Hreinasta loftið í heimi er í Finnlandi, samkvæmt nýjasta mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Þar á eftir kemur Eistland, Svíþjóð, Noregur og er Ísland í fimmta sæti. Á hinn bóginn eru minnstu loftgæðin í Úganda, Katar og Kamerún. Gögnin eru byggð á upplýsingum frá árunum 2008 til 2016.
„Við komum alveg ágætlega út. Samt sem áður má rekja 80 ótímabær dauðsföll hér á landi til svifryksmengunar, smæstu agnanna sem eru taldar hættulegastar, og allt að fimm dauðsföll vegna köfnunarefnisdíoxíðsmengunar,“
segir Ragnhildur G. Finnbjörnsdóttir, sérfræðingur í loftgæðamálum hjá Umhverfisstofnun. Um er að ræða einstaklinga sem voru veikir fyrir. Umhverfisstofnun tekur gögnin saman um loftgæði hér á landi og sendir þau til Umhverfisstofnunar Evrópu.
Umhverfisstofnun vann drög að áætlun um loftgæði til 12 ára í samráði við heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og fleiri og umhverfis- og auðlindaráðuneyti gaf út í nóvember í fyrra. Í áætlun sem kom út síðasta haust eru tilgreindar aðgerðir sem stuðla eiga að því að bæta loftgæði og eyða ótímabærum dauðsföllum árið 2030. Á meðal þess sem þar er nefnt er minni notkun nagladekkja, meiri notkun almenningssamgangna og aukin rafbílanotkun.