Formaður félags leiðsögumanna segir það á ábyrgð fyrirtækja sem standa fyrir skipulögðum ferðum ef eitthvað komi upp á. Nýverið kom upp atvik þar sem fyrirtæki fór ekki að settum reglum.
Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri sem nýverið tók við sem formaður Félags leiðsögumanna, segir að ef eitthvað komi upp á í skipulögðum ferðum sé það á ábyrgð þeirra sem að þeim standi. Hann leggur áherslu á að fyrirtæki í ferðaþjónustu verði að gera sér grein fyrir ábyrgðinni sem á þeim hvílir. „Það gildi engin lög um réttindi eða kröfur gerðar til þeirra sem vilja kalla sig leiðsögumenn,“ nefnir hann sem dæmi. „Í raun getur sá sem skipuleggur og selur ferðir dubbað hver sem er upp sem leiðsögumann.“
„Viðkomandi fyrirtæki sem gerir ferðina út er líka ábyrgt fyrir athöfnum þeirra sem það ræður til starfa.“
Á sunnudagskvöld hafði Varðskipið Týr afskipti af farþegabát hvalaskoðunarfyrirtækisins Láki Tours austur af Rifi, en fyrirtækið gerir út frá Snæfellsnesi. Leyfi var fyrir 30 manns í bátnum en um borð voru 40 farþegar og fjögurra manna áhöfn, að því er fram kom í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Gísli Ólafsson, skipstjóri og eigandi fyrirtækisins, lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að hann hafi sótt um tryggingu eins og alltaf fyrir 45 farþega á bátinn en tryggingafélag hans sent inn vitlausa tilkynningu til samgöngustofu. Fyrirtækið sé með leyfi fyrir 45 manns en 40 hafi verið um borð. En í tilkynningu Landhelgisgæslunnar segir enn fremur að tveir af fjórum í áhöfn hafi ekki verið lögskráðir og enginn þeirra með réttindi til að gegn stöðu vélstjóra.
Gísli skipstjóri er sjálfur með vélstjóra- og skipstjóraréttindi fyrir báta að 12 metrum. Báturinn sem Landhelgisgæslan stöðvaði var hins vegar fjórum metrum lengri. Gísli sagðist vera með réttindi fyrir stærri báta en hafi átt eftir að fá skírteinið afhent. Hann sagði mistökin liggja hjá Samgöngustofu en lögskráningarkerfið hafi legið niðri um helgina. Hann tók fram í samtali við mbl.is að farþegar hafi ekki verið í neinni hættu.
Indriði áréttar ábyrgðarhluta fyrirtækja í ferðaþjónustu. „Það er ekki ábyrgðarlaust að ráða til starfa fólk án þess að vita hvort það er fullfært um að gegna því hlutverki sem það er ráðið til. Viðkomandi fyrirtæki sem gerir ferðina út er líka ábyrgt fyrir athöfnum þeirra sem það ræður til starfa,“ segir hann og bendir á að leiðsögumenn og fyrirtækin séu ábyrg fyrir þeim sem þeir leiðsegja. „Að þessu leyti er staðan í ferðaþjónustu arfaslök. Engar reglur gilda. Það eru til skólar sem útskrifa leiðsögumenn og miða við ákveðinn staðal sem er viðurkenndur í Evrópu. En það er engin kvöð sem hvílir á þeim sem ráða leiðsögumenn að ráða þá í þjónustu sína. Þeir hafa algjörlega frjálsar hendur. En þótt þetta sé ekki niðurskrifað í lögum þá eru almenn ábyrgðarsjónarmið fyrir hendi í ferðaþjónustu,“ segir Indriði
Ekki náðist í Samgöngustofu vegna málsins.