málsins að setja og í vetur skrifaði hún bréf til nefndar um eftirlit með lögreglu þar sem hún óskar eftir því að málsmeðferðin verði skoðuð og gripið til viðeigandi ráðstafana.
„Málin voru ekki rannsökuð saman sem hefði styrkt staðfastan framburð stúlknanna og málin í heild. Fram kemur í rannsóknargögnum að maðurinn saki stelpurnar um samsæri gegn sér. Ekkert var gert til að hrekja slíkt. Aðra stúlkuna þekki ég ekki en hin hafði verið vinkona Helgu. Með því að skoða Facebook-samskipti þeirra var augljóst að þær höfðu ekki verið í neinum samskiptum fyrr en eftir að málið kom upp. Við rannsókn málsins var mikið lagt upp úr nákvæmri tímasetningu sumarbústaðaferðarinnar og ég lagði fram símagögn sem sýndu símtöl milli mín og síma þeirra fyrir umrædda helgi. Ég mundi að Helga hafði hringt úr síma foreldra skólasystur sinnar þegar hún bað um að fá að fara í ferðina. Samskipti voru ekki við þau hvorki fyrr né síðar og því var tímasetningin nokkuð nákvæm. Mér fannst nákvæm tímasetning ekki skipta öllu máli, heldur að þessi atburður gerðist. Sakborningur lagði hins vegar fram ósannreynt vinnuvottorð sem niðurfelling málsins byggði meðal annars á. Excel-skjal sem sýndi að hann hefði verið í vinnunni á þessum tíma. Excel-skjal sem hann sendir lögfræðingi sínum sem áframsendir það. Ég meina, í hvaða bananalýðveldi heldur slíkt skjal fyrir dómi? Hver sem er getur farið inn í vinnustundir og breytt stimpilklukkunni eftir á. Ekkert annað var skoðað til að sjá hvort lögreglumaðurinn hefði í raun verið í vinnunni umrædda helgi,“ sagði Halldóra í umræddu viðtali við Mannlíf.
Háttsettur embættismaður bar við minnisleysi vegna drykkju
Þá sagði hún einnig að sakborningurinn hafi farið með á vettvang þegar sumarbústaðurinn var rannsakaður. Vinahjón sakbornings voru með í ferð í umræddri sumarbústaðaferð, en vinur mannsins er háttsettur embættismaður hjá hinu opinbera. Skýrslutaka yfir þeim fór fram á skrifstofu embættismannsins, að sögn Halldóru, og báru þau hjónin við minnisleysi vegna drykku. Niðurfelling málsins var meðal annars byggð á þeim vitnisburði að sögn Halldóru, en við rannsókn málsins kom fram að klámefni hafði verið haft fyrir börnunum í ferðinnni. Þá gagnrýnir Halldóra að skýrslur úr Barnahúsi hafi ekki haft meira vægi.
„Fyrir liggja skýrslur frá sérfræðingum í Barnahúsi, sálfræðingum sem sérhæfa sig í áföllum barna og læknum sem staðfesta að Helga varð fyrir miklum skaða í þessari sumarbústaðaferð. Mér finnst óskiljanlegt að þessar skýrslur hafi ekkert vægi haft þegar tekin var ákvörðum um framhald málsins. Réttarkerfið er handónýtt þegar kemur að börnum. Það stíga endalaust upp tröll sem segja að allir séu saklausir uns sekt er sönnuð. Þá spyr ég: Hvað þarf til að sanna sekt? Ég er með barn sem búið er að segja frá í Barnahúsi. Hún er trúverðug, hún hefur öll einkenni þess að hafa orðið fyrir broti. Hvað þarf meira?“
Enginn tekur ábyrgð á málinu
Þegar að málið kom upp sendi Halldóra póst á þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, Stefán Eiríksson. Hann vísaði erindingu á Harald Johannessen, ríkislögreglustjóra. Í samtali við Mannlíf lýsti Halldóra þeirri tilfinningu sinni að ríkislögreglustjóri hafi brugðist henni og dóttur hennar, þar sem hann vildi „ekkert fyrir okkur gera.“
Haraldur Johannessen hefur ekki viljað svara spurningum Mannlífs persónulega um þetta mál. Samkvæmt yfirlýsingu frá embætti ríkislögreglustjóra fór embættið þess á leit við ríkissaksóknara að fá afhent rannsóknargögn málsins til þess að unnt væri að taka ákvörðun um hvort leysa skyldi lögreglumanninn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Ríkissaksóknari hafnaði erindi Embættis ríkislögreglustjóra með vísan til heimildarskorts í lögum. Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sagði hins vegar í samtali við Stundina að ríkissaksóknari hafi sent „ríkislögreglustjóra allar upplýsingar um málið vegna fyrirhugaðrar ákvarðanatöku hans um það hvort veita ætti viðkomandi lögreglumanni lausn frá störfum.“
Stefán Eiríksson starfaði sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins meðan á rannsókn málsins stóð. Stefán kveðst ekki hafa fylgst með umfjöllun um málið og neitar að tjá sig um það við blaðamenn Mannlífs.
Hrakti fullyrðingar ríkislögreglustjóra
Embætti ríkislögreglustjóra sendi frá sér yfirlýsingu sama dag og viðtal við mæðgurnar Halldóru og Helgu Elínu birtist í Mannlífi, þar sem embættið hafnaði þeirri fullyrðingu Halldóru að embættið hafi brugðist dóttur sinni. Í kjölfarið sendi Halldóra bréf til Mannlífs þar sem hún vísaði í bréf frá Innanríkisráðuneytinu:
„Samkv. 5. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skipar ríkislögreglustjóri lögreglumenn til starfa til fimm ára í senn. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skal það stjórnvald sem skipar í embætti veita og lausn frá því um stundasakir. Þannig er það á ábyrgð ríkislögreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti um stundasakir eða að fullu. Svo sem fram kemur í gögnum málsins taldi embætti ríkislögreglustjóra sér ómögulegt að veita viðkomandi lögreglumanni lausn um stundasakir þar sem embættinu var synjað um upplýsingar um rannsókn sakamáls á hendur honum.
Embætti ríkislögreglustjóra upplýsti ráðuneytið um ofangreint með bréfi dags. 21. nóvember sl. Með bréfi dags 13. mars sl. upplýsti ráðuneytið embætti ríkislögreglustjóra um þá afstöðu sína að það væri mat ráðuneytisins að engin réttarfarsleg rök væru fyrir hendi sem réttlætt gætu afhendingu rannsóknargagna í málum sem þessum. Þá kom það fram það mat ráðuneytisins að synjun á afhendingu gagna sakamáls leiði ekki til þess að ómögulegt verði fyrir veitingarvaldshafann að meta hvort forsendur séu til þess að veita embættismönnum lausn um stundasakir ….. “
Í stuttu máli þá var það mat ráðuneytisins að það væri á ábyrgð ríkislöreglustjóra að veita lögreglumanni lausn frá embætti um stundarsakir eða að fullu og að það væri ekki ómögulegt að meta hvort að forsendur væru til þess að veita embætismönnum lausn um stundarsakir þó embætti ríkislögreglustjóra hafi verið synjað um gögn frá ríkissaksóknara.
„Hann sýndi að mínu mati ekki kjark og þor til að standa með barninu mínu”
Þá vísaði Halldóra einnig í bréf sem hún fékk frá Umboðsmanni Alþingis:
„….Samkvæmt framangreindu er það innanríkisráðherra sem er æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu. Það er hins vegar á herðum ríkislögreglustjóra að veita lögreglumönnum lausn frá embætti en lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að fara með daglega stjórn lögreglunnar í sínu umdæmi.“
Þá hrakti Halldóra þá fullyrðingu sem kom fram í yfirlýsingu frá embætti ríkislögreglustjóra um að embættið hefði fyrst heyrt af málinu í fjölmiðlum:
„Að lokum, þá segir ríkislögreglustjóri í fréttatilkynningu sinni: „Embættið fékk fyrst fregnir af málinu í fjölmiðlum og átti frumkvæði af því að óska upplýsinga um málið frá ríkissaksóknara, en embættinu hafði ekki verið tilkynnt um málið.“ Hið rétta er að 4. nóvember 2011 sendi ég ríkislögreglustjóra tölvupóst um málið en það var ekki fyrr en 7. nóvember 2011, eða þrem dögum síðar, sem fjölmiðlar fjölluðu fyrst um málið.““
Embættismenn meta eigin hæfni
Í kjölfar þessa orðaskipta birtist viðtal í Mannlífi við núverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, Sigríði Björk Guðjónsdóttur. Í viðtalinu sagði hún að ekki væri venja að sakborningar færu með rannsakendum á vettvang.
„Lögregla rannsakar venjulega brotavettvang án þess að sakborningar eða vitni séu viðstödd, en undantekningar kunna að vera á því,“ sagði Sigríður Björk og bætti við að lögreglumaður eigi rétt á að starfa áfram sé mál gegn honum fellt niður.
„Sé mál gegn lögreglumanni fellt niður eða hann sýknaður í dómi þá á hann rétt á að halda sínu starfi enda er hver sá maður sem borinn er sökum saklaus uns sekt er sönnuð. Hingað til hefur sú framkvæmd verið viðurkennd að forstöðumaður geti fært starfsmenn í aðrar deildir eða önnur verkefni, svo fremi að launakjör og stöðuheiti séu óbreytt.“
Lögreglustjóri segir að verklagsreglum lögreglu hafi verið breytt
Halldóra sagði einnig frá atviki sem gerðist nýlega þar sem hún þurfti á lögregluaðstoða að halda. Þá átti lögreglumaðurinn sem var kærður fyrir að brjóta á dóttur hennar að mæta á vettvang, en Halldóra fékk því breytt. Sigríður Björk sagði í viðtali við Mannlíf að í slíkum tilvikum þyrftu embættismenn að meta sína eigin hæfni.
„Ef ekki hafa verið sett sérstök skilyrði fyrir því að viðkomandi annist ekki ákveðin verkefni, er ekki tilefni til tiltals, hins vegar þarf embættismaður að meta hæfi sitt hverju sinni, með tilliti til frændskapar eða annarra atriða sem áhrif geta haft á störf hans eða þjónustu viðkomandi yfirvalds.“
Varðandi skýrslutöku á skrifstofu háttsetta embættismannsins, vin sakbornings, sagði Sigríður Björk það alls ekki venju.
„Skýrslutökur á rannsóknarstigi fara fram fyrir luktum dyrum og helst á lögreglustöð sé þess kostur eða öðru sérútbúnu húsnæði. Skýrslutaka fer stundum fram á brotavettvangi eða öðrum stöðum, en ávallt skal gæta þess að spyrja án nærveru annarra. Það er sjaldgæft að skýrslutaka yfir vitnum fari fram á starfsstöð viðkomandi.“
Sagði að þetta væri leyndarmálið þeirra
Svo var það síðasta föstudag að Kiana Sif Limehouse prýddi forsíðu Mannlífs. Kiana er ein af stúlkunum þremur sem sökuðu lögreglumanninn um kynferðisbrot, en hún var stjúpdóttir mannsins þegar meint brot áttu sér stað. Kiana og Helga Elín voru vinkonur þegar þær voru börn og bauð Kiana Helgu Elínu í umrædda sumarbústaðaferð þar sem brotið var á Helgu Elínu að hennar sögn. Kiana sagði í viðtali við Mannlíf að brotin hafi byrjað þegar hún nálgaðist kynþroskaaldurinn.
„Kvöldið áður en ég sagði frá misnotaði hann mig í seinasta skiptið“
„Ég svaf alltaf uppi í rúmi hjá mömmu þegar hann var að vinna. Þegar hann færði mig á milli rúma man ég eftir að hann byrjaði að þukla brjóstin á mér. Ég var vakandi en lét sem ég svæfi. Ég vissi að þetta var ekki rétt en ég sagði ekki neitt. Ég var lítil og hafði ekki vit á því að þetta væri óeðlilegt. Síðan fór þetta að vinda upp á sig. Hann bauð mér að smakka áfengi og einhverju síðar man ég eftir honum standandi í dyrunum á herberginu mínu þegar ég var sofandi. Þá hafði hann verið að drekka og þuklaði á sjálfum sér. Eitt kvöldið tók hann það skref að koma inn í herbergið mitt og snerta mig. Hann setti puttana inn í píkuna á mér og hélt mér þannig að ég myndi ekki snúa mér við. Þegar ég bað hann um að hætta sagði hann að þetta væri bara leyndarmálið okkar. Ég man enn í hvernig buxum hann var þetta skiptið. Ég man enn hvernig rakspírinn hans lyktaði.“
„Hefði ég getað gargað og öskrað á hjálp? Já, en ég gerði það ekki“
Í viðtalinu rifjaði hún upp sumarbústaðaferðina.
„Við Helga sváfum á uppblásinni dýnu við hliðina á sófanum og þegar stjúpi minn og vinur hans héldu að við værum sofnaðar byrjuðu þeir að tala um kynlíf. Það næsta sem ég man er að seinna um nóttina kom stjúpi minn fram og allt í einu greip Helga í hendina á mér og bað mig um að hjálpa sér. Ég stirðnaði. Ég vissi nákvæmlega hvað var að gerast en ég gerði ekki neitt. Eins ógeðslegt og það hljómar þá var ég fegin að þetta væri ekki ég en í dag vildi ég að þetta hefði verið ég, í staðinn fyrir að þetta kæmi fyrir einhvern annan. Daginn eftir vildi Helga fá að hringja í mömmu sína en hún fékk það ekki. Restin af ferðinni er bara í móðu.”
Í kjölfarið flosnaði upp úr vinskapnum en þær stöllur náðu nýverið saman aftur. Kiana sagði að henni hafi lengi liðið eins og hún bæri ábyrgð á meintri árás.
„Ég lokaði á þetta í svo langan tíma. Mér fannst ég bera ábyrgð á að þetta hefði komið fyrir hana svo lengi og því fylgdi mikil skömm. Mér fannst eins og ég hefði valdið henni vonbrigðum og að ég hefði ekki verið sönn vinkona. Í dag veit ég að þetta var ekki mér að kenna. Langt frá því. Hefði ég getað gargað og öskrað á hjálp? Já, en ég gerði það ekki. Það er ein mín stærsta eftirsjá í lífinu.“
„Hvað ef þetta væri dóttir einhvers innan þessara embætta?“
Kiana sagði frá ofbeldinu ári eftir sumarbústaðaferðina en lögreglumaðurinn var ekki ákærður vegna ónógra sannanna. Í kjölfarið leiddist Kiana út í heim eiturlyfja og var farin að neyta þeirra daglega aðeins þrettán ára gömul. Hún er búin að vera edrú í tæp þrjú ár og segir, líkt og Halldóra og Helga Elín, að réttarkerfið hafi brugðist henni.
„Ég skil þetta ekki. Voru orð mín ekki nóg? Eða hinna tveggja? Ég bara fatta þetta ekki… Það benda allir hver á annan. Hvað ef þetta væri dóttir einhvers innan þessara embætta? Eða sonur? Væru þetta viðbrögðin þá? Ég efast um það. Ég fyllist viðbjóði að hugsa til þess að þessi maður fái enn að vinna innan veggja lögreglunnar. Að hann fái að vinna þar sem brotnir einstaklingar leita sér hjálpar. Það gerir mig bilaða. Réttarkerfið á Íslandi er til háborinnar skammar. Það hefur ekki bara brugðist mér og Helgu, heldur svo ótal fleirum.“
Mannlíf mun halda áfram að kafa ofan í mál stúlknanna þriggja á næstu vikum.