Eftir mikið flakk um heiminn og rótleysi ílengdist Birta Árdal Bergsteinsdóttir í Marokkó. Hún heillaðist af íslamskri trú og ákvað eftir mikla sjálfsskoðun að taka upp trúna. Hún giftist síðar marokkóskum manni, þau eiga þriggja ára tvíburadætur og eiga von á öðrum tvíburum í júlí. Mannlíf hitti Birtu á dögunum ræddi meðal annars um trúna og fordómana í garð múslima.
Birta er 27 ára, fædd í Reykjavík og uppalin að mestu í Reykjahverfinu í Mosfellsbæ í náttúrufegurðinni við Varmána. Sumrum varði hún í sveitinni hjá ömmu sinni og afa í Rangárþingi ytra. Hún byrjaði að fullnægja ferðaþránni eftir að hún útskrifaðist úr Menntaskólanum við Sund og sú þrá jókst með hverju árinu sem leið. Árið sem hún ætlaði að taka sér pásu frá skóla varð að tveimur, síðan þremur og svo framvegis. Síðan leiddi lífið hana á aðrar brautir en hún hefði nokkurn tíma getað séð fyrir.
„Ég byrjaði að ferðast um Suðaustur-Asíu, Malasíu og Indónesíu. Það sem stóð upp úr í þessum ferðum voru langar göngur um regnskóga í leit að öpum og langar lestaferðir. Í kjölfarið skellti ég mér til Mexíkó með vinkonu minni sem hafði verið þar sem skiptinemi þremur árum áður, þar vorum við einungis í kringum spænskumælandi fólk og ég æfði mig í því að sem ég átti síðan eftir að gera mjög mikið af í seinni tíð, að vera umkringd fólki sem skildi mig ekki og ég skildi ekki. Einu samskiptin voru líkamstjáning og haugurinn allur af brosum. En vegna þessa lærði ég á mettíma virkilega mikið í tungumálinu. Eftir Mexíkó byrjaði ég í FÍH en entist bara í rúma önn þar sem heimurinn togaði enn of mikið. Ég tók skyndiákvörðun á gamlárskvöld og skaust til Gambíu með frænku minni. Við ferðuðumst þaðan yfir til Ginea Bissau í gegnum Senegal. Þar kynntist ég strák frá Sviss sem ég elti svo til Marokkó. Ég varð síðan ástfangnari af Marokkó en nýja kærastanum og ílengdist þar og kláraði þriggja mánaða vísað algjörlega á kúpunni, fór heim og vann í einni bíómynd eins og ég gerði gjarnan á milli þess sem ég flakkaði og var horfin strax aftur út en þá til Berlínar í tónlistarhugleiðingum. Flakkaði svo um Þýskaland á puttanum. Endaði í Sviss hjá góðum fyrrverandi vini mínum sem ég hafði kynnst í Senegal og flaug síðan eftir það frá Ítalíu til Marokkó.
„Vissulega hef ég fengið aðra athygli úti á götu eftir að ég byrjaði að bera slæðuna en ég myndi ekki lýsa því sem fordómum, fólk er forvitið og finnst sérstaklega skrítið að sjá bláeygða stelpu bera einkennismerki múslima.“
Á þessum síðari hluta flakksins míns var ég farin að vera virkilega rótlaus og var eins og einhverskonar ferðafíkill. Í hvert skipti sem ég lagði af stað á nýjar slóðir var eins og ég væri að sprauta mig með heróíni en þegar ég var komin á leiðarenda féll ég aftur niður á einhvern frekar dimman stað. Þegar ég snéri aftur til Marokkó var ég búin að átta mig á þessum vanda og sá það að ég þyrfti nauðsynlega að hætta að flýja sjálfa mig og byrja að líta í eigin barm og kryfja vandamálin.“
Horfðist í augu við eigin fordóma
Þessi dvöl Birtu í Marokkó var full sjálfsskoðunar og heimsskoðunar í góðum hópi vina, leitandi fólk alls staðar að úr heiminum. „Við sátum dag eftir dag og krufum alheimsvandamálin, ástæðurnar fyrir því að hlutirnir væru eins og þeir væru, siðareglur okkar mismunandi samfélaga, af hverju við erum hér, boð og bönn og hræsni trúfélaga og trúarleiðtoga. Ég hafði aldrei verið verulega trúuð og alla tíð mjög gagnrýnin á trúarbrögð, ég sá aðeins það slæma sem þau leiddu af sér. Stríð og kúgun, fáfræði og afturhaldssemi. En smám saman fór ég að breyta skoðunum mínum. Ég fór að sjá að öll þessi stríð eru ekki upprunnin af trú heldur græðgi og kúgunin, fáfræðin og afturhaldssemin eru vissulega þættir af mannavöldum. Af slæmum eiginleikum mannskepnunnar.
Á þessum tíma fékk ég einhverskonar uppljómun ef svo má kalla. Þarna spilaði ferðareynslan sterkt inn í þar sem röð atburða hafði leitt mig á staðinn sem ég var á, ég hafði alltaf talað um tilviljanir en skyndilega trúði ég því engan veginn að þetta gætu mögulega verið tilviljanir heldur fór ég að trúa á einhverskonar örlög. Ég sá allt í einu mjög skýrum augum að það væri eitthvert æðra afl, eitthvað sem er svo miklu stærra en allt sem við vitum og það gerði mig svo smáa og vandamálin samfara því. Ekki að vandamálin væru á bak og burt en þarna hóf ég mikið endurmótunarferli, mér leið eins og það hefði sprungið atómbomba í heilanum á mér og allt var í kaos, ég þurfti að taka skrefin rólega og raða öllu upp á nýtt. Ég fór að kynna mér og læra meira um uppruna þessara trúarbragða sem ég hafði áður bara séð yfirborðið á, vegna þess að ég hafði ekki tíma eða löngun til að kafa dýpra. Það sem ég fann voru endurtekningar, endalausar endurtekningar. Ég fór að sannfærast um það að öll þessi trúarbrögð væru upprunnin af sama kjarnanum, sama ljósinu. Skilaboð á mismunandi tímum sem hafa staðist tímans tönn og mannanna verk misvel. Ég hafði aldrei hugsað mér á þessum tíma að skilgreina mig sem þetta eða hitt, það kæmi engum við, en ég fór að hallast meira og meira í átt að íslam eftir því sem ég lærði meira, las og vissi um þessa vegferð.
Á þessum tíma var ég komin heim til Íslands og kom mér vel fyrir á sveitabæ fyrir sunnan og vann þar fyrir mat og húsnæði á meðan ég endurskipulagði heilabúið og kafaði í fræðin. Ég var með mikla þörf fyrir að einangra mig um tíma og grandskoða allt hugarferlið. Íslam voru líka þau trúarbrögð sem komu mér hvað mest á óvart, mýtum var snúið á hvolf, einni á fætur annarri og ég áttaði mig á að ég hafði verið mjög fordómafull, í garð múslima sérstaklega, en ekki vitað neitt um hvað málið snerist. Ég sem áleit mig svo umburðarlynda og með opinn hug. Það kom sá punktur að ég gat ekki neitað því að ég væri í raun og veru orðin múslimi hvort sem mér líkaði skilgreiningin betur eða verr. Þetta varð allt svo ljóst þegar ég vissi hinna sönnu þýðingu á arabíska orðinu „íslam“ sem þýðir bara „friðsæl uppgjöf fyrir almættinu“ og orðið „mu-slim“ er komið af sömu rótinni „SLM“ og er einföld persónugerð orðsins íslam eða „sá sem gefur sig friðsamlega fyrir almættinu“. Þetta var allt of einfalt fyrir rest. Íslam studdi líka fyllilega sannfæringu mína um að allar trúarleiðir hefðu verið í upphafi ein og sömu skilaboðin komin frá sama aflinu en sannkvæmt íslam er Múhameð síðasti stóri spámaðurinn og nýjustu fréttirnar. Það kom mér líka oft, og kemur mér enn, í opna skjöldu þegar ég fræðist meira um Kóraninn, kraftaverk, dýpt tungumálsins og leyndarmál þessarar bókar.
„Það er næstum því algilt að fólk haldi að ég hafi þurft að taka upp múslimatrú af því að ég er í dag gift manni frá Marokkó. Oft þegar ég skýri fyrir fólki að svo sé nú ekki þá finn ég að fólk er samt skeptískt.“
Þegar ég ákveð að tileinka mér þessa lífsleið þá trúði ég því ekki enn að Kóraninn væri óbreyttur frá því að Múhameð framflutti skilaboðin, mér þótti það mjög hæpið, en í dag þá trúi ég því og hefur engin náð að sannfæra mig um annað. Það spilaði líka mikið inn í þegar ég fór að kynnast þessum manni betur, Múhameð. Því meira sem ég las og heyrði af sögu hans, eiginleikum og skapgerð fór ég að sannfærast um að þetta hefði að sönnu verið virkilega magnaður maður og að lokum að hann væri spámaður, útvalinn sendiboði. Ég veit að ef ég hefði ákveðið að sleppa því að gerast múslimi, vegna þess að ég vissi hvað biði mín í samfélagi mínu, þá væri ég virkilega að blekkja sjálfa mig. Ég tók þessa erfiðu ákvörðun, ákvað að fylgja hjartanu og hef aldrei ég efast síðan. Að fylgja íslam er besta ákvörðun lífs míns. Samt er ég enn með opin hug og gæti hver sem er reynt að sannfæra mig. Ég er til í að hlusta. En mér leiðist alltaf svo orðið „trúarbrögð“. Ég lít á allar andlegar vegferðir sem leiðarvísa í átt til sama ljóssins. Ég hef mín rök fyrir því að fylgja íslam en ég mun ekki þröngva henni upp á neinn og ég virði alla þá sem tileinka líf sitt leit að ljósinu.“
Slæðan vekur forvitni
Hún segir að viðbrögðin frá fjölskyldu og vinum hafi að að mestu leyti verið góð. „Flestir voru undrandi til að byrja með en í hvert sinn sem ég fékk tækifæri til að setjast niður með fólkinu mínu og útskýra hvað íslam er fyrir mér og hvernig þessi ákvörðun mun koma til með að breyta mér eða lífi mínu þá upplifði ég í langflestum tilfellum mikinn stuðning og nægan skilning til þess að þau gætu samglaðst mér í hamingju minni. Ég get ekki sagt að ég persónulega hafi orðið fyrir miklum fordómum en mest tek ég inn á mig ef ljót orðræða er í fjölmiðlum eða þegar ég les skoðanir fólks sem eru mjög anti-íslam. Vissulega hef ég fengið aðra athygli úti á götu eftir að ég byrjaði að bera slæðuna en ég myndi ekki lýsa því sem fordómum, fólk er forvitið og finnst sérstaklega skrítið að sjá bláeygða stelpu bera einkennismerki múslima. Það er næstum því algilt að fólk haldi að ég hafi þurft að taka upp múslimatrú af því að ég er í dag gift manni frá Marokkó. Oft þegar ég skýri fyrir fólki að svo sé nú ekki þá finn ég að fólk er samt skeptískt.“
Birta segir að þekkingarleysið um trúna sé margþætt og það sem aðallega þurfi að beina athyglinni að sé að við megum ekki dæma íslam út frá hvernig múslimar hagi sér, heldur sé réttara að dæma múslima út frá íslam. „En þá þarf maður vissulega fyrst að vita hvað íslam er í raun og veru í grunninn. Eftir að Múhameð var uppi hafa myndast óteljandi greinar af rót íslams en það sem þeir hafa allir sameiginlegt er Kóraninn og sú trú að Guð sé einn. Málið með Kóraninn er að hann hefur verið túlkaður á svo ótrúlega margan máta og enn í dag er hann túlkaður upp á nýtt í samræmi við nýjan tíðaranda en fólk er oft ekki sammála.“
Bænin einskonar íhugun
Líf Birtu breyttist á margan hátt eftir að hún gerðist múslimi en allar breytingar voru fyrir henni til hins betra. „Ég var hvort eð er hætt að drekka þegar ég gerðist múslimi og íslam færði mér góða ástæðu til þess að halda því við. Ég fór að lifa reglubundnara lífi og það færði mér svo mikla fullnægju og jöfnuð. Ég var orðin virkilega þreytt á því að reyna að fylla tómið í brjóstinu mínu meðal annars með því að vera ástfangin af einhverjum strák og ég lokaði algjörlega á það að reyna að finna mér ástmann fyrst um sinn sem var virkilega góð tilbreyting.
Helsti munurinn á kristni og íslam er að við trúum því að Jesú hafi verið næstsíðasti sendiboðinn en ekki sá síðasti, við trúum því líka að hann hafi verið maður en ekki guð og sonur guðs. Það er aðallega hin heilaga þrenning í grunntrú þessara trúarhefða sem skilur okkur að. En flest eigum við sameiginlegt í gildum og þessari lífsleið, þessari beinu braut sem okkur ber að feta. Jesús er mikið elskaður af múslimum rétt eins og Múhameð.“
„Við ölum börnin okkar upp eftir siðareglum íslams en hvað þau gera eftir að þau fara úr okkar umsjón er ekki í okkar höndum.“
Birta tekur sér tíma nokkrum sinnum yfir daginn til að biðja. „Þegar ég prófaði fyrst að biðja þá fann ég hvað það færði mér mikinn jöfnuð. Að stoppa í dagsins amstri, minna sig á upprunann og endinn, jarðtengja sig, minna sig á það að amstrið er ekki allt, ekki það sem skiptir mestu máli. Ég byrjaði á því að biðja bara þegar það hentaði mér, einu sinni, tvisvar á dag, kannski á morgnana og kvöldin. Einn daginn ákvað ég að bara prófa að biðja allar fimm bænirnar og á réttum tíma. Ég hef ekki enn hætt því frá þessari fyrstu tilraun.
Þetta hjálpaði mér svo mikið og síðan er þetta enn eitt skrefið í íslam til þess að gefa sig allan og það að gefa mig fyrir almættinu færði mér mesta frið sem ég hef nokkru sinni haft eða getað ímyndað mér. Þetta kallar vissulega á aga en það er partur af gjöfunum sem fylgja, vegna þess að agað sjálf er sáttara sjálf. Þessar fimm rútínubænir eru ein af fimm grunnstoðum íslams og bænin sjálf er kannski ekki eins og flestir halda. Þetta er ekki „góði guð, fyrirgefðu mér þetta, takk fyrir þetta, hjálpaðu mér með þetta“. Það er vissulega líka partur af bænum múslima en salah, sem bókstaflega þýðir tenging, sem við framkvæmum á vissum tímum yfir daginn með höfuðið í átt til Mekka er meira eins og einskonar hugleiðsla, jarðtenging, áminning þar sem líkami og hugur koma saman og framkvæma rútínu sem við köllum tilbeiðslu á allah, guð, almættinu. Þessari rútínu hefur oft verið líkt við grunnrútínu í jóga. Ég trúi því algjörlega að það sé tenging þarna á milli. Ekki út af því að Múhameð fór til Indlands og lærði af einhverjum gúrú, heldur vegna þess að þetta er allt komið af sama kjarnanum, sama upprunanum, sama ljósinu. Sagt er að enginn staður sé nær guði en þegar þú ert í sujud, eða með höfuðið í jörðinni. Í þessari höfuðstöðu ertu einnig að lækka hugvitið fyrir brjóstvitinu sem allir hefðu sannarlega gott af því að gera fimm sinnum á dag,“ segir hún og brosir.
Höfðu þekkst lengi áður en þau tóku saman
Birta kynntist eiginmanni sínum, Othman, í byrjun árs 2013 í Essaouira í Marokkó. Þau eiga þriggja ára tvíburadætur og í júlí er von á öðrum tvíburum í heiminn. „Othman var að reka hostel sem ég kom á fyrst sem gestur en ílengdist síðan á og vann þar fyrir mat og húsnæði í tæpa þrjá mánuði. Á þessum stað myndaðist sterkur vinakjarni Marokkóbúa og krakka alls staðar frá sem að einhverra hluta vegna vildu ekkert fara heim. Othman var einn í þessum hópi og kær vinur minn í tvö ár áður en að við fórum að ræða þá hugmynd að sameina sálir okkar. Við giftum okkur í byrjun árs 2015 og stelpurnar fæddust í nóvember sama ár. Við ræddum lengi vel hvort við værum hvort fyrir annað og tókum ákvörðunina um að vera saman ekki léttvæga. Fyrir okkur var giftingin eitthvað sem kom aðeins okkur við, loforð milli tveggja einstaklinga frammi fyrir guði. Þó svo að við höfum vissulega þurft að ganga í gegnum heilan haug af pappírsvinnu og „búrókrasíu“ í Marokkó til þess að fá loforðið gilt á pappírum. Við höfum ekki enn þá haldið veislu,“ segir Birta.
„Ég vissi að ég gekk með tvíbura áður en ég fór í sónar því til staðfestingar. Það var bara einhver tilfinning og magnað hvað maður er fær um þegar líkami og sál eru í sátt og tenginu. Ég vissi það líka núna að ég gekk ekki með eitt barn, ég fór til læknis í Marokkó og sagði við hann að ég væri til hans komin svo hann gæti sagt mér hvort þetta væru tvö eða þrjú börn. Hann hló við og leiddi mig beint inn í sónar og sagði mér að þetta væru tvö. Ég hló og hló. Fyrri meðgangan gekk með eindæmum vel og ég fastaði meira að segja í ramadan komin fimm mánuði á leið í 35-48°C hita í hjá fjölskyldu Othman í Beni Mellal. Það var mögnuð lífsreynsla.“
Ala börnin upp í íslam
Birta eignaðist dæturnar á Íslandi, fjölskyldan er búsett hérlendis en ferðast mikið til Marokkó. „Ég tala íslensku við dæturnar og Othman marokkóska arabísku. Það gengur bara mjög vel og ótrúlegt hversu fljótar þær eru að átta sig á þessu og skipta á milli. Síðan tölum við Othman mikið saman á ensku þannig að þær heyra hana mikið og ef við myndum flytja til Marokkó endanlega þá yrði ekki hjá því komist að læra frönsku líka og jafnvel berber. Ég hef engar áhyggjur af þeim, þessi tungumálasúpa mun hagnast þeim í framtíðinni.
Við ölum börnin okkar upp eftir siðareglum íslams en hvað þau gera eftir að þau fara úr okkar umsjón er ekki í okkar höndum. Við munum sleppa tökunum á þeim þegar þau verða fær um að taka sínar eigin ákvarðanir. Það er hins vegar á okkar herðum að kenna þeim gagnrýna hugsun og það sem við getum áður en þau verða „fullorðin“ en ekki að byrja að predika á versta tíma þegar þau vilja fara eigin leiðir á unglingsárunum.“
Selja vörur „beint frá bónda“
Birta og Othman reka verslunina Nús/Nús á Funahöfða 17a ásamt foreldrum Birtu. Þar fæst margvíslegur marokkóskur varningur „beint frá bónda“. „Við áttum lítið af veraldlegum eignum þegar stelpurnar okkar komu í heiminn en treystum því að allt myndi ganga upp. Okkur langaði að flytja inn marokkóska vöru til Íslands, bæði vegna gæðanna í handverkinu í Marokkó og vegna þess að það var ekkert þessu líkt á Íslandi. Þegar stelpurnar voru sex mánaða höfðum við sannfært mömmu og pabba um að vera með okkur í þessari fjárfestingu og við lögðum af stað í ferðalag, litla fjölskyldan, með stelpurnar á bakinu. Við fórum á milli borga í Marokkó og þræddum göturnar í medínunum eða gömlu bæjunum þar sem engir bílar komast að, alltaf með skvísurnar á bakinu eða framan á okkur. Síðan bara stoppuðum við reglulega til þess að gefa brjóst og hvíla okkur. Þetta var ágætis raun og tók meira á en við áttum von á en hófst að lokum. Við leituðumst eftir því að komast að kjarnanum í framleiðslunni, fundum handverksfólkið og keyptum beint frá því í flestum tilvikum. Við byrjuðum fyrst um sinn á því að selja í Kolaportinu, með stelpurnar annaðhvort á bakinu eða í bastkörfum. Viðbrögðin voru framar okkar björtustu vonum. En eftir þetta fyrsta sumar 2016 þá fórum við að vinna að því að gera litla búð í fasteign sem mamma og pabbi eiga í iðnaðarhverfi uppi á Höfða. Hönnuðurinn, mamma mín, Sigríður Þóra Árdal, sá um uppsetningu og söluaðferðir en við einbeittum okkur að marokkóska hlutanum þó svo að við hjálpumst öll að. Pabbi, Bergsteinn Björgúlfsson, er yfir fjármálunum. Núna er verslunin opin alla virka daga frá 12-17 og 12-16 á laugardögum. Innan um bílapartasölur og kerruleigur er þessi hellir Ali Baba.“
Þau selja margskonar handgerðar heimilisvörur frá Marokkó og einstaka gripi frá Malí og Senegal. Má þar nefna leirtau, gólfteppi, dúskarúmteppi og púðaver, hanbel-ofin ullarpúðaver, sófaborð, ýmsar vörur úr basti, baðkör og vaska, leður- og ullarpullur á gólfið, viðarbretti, -skálar og -áhöld og gamlar útskornar hurðir og kistla. „Síðan erum við einnig með nýja línu af hreinum olíum og frá Marokkó og Malí; 100% argan-olíu, kaktusfræolíu, shea butter og ghassoul-leir-maska svo að eitthvað sé nefnt. Allt 100% hreint hráefni og lífrænt. Mamma hannaði umbúðirnar og línan gengur undir nafninu Arctic Moroccan. Við erum einnig að selja þessa línu auk annarra vara frá okkur í Systrasamlaginu, Mamma veit best og Frú Laugu.
„Ég hafði aldrei verið mjög trúuð og alla tíð mjög gagnrýnin á trúarbrögð, ég sá aðeins það slæma sem þau leiddu af sér. Stríð og kúgun, fáfræði og afturhaldssemi.“
Nús/Nús þýðir hálfur/hálfur og merkir fyrir okkur Marokkó/Ísland og tvíburarnir okkar. Síðan var þetta eina orðið sem mamma kunni í arabísku þegar við vorum að leita að nafni. Þú pantar núsnús á kaffihúsi og færð kaffi með mjólk. Okkur fannst þetta ágætis lending eftir miklar pælingar.“
Fókusar á aðra þætti föstunnar
Fram undan er föstumánuðurinn ramadan sem byrjar um miðjan maí. „Við ætlum að fara á húsbílnum okkar, sem við búum reyndar að mestu í, á flakk um landið og reyna að nýta töfra þessa mánaðar til hins ýtrasta. Ég stefni ekki að því að fasta þetta árið þar sem ég er komin 32 vikur á leið. Ég mun fókusa á aðra þætti föstunnar en að neita mér um mat og drykk en fastan í þessum mánuði snýst einnig um að leggja vinnu í að fínpússa sjálfið – sjá hvað betur má fara, auka íhugun, bænir og sjálfsskoðun.
Eftir ramadan verður stutt í að þessi kríli láta sjá sig inshaallah, eða ef guð lofar. Við erum ekki vön að plana framtíðina okkar mikið og þetta finnst mér feikinóg planað. Síðan er bara að sjá hvað verður úr áætlunum okkar. Það er vissulega ekki í okkar höndum,“ segir Birta að lokum.
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, National make up artist fyrir Yves Saint Laurent á Íslandi