„Það ríkir mikið agaleysi innan slökkviliðsins, baktal er gríðarlegt og það er illa og allt of oft of seint tekið á málum sem upp koma,“ segir Gísli Þór Briem, fyrrverandi liðsmaður Slökkviliðs Fjarðabyggðar í framhaldi af umfjöllun Mannlífs um kvörtun vegna eineltis innan slökkviliðsins. Hann er ekki einn um þá fullyrðingu, það virðist vera áhyggjuefni margra íbúa sveitarfélagsins að starfsmannamál slökkviliðsins séu í ólestri og Andrea Björk Sigurvinsdóttir, fyrrverandi liðsmaður Slökkviliðs Fjarðabyggðar, er langt því frá sú eina sem lagt hefur fram kvörtun til vinnueftirlitsins vegna slíkra mála.
Viðtal Mannlífs við Andreu Björk í síðasta tölublaði hefur vakið mikil viðbrögð. Margir hafa haft samband við ritstjórnina og þakkað fyrir umfjöllunina, staðan innan slökkviliðsins hafi lengi verið íbúum Fjarðabyggðar áhyggjuefni. Fyrrverandi liðsmaður slökkviliðsins segir einelti og baktal grassera á vinnustaðnum og þrátt fyrir margar kvartanir sé ekkert gert í málinu.
„Ég var samtíða Andreu Björk í slökkviliðinu í nokkrar vikur, hún tók við starfinu mínu þegar ég hætti sumarið 2017, en saga hennar kom mér ekkert á óvart,“ segir Gísli Þór Briem, fyrrverandi liðsmaður Slökkviliðs Fjarðabyggðar, í samtali við Mannlíf. „Það ríkir mikið agaleysi innan slökkviliðsins, baktal er gríðarlegt og það er illa og allt of oft of seint tekið á málum sem upp koma, þau eru látin grassera afskiptalaust og valda að lokum miklum særindum fyrir þá sem í þeim lenda. Slökkviliðsstjóri hefur sagt að hann vilji að málin leysist af sjálfsdáðum. Fleiri en Andrea hafa hrakist úr vinnunni hjá slökkviliðinu vegna eineltis en það virðist ekki breyta neinu.“
Sagt að þau væru að misskilja hlutina
Andrea Björk lýsti því í viðtalinu að slökkviliðsstjórinn, Guðmundur Helgi Sigfússon, hefði kallað hana á sinn fund til að ræða áreitið sem hún hefði kvartað undan og sagst ætla að gera eitthvað í málinu en ekkert hafi gerst og hann hafi síðan ekkert kannast við það samtal þegar boðað var til sáttafundar milli hennar og þess aðila sem harðast gekk fram í áreitinu. Gísli segir slíkt ekki koma sér á óvart.
„Það virtist ekki vera nein ein regla sem farið var eftir, heldur nokkurs konar hentistefna í hvaða farveg málin fóru. Munnlegir samningar héldu ekki og fljótlega fór að bera á því að ekki var alltaf sagt satt og oft talað um að við „misskildum“ hitt og þetta,“ segir Gísli.
„Þetta ágæta fólk skuldar að mínu mati mörgum afsökunarbeiðni.“
„Mér finnst aðalvandamálið vera vöntun á afgerandi stjórnanda. Þegar þetta atvinnulið var stofnað á sínum tíma var mikill metnaður í öllum til þess að búa til gott og faglegt slökkvilið sem ég tel að það sé, það er gott menntunarstig innan liðsins og það fær mikið lof í samfélaginu fyrir störf sín út á við. Það vantaði hins vegar tölvert á samstöðu innan liðsheildarinnar, þótt flestar vaktir gengju vel.“
Stjórnvöld Fjarðabyggðar skulda mörgum afsökunarbeiðni
Gísli segir ríg milli háttsettra starfsmanna setja mark sitt á andrúmsloftið á slökkvistöðinni.„Þegar liðið var stofnað komu að stjórnun þess þrír yfirmenn, það er að segja slökkviliðsstjóri, aðstoðarslökkviliðsstjóri og eldavarnaeftirlitsmaður,“ útskýrir hann. Tveir þeir síðastnefndu höfðu verið slökkviliðsstjórar með töluverða reynslu, nýi slökkviliðsstjórinn hins vegar var tæknifræðingur starfandi hjá sveitarfélaginu en hafði enga menntun slökkviliðsmanns. Hann hafði komið nálægt sjúkraflutningum og hafði einhverja reynslu af rekstri, en ég ætla ekki lengra út í þá sálma. Við fórum fljótlega að verða varir við að einhver togstreita var á milli þeirra þriggja, alla vega til að byrja með, og fengum svo líka að heyra það frá þeim er lengra leið og þeir töluðu hver um annan á neikvæðan hátt. Þetta varð, að mínu mati, til þess að menn sýndu þeim ekki nægilega virðingu í fyrstu og einnig vantaði fasta sjórnun á hópinn. Ég benti oft á að það vantaði skýrari stjórn, hvort sem mönnum líkaði það betur eða verr. Það voru til dæmis aldrei skipaðir neinir varðstjórar á vaktirnar þannig að það var aldrei skýrt hver réði og hverjum bæri að hlýða í útköllum. Sem var mjög bagalegt. Ég tel að með því að skipa varðstjóra hefði mátt komast hjá mjög mörgum leiðindum sem hafa ekki bara kostað sveitarfélagið mikla peninga, heldur líka sært þá aðila sem þegar hafa hrökklast úr starfi eða verið sagt upp. Þess má að lokum geta að sum þessara mála enduðu inni á borði sveitarstjórnar og eins var reynt að hafa samband við kjörna fulltrúa á þeim tíma sem ég var þarna, en án árangurs. Svo virðist sem stjórnsýslunni hafi lítið fundist til um þetta eða ekki viljað vekja athygli í samfélaginu og ákveðið að láta sem ekkert væri að og styðja sinn mann í einu og öllu. Þetta ágæta fólk skuldar að mínu mati mörgum afsökunarbeiðni.“
Trúnaðarmaður vinnustaðarins meðal gerenda
Auk fjölda tölvupósta og símtala frá fyrrverandi og núverandi starfsmönnum Slökkviliðs Fjarðabyggðar og almennum íbúum sveitarfélagsins, þar sem lýst er miklum áhyggjum af ástandinu innan slökkviliðsins og hvernig forystufólk sveitarfélagsins taki á þeim málum, hefur Mannlíf undir höndum afrit af kvörtunum sem starfsmenn Slökkviliðs Fjarðabyggðar hafa sent Vinnueftirlitinu og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Þar koma fram nokkurn veginn nákvæmlega sömu umkvörtunarefni og Andrea Björk sagði frá í viðtalinu við Mannlíf og byggði sína kvörtun á, en í viðtalinu sagði hún meðal annars:
„Það var alveg sama hvað ég gerði, það var mikið grínast með það á stöðinni hvað ég væri vanhæf. Ég var sökuð um að reyna að koma mér undan erfiðum æfingum í náminu með því að velja mér félaga sem væri sterkur svo ég þyrfti ekkert að gera og svo framvegis. Ég var meira að segja sökuð um að hafa tábrotið mig viljandi í líkamsrækt til að sleppa við erfiðu æfingarnar. Það gekk eiginlega bara allt út á það hjá þessum aðilum að finna eitthvað á mig. Ég til dæmis óskaði eftir sálgæslu eftir mjög erfitt útkall og það þótti afskaplega fyndið og mikill aumingjaskapur.“
Í einni skýrslu þar sem slökkviliðsmaður í Slökkviliði Fjarðabyggðar skilgreinir umkvörtunarefni sín vegna eineltis fyrir Vinnueftirlitinu og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna segir:
Hringt á fyrrverandi vinnustað og fengið upplýsingar um hans getu og hvaða viðurnefni hann gengi undir. Gert mikið grín að viðurnefni.
Baktal að öllu leyti. Reynt að finna eitthvað sem þolandi gæti hafa gert vitlaust og hann tekinn fyrir í baktali. Honum er kennt um allt sem er ekki gert rétt, gerendur láta aðra starfsmenn vita að þolandi er óhæfur.
Andrea Björk lýsir því einnig hvernig yfirmenn hennar hafi tekið á kvörtunum hennar:
„Ég var búin að senda yfirmanni yfirmanns míns, það er að segja þáverandi starfsmannastjóra Fjarðabyggðar, póst um ástandið og setjast á fund með honum og ræða málið. Náttúrlega var öllu fögru lofað og talað um hvað það væri frábært að hafa konu í stéttinni og að hann ætlaði að gera allt til þess að laga stöðuna. Ég ítrekaði erindið nokkrum sinnum við starfsmannastjóra Fjarðabyggðar en smám saman hætti hann svara og samskiptin fjöruðu út án þess að nokkuð væri gert. Þannig að þetta var bara orðið ókleift fjall sem ég réði ekki við.“
Í kvörtun annars liðsmanns Slökkviliðs Fjarðabyggðar segir:
Ítrekaðar ábendingar og kvartanir til yfirmanna vegna eineltis og baktals sem gerendur stunda ítrekað. Gert lítið úr ábendingum og ekkert gert í málinu.
Í skýrslunni eru gerendur nafngreindir og fram kemur að annar þeirra er öryggistrúnaðarmaður á vinnustaðnum og því ekki unnt að leita til hans sem trúnaðarmanns til að reyna að leysa málið. Einnig kemur fram að trúnaðarmaður stéttarfélags starfsmannsins njóti ekki trausts hans og því engin hjálp í honum heldur. Starfsmenn slökkviliðsins upplifi því engan stuðning innan vinnustaðarins og fái ekki lausn sinna mála hjá stjórnendum í bæjarfélaginu.
Slökkviliðsstjóri hefur ekki tjáð sig um málið
Mannlíf hafði samband við slökkviliðsstjóra Slökkviliðs Fjarðabyggðar, Guðmund Helga Sigfússon, og leitaði viðbragða hans vegna málsins. Guðmundur hafði ekki svaraði erindinu þegar blaðið fór í prentun.
Hér að neðan er tölvupóstur sem var sendur á hann:
Sæll aftur Guðmundur,
við erum með smáviðbót við það sem fram kom í viðtalinu við Andreu Björk í blaðinu á föstudaginn. Rætt við fleiri fyrrverandi liðsmenn Slökkviliðs Fjarðabyggðar og vitnað í kvartanir til Vinnueftirlitsins í áþekkum málum o.s.frv.
Þar kemur fram að einelti sé viðvarandi vandamál innan slökkviliðsins og að stjórnendur liðsins og bæjarfélagsins geri lítið til að taka á slíkum málum.
Viltu tjá þig eitthvað um þær fullyrðingar eða viltu halda þig við fyrra svar um að þér sé ekki heimilt að tjá þig um mál einstakra starfsmanna?