Kosningabaráttan fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á morgun hefur verið fremur rislág að mati Eiríks Bergmanns, prófessors í stjórnmálafræði, en hann segir þó athyglisvert að Samfylkingin haldi sjó í borginni og hversu sterkar andstæðar blokkir séu að teiknast upp í Reykjavík.
„Kosningabaráttan hefur verið daufleg, það verður að segjast eins og er,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, spurður hvernig kosningabaráttan fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á morgun hafi verið. „En hún er líka að mörgu leyti sérstök,“ bætir hann fljótt við. „Það er náttúrlega rýmra um í borgarstjórninni, ef maður skoðar hana sérstaklega. Það er verið að fjölga borgarfulltrúum upp í 23 sem veitir aukið rými og samhliða því, en ekki bara vegna þess heldur líka vegna almennrar þróunar, þá sjáum við miklu fleiri framboð heldur en áður og það hefur sett sitt mark á þessa kosningabaráttu.“
Vantrú á reynsluboltum í stjórnmálum
Eiríkur segir þessa fjölgun á framboðum þó ekki vera séríslenskt fyrirbæri. „Það hefur verið að gerast alls staðar á Vesturlöndum að hinir hefðbundnu meginstraumsflokkar hafa átt í vök að verjast undan nýrri flokkum sem skora meginstraumskerfið á hólm, oft út frá einhvers konar hugmyndum um aðkomu hins venjulega manns og eiginlega til höfuðs atvinnustjórnmálum, ef svo má segja. Að sínu leytinu til er þetta birtingarmynd þróunar sem við getum kallað amatöravæðingu stjórnmálanna, sem er ekki íslenskt fyrirbæri heldur vestrænt og byggist á því að margt fólk hefur vantrú á þeim sem hafa reynslu í stjórnmálum. Stjórnmálamenn leggja mjög gjarnan upp með það í dag að þykjast standa utan stjórnmálakerfisins og hafa ekki faglega þekkingu á stjórnmálavafstri. Þetta er auðvitað mjög merkileg þróun og á sér stað alls stað víða.“
„Stjórnmálamenn leggja mjög gjarnan upp með það í dag að þykjast standa utan stjórnmálakerfisins og hafa ekki faglega þekkingu á stjórnmálavafstri.“
Hvaða áhrif heldurðu að þetta hafi á þróun stjórnmálanna? „Það er erfitt að átta sig á því,“ segir Eiríkur. „Óskin og væntingarnar felast þá væntanlega í því að að borðinu komi fólk sem sé á einhvern hátt í betri tengslum við hinn almenna venjulega mann, en hættan er auðvitað sú að við stjórnartaumunum taki fólk sem hvorki hefur þekkingu, kunnáttu né getu til þess að stýra flóknum fyrirbærum sem opinber rekstur felur í sér.“
Mistök hjá Sjálfstæðisflokknum?
Eiríkur tekur fram að hér sé hann eingöngu að tala um Reykjavík, það gildi önnur lögmál á landsbyggðinni. Ísland sé sérstakt á sveitarstjórnarstiginu fyrir þær sakir að eitt sveitarfélag gnæfi algjörlega yfir öll önnur. Það geri eðli baráttunnar og stjórnmálanna í Reykjavík allt annað en annars staðar á landinu þar sem í rauninni sé um allt aðra pólitík að ræða víðast hvar annars staðar, þar sem verið sé að kjósa fólk til að sinna bæjarmálefnum í hlutastarfi eða jafnvel sem áhugamáli. Og það sé erfitt að tala um sveitarstjórnarkosningar á Íslandi sem eitt fyrirbæri vegna þessa eðlismunar.
En er eitthvað sem hefur komið Eiríki á óvart í kosningabaráttunni í Reykjavík? „Það hefur auðvitað komið svolítið á óvart hvað Samfylkingin heldur sjó,“ segir hann. „Og er hátt yfir því sem flokkurinn mælist á landsvísu og hátt yfir því sem flokkurinn fær í Reykjavíkurkjördæmunum í alþingiskosningum, það er merkilegt og hlýtur að vekja eftirtekt. VG hefur hins vegar dalað eftir því sem liðið hefur á baráttuna en Sósíalistar eygja vona á sæti í borgarstjórn. Miðflokkurinn kemur sterkur til leiks, mest á kostnað Framsóknar og staða Pírata er merkilega góð. Þá vekur eftirtekt leiðtogaskiptin og í rauninni algjör listask að þótt Sjálfstæðisflokkurinn standi sterkur í mörgum sveitafélögum í kringum borgina þá hafi sipti í Reykjavík ekki orðið til fylgisaukningar flokksins þar eins og lagt var upp með.“
Voru þetta þá mistök hjá Sjálfstæðisflokknum? „Ja, hafi ætlunin verið sú með því að skipta algjörlega út listanum að auka fylgið, þá virðist það ekki ætla að ganga eftir,“ segir Eiríkur og vill ekki fara nánar út í þá sálma.
Myndbönd Vigdísar krydd í daufa baráttu
Eiríkur segir kosningabaráttuna hafa verið fremur leiðinlega en þó megi segja að myndbönd Vigdísar Hauksdóttur hafi verið nýlunda og skemmtilegt krydd í baráttuna. Það sé hins vegar mjög merkilegt að það séu að teiknast upp tvær mjög skýrar blokkir í borginni, undir augljósri og skýrri forystu hvor fyrir sig. Vinstri blokkin undir forystu Dags B. Eggertssonar og hægri blokkin undir forystu Eyþórs Arnalds. Svo séu flokkar eins og Viðreisn og Framsókn sem hugsanlega geti fallið hvoru megin sem er.
Annað sem Eiríkur telur athyglisvert er að þjóðernisflokkarnir sem bjóða fram virðast ekki vera að ná neinu máli. „Þjóðernispopúlískum flokkum er að því er virðist svo gott sem alfarið hafnað í þessum kosningum,“ segir hann. „Það er í mótsögn við það sem hefur verið að gerast víða í Evrópu, en það hefur þó víða verið þannig að svona öfl hafa legið í láginni og ekki náð máli þar til þau allt í einu gjósa fram, eins og til dæmis var raunin í Svíþjóð, þannig að við ættum ekki að álykta um of í þeim efnum.“
Spurður hvort það sé ekki nánast borðleggjandi að það verði sami meirihluti í borgarstjórn eftir kosningar, að frátaldri Bjartri Framtíð, segir Eiríkur að það sé fleira sem bendi til þess en færra og þá væntanlega ásamt Viðreisn, en það fari þó töluvert eftir því hvernig minni flokkunum reiði af.
„Þjóðernispopúlískum flokkum er að því er virðist svo gott sem alfarið hafnað í þessum kosningum. Það er í mótsögn við það sem hefur verið að gerast víða í Evrópu, en það hefur þó víða verið þannig að svona öfl hafa legið í láginni og ekki náð máli þar til þau allt í einu gjósa fram“
Að lokum spyr ég Eirík hvort ekki sé hætta á slælegri kjörsókn vegna tíðra kosninga undanfarið og hann tekur undir það að við því megi búast. „Það er hætt við að það verði lítil kosningaþátttaka, já,“ segir hann. „Hún hrundi alveg í sveitarstjórnarkosningum fyrir fjórum árum og fór þá niður fyrir allt sem við höfum séð í seinni tíð á Íslandi og mér sýnist að við gætum jafnvel farið enn neðar í þessum kosningum, sem er ekki gott fyrir lýðræðið.“