Föstudagur 10. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

„Ég er með hreina samvisku“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Upplifunin eins og fólk væri á leiðinni heim til mín með heykvíslarnar.“

Arnar Pétursson stefnir á Ólympíuleikana í Tókýó 2020.

Arnar Pétursson er einn af bestu langhlaupurum landsins og stefnir að því að ná ólympíulágmarki í maraþoni fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020. Hann á að baki ótal titla, vann níu Íslandsmeistaratitla á síðasta ári og á besta tíma Íslendings í maraþoni sem hlaupið hefur hérlendis. Í viðtali við Mannlíf gerir hann upp ásakanirnar um svindl í bæði í Reykjavíkurmaraþoni og Víðavangshlaupi ÍR.

Til að ná ólympíulágmarkinu í maraþoni þarf Arnar að hlaupa undir tveimur klukkustundum og nítján mínútum. Til viðmiðunar má nefna að Íslandsmet Kára Steins Karlssonar er 2.17.12 sem hann setti í Berlín árið 2011 og heimsmetið, 2.02.57, á Dennis Kimetto frá Kenía, sett í Berlín 2014. Síðustu helgina í apríl hljóp Arnar sitt besta hlaup til þessa, 2.24.13, sem er þriðji besti tími Íslendings frá upphafi, og bætti sig um fjórar mínútur. „Markmiðið var að setja tíma sem sýnir bæði mér og öðrum að ég get náð ólympíulágmarkinu. Ég ætlaði að vera á bilinu 2.19-2.24 og það náðist. Hlaupið var jafnt og ég í toppstandi og get því ekki annað en verið ánægður,“ segir Arnar sem stefnir að því að að ná lágmarkinu á næsta eða þarnæsta ári en hann getur í fyrsta lagi náð því í janúar 2019. „Martha Ernstdóttir sem aðstoðar mig, er búin að kenna mér að vera alltaf ánægður með bætingu, annað væri dónaskapur, ekki síst gagnvart fólki sem myndi gefa allt til að geta bætt sig einu sinni enn. Einn daginn mun nefnilega koma að því að maður hættir að gera betur og með því að vera óánægður með bætingu er maður óbeint að móðga þá sem ekki geta bætt sína bestu tíma lengur. Ég hef tamið mér þetta, er ánægður með hlaupið í Hamborg og stefni hærra.“

Refsing annarra íþrótta
Arnar er fæddur árið 1991 og byrjaði íþróttaferilinn í fimleikum hjá Gerplu. Þegar hann var fimm ára bættist fótboltinn við og síðar körfuboltinn en þá hætti hann í fimleikunum. Þegar hann var fimmtán ára ákvað hann svo að fókusera alfarið á körfuna og átti mikilli velgengni að fagna þar. „Ég hafði eins mikla fordóma fyrir hlaupum og hægt er að finna. Hlaup voru refsing annarra íþrótta, þegar ég var að æfa fótbolta og körfu þá var okkur refsað með hlaupum ef okkur illa gekk. Ég var því óbeint alinn upp við að hafa óbeit á hlaupum. Ég tók samt þátt í mörgum hlaupakeppnum á þessum árum, ekki síst þegar mamma var að draga mig í hin og þessi götuhlaup en ég á henni mikið að þakka að ég skuli vera í hlaupum núna. Ég vann oft í mínum aldursflokki og þess háttar og það var mjög gaman en ég gat ekki hugsað mér að æfa þetta. Svo þegar ég var 17 ára þá tók pabbi þátt í heilu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoni og ég hugsaði með mér að fyrst hann gæti þetta þá ætti ég að drífa þetta líka. Ég skráði mig í heilt maraþon ári síðar þegar ég hafði aldur til, þremur vikum fyrir hlaupið. Það kom mér verulega á óvart að heimilið fór á hvolf við þessa ákvörðun. Það var eins og ég hefði sagt þeim að ég ætlaði að stökkva í fallhlífarstökki án fallhlífar. Þau sögðu: „Arnar þú verður að drekka á öllum drykkjarstöðvum, þú verður að stoppa og borða bananann þar sem hann er í boði. Ég skildi ekki þessar áhyggjur, ég ætlaði bara að fara og haka við þetta á bökketlistanum. Í rauninni var eina markmiðið að klára hlaupið og svo væri fyndið að ná að vera á forsíðu Morgunblaðsins á mynd af upphafi hlaupsins. Eini undirbúningurinn var að gera góðan lagalista og ég kom mér svo fyrir framarlega í startinu. Ég bombaði síðan af stað og náði að vera með þeim fyrstu í smátíma, hélt að svo myndi strollan bara koma fram úr mér en það gerðist ekki. Ég vissi hins vegar ekkert hvað ég var að gera og sá hlaupara fyrir framan mig sem virkaði mjög pró, með gelið utan á sér og vatnsbrúsa, þannig að ég ákvað að elta hann. Þetta var þá Jóhann Gylfason sem er mikill hlaupagarpur. Ég gerði hins vegar eins og foreldrar mínir sögðu og stoppaði á öllum drykkjarstöðvum og gekk meðan ég borðaði bananann. Þá missti ég Jóhann alltaf langt frá mér en svo tætti ég af stað og náði honum aftur. Seinna frétti ég að hann hafi alltaf orðið jafnhissa þegar ég kom alltaf aftur. Ég kláraði hlaupið og leið bara vel þegar ég kom í mark á tímanum 2.55. Mér til mikillar undrunar kom í ljós að ég hafði komið annar í mark af Íslendingunum og slegið 30 ára gamalt Íslandsmet í maraþoni 18-20 ára og 20-22 ára.“

Arnar byrjaði að æfa hlaup þegar hann var ekki valinn U-20 landslið í körfubolta en hann hafði fram að þeim tíma haft fordóma fyrir hlaupum.

Örlögin taka í taumana
Þarna sá Arnar að hlaupin lágu vel fyrir honum og hann var hvattur til að fara að æfa hlaup. „Að sama skapi var ég í yngri liðunum í landsliðinu í körfubolta, varð tvisvar Norðurlandameistari og var fyrirliðinn í mínu liði í meistaraflokki. Mér fannst að hlaupaæfingar gætu ekki verið skemmtilegar – átti ég að hlaupa á æfingu, hlaupa á æfingunni sjálfri og hlaupa svo heim aftur? Og hvað var svo á dagskrá daginn eftir, já, meiri hlaup,“ segir Arnar hlæjandi.
Tímamót urðu hins vegar í lífi hans við tvítugsaldurinn þegar verið var að velja í U-20 landsliðið í körfubolta. Arnar endaði sem þrettándi maður en tólf fóru á mótið. Valið stóð á milli hans og Martins Hermannssonar. „Martin er í dag einn af okkar bestu körfuboltamönnum og einn af aðalmönnunum í landsliðinu. Ég er virkilega ánægður fyrir hönd okkar beggja að þetta fór svona. Það var eins og örlögin hefðu gripið inn í. Ég ákvað, fyrst ég komst ekki með, að prófa að æfa af alvöru fyrir Reykjavíkurmaraþon í staðinn. Ég bað Birgi Sævarsson, frænda minn og hlaupara, að gera fyrir mig æfingaplan. Ég hafði aldrei séð æfingaplan fyrr og misskildi það þannig að ég æfði tvöfalt eða þrefalt meira en ég átti að gera fyrstu þrjár vikurnar. Þá gafst ég næstum upp, því þetta var svo hrikalega erfitt. Enda hváði Biggi þegar ég sagði honum það. Það var mikill léttir þegar hið sanna kom í ljós og ég áttaði mig á að ég þurfti ekki að hlaupa á morgnana, í hádeginu og eftir vinnu alla daga,“ segir hann og hlær. Sumarið 2011 byrjaði Arnar að æfa hlaup, hljóp Reykjavíkurmaraþon og sigraði á tímanum 2.43. Ári seinna hætti hann í körfunni og sneri sér alfarið að hlaupunum.

„Þarna fékk ég forsmekkinn af því hvernig er að vera í brennideplinum í umræðunni og viðurkenni að mér leið ekki vel.“

Sakaður um svindl
Hver skrautfjöðurin á fætur annarri hefur bæst í hatt Arnars síðan hann byrjaði að æfa hlaup og vinningshlaupin skipta tugum ef ekki hundruðum. En hann hefur líka upplifað mótlæti. Tvisvar sinnum hefur hann verið ásakaður um að svindla í keppnishlaupi. Þó að málin hafi á sínum tíma tekið andlega á Arnar þá mætti hann þeim með æðruleysi.
„Fyrsta atvikið kom upp þegar ég hljóp fyrsta maraþonið 18 ára en þá tikkaði ekki ein tímamottan inn og millitíminn skráðist ekki. Þá voru einhverjir sem efuðust um að ég hefði hlaupið allt hlaupið því tíminn var svo góður en áðurnefndur Jóhann Gylfason staðfesti að ég hljóp fyrir aftan hann allan tímann, ég hefði kannski átt að sjá þarna í hvað stefndi,“ segir Arnar og brosir út í annað þegar hann rifjar þessi atvik upp. Fimm árum seinna kom svo annað málið upp, einnig í Reykjavíkurmaraþoni þar sem niðurstaða hlaupsins var kærð þar sem faðir hans hafði hjólað með honum hluta af leiðinni. „Í öllum svona hlaupum er alltaf manneskja á hjóli eða mótorhjóli á undan fyrsta manni. Í stórum hlaupum fær meira að segja þjálfarinn oft að vera á hjóli með. Ég hafði frétt að von væri á sterkum erlendum hlaupurum í hlaupið og vissi að ég myndi því líklega hlaupa einn með ekkert hjól á undan mér. Ég bað því pabba um að vera á hjóli til að halda mér félagsskap, það er erfitt að vera aleinn í svona löngu hlaupi. Ef fleiri keppendur hefðu verið á sama róli og ég þá hefði ekki verið neinn tilgangur með þessu. Pabbi sinnti sama hlutverki fyrir mig og hjólið fyrir fyrsta mann. Í rauninni hefði verið eðlilegt að hjólað hefði verið fyrir framan mig líka þar sem ég var fyrsti Íslendingurinn. Það höfðu hins vegar verið settar reglur um hlaupið að það mættu ekki vera hjólreiðafólk á brautinni nema á vegum hlaupsins, meðal annars til að það væri ekki fyrir. En ég var bara einn og pabbi var ekki fyrir einum eða neinum. Svo sprakk þetta bara upp þegar aðilinn sem var tæpum tíu mínútum á eftir mér í hlaupinu kærði niðurstöðuna og við tók mikil og neikvæð umræða í fjölmiðlum og samfélaginu í minn garð. Þarna fékk ég forsmekkinn af því hvernig er að vera í brennideplinum í umræðunni og viðurkenni að mér leið ekki vel. Kærður, það var eins og ég væri fyrir dómstólum. Yfirleitt þegar svona kemur upp í frjálsíþróttaheiminum þá er þetta ekki teiknað upp eins og viðkomandi sé kærður heldur er niðurstaðan kærð. Ég var á fyrirlestri í skólanum þegar ég sá á tölvuskjá hjá samnemanda fyrir framan mig fyrirsögn á frétt: „Svindl í Reykjavíkurmaraþoni“. Ekki kærður, meint svindl eða spurningarmerki. Úrskurður ÍSÍ í þessu máli varð hins vegar að ekkert þótti athugavert við þetta og við unnum málið.“

Arnari finnst miður að mjög lítil áhersla sé lögð á langhlaup í frjálsíþróttum krakka og þau hafi því litla möguleika á að ná langt á því sviði fyrr en þau verða fullorðin.

„Ég varð skúrkurinn“
Þriðja atvikið kom svo upp í Víðavangshlaupi ÍR vorið 2015 þegar í kjölfar hlaupsins var birt myndband af Arnari og keppinauti hans koma í mark. Þar sést greinilega að Arnar fer öfugu megin við staur þegar þeir félagar taka níutíu gráðu beygju rétt áður en þeir koma í mark. „Þetta mál var í rauninni enn skrautlegra þar sem ég var þarna kominn með einhverja forsögu. Á myndbandinu leit þetta eins illa út og hægt var, ekki einu sinni ég sjálfur hélt með gæjanum sem fór öfugu megin við staurinn og sigraði í kjölfarið hlaupið. Ég áttaði mig hins vegar strax á þessu þegar ég kom í mark og benti mótshöldurum á að þetta þyrfi að laga svo aðrir myndu ekki lenda í þessu og á myndbandinu sést brautarvörðurinn sem var á röngum stað færa sig til að laga þessi mistök. Í lokin á þessu hlaupi vorum við örugglega á 22 km hraða – prófaðu að fara á bretti, stilla á 22, hlaupa af stað og reyna svo að taka einhverjar skynsamlegar ákvarðanir. Ég var ekkert að hugsa þarna, sá þennan staur ekki fyrr en hann var beint fyrir framan mig og ég sveigði frá. Brautarvörðurinn hefði átt að vera þarna eða borði, þar sem þetta var níutíu gráðu beygja, það átti ekki að vera möguleiki að fara út fyrir brautina enda viðurkenndi ÍR eftir hlaupið að mistökin voru þeirra. Það hefði verið eðlilegast að ég hefði verið dæmdur úr leik og ég hefði þurft að sækja mál mitt vegna mistaka í brautarvörslu. Ég hefði að öllum líkindum unnið það mál því ég gerði ekkert rangt, þetta var klúður í brautarvörslu og ég hefði ekki átt að líða fyrir það. En í staðinn kemur þetta myndband á Netið og allt springur og ég er vondi gæinn. Margir af þekktustu mönnum þjóðarinnar tjáðu sig um málið og þetta var mjög súrrealískt. Ég var bara svindlari og átti að sjá sóma minn í að skila titlinum. Ég skrifaði hins vegar pistil á Netið og fór í viðtal í Ísland í dag þar sem ég útskýrði mál mitt. Þar með var málinu lokið af minni hálfu þar sem ég var með hreina samvisku og ef fólk vill enn trúa öðru þá verður svo að vera. Þar sem enginn kærði mig þá var ég ekki dæmdur úr leik og því stóð sigurinn. Ég varð því skúrkurinn í staðinn fyrir að vera sá sem var að sækja rétt sinn. Málið endaði svo þannig að sex mánuðum seinna fór málið fyrir stjórn Frjálsíþróttasambandsins, ég var sviptur tiltinum og ég var ósáttur við það enda tel ég að mistökin hafi legið hjá mótshöldurum.
Þetta er hins vegar einhver besta og verðmætasta upplifun sem ég hef upplifað því ég lærði að láta ekki álit annarra hafa áhrif á mína líðan. Í öllum þessum málum er ég með hreina samvisku. Ég vissi að ég hafði ekki reynt að ná forskoti af yfirlögðu ráði og verið „gómaður“. Ég hugsaði að nú væri alvörumótlæti og spurningin bara hvernig ég ætlaði að vinna úr því. Ætlaði ég að brotna niður eða halda haus? Ég ákvað strax að þetta myndi ekki skilgreina mig, ég skyldi halda ótrauður áfram, halda áfram að taka þátt í hlaupum og vinna hlaup, helst öll. Fólk skyldi sjá að ég þyrfti ekki að „svindla“ til að ná árangri. Það var áhugaverð reynsla að vera svona milli tannanna á fólki – upplifunin var sú að fólk væri við það að koma heim til mín með heykvíslarnar og það vegna götuhlaups. Verst var að horfa upp á áhrifin sem þetta hafði á þau sem stóðu mér næst, ekki síst mömmu. Henni þótti erfitt að horfa upp á þessar ásakanir gagnvart syni sínum.
Þessi lífsreynsla styrkti mig og ég hef reynt að gera bara grín að þessu. Fólkið sem var næst mér var mjög skilningsríkt enda er ég mjög heppinn með fólkið í kringum mig. Innan hlaupaheimsins höfðu sumir meira að segja á orði að þetta væri bara flott enda langmesta umfjöllun sem götuhlaup hefði nokkru sinni fengið. RÚV fylgdist meira að segja með Íslandsmótinu í víðavangshlaupi helgina eftir. Þar vann ég og það var bara gert grín að þessu í viðtali á eftir, ég var spurður hvort brautarvarslan hefði ekki verið í lagi þarna og þess háttar. Það er mikilvægt að sjá broslegu hliðarnar á þessu.“

„Ég hugsaði að nú væri alvörumótlæti og spurningin bara hvernig ég ætlaði að vinna úr því. Ætlaði ég að brotna niður eða halda haus?“

- Auglýsing -

Langhlaup krakka litin hornauga
Arnar leggur mikinn metnað í allt sem hann gerir og menntun hans er þar ekki undanskilin. Hann er með grunnnám í hagfræði með 24 aukaeiningum og er núna að klára þrjár meistaragráður á þremur árum; í reikningsskilum og endurskoðun, fjármálum fyrirtækja og kennsluréttindum fyrir framhaldsskólastig. „Ég er orðinn nokkuð sáttur með mína menntum og held að ég muni ekki setjast aftur á skólabekk í bráð. Mig langar að taka löggildinguna, verða löggiltur endurskoðandi, þó að planið sé ekkert endilega að starfa við það nákvæmlega. Ég er með fínan grunn til að vinna við hvað sem er á fjármálasviðinu,“ segir Arnar.
Hann hugsar vel um mataræðið og heldur æfingadagbók um líðan sína. Hann passar að næringin sé rétt og að drekka nóg vatn. En mataræðið var ekki alltaf svona. „Þegar ég var að reyna að þyngja mig á menntaskólaárunum hugsaði ég mun minna út í hvað ég lét ofan í mig þótt ég hafi alltaf tekið lýsi. Nánast daglega borðaði ég Chicago Town Pizza, Fries to go-örbylgjufranskar, Prins polo og kók. Það var mjög algengt að vera með brunasár í munninum eftir ostinn þar sem ég gat aldrei beðið með að rífa pizzuna í mig um leið og hún kom úr ofninum,“ segir hann hlæjandi. „Þegar ég kom inn í hlaupin þá breyttist mataræðið ósjálfrátt með. Ef mataræðið er ekki í lagi þá starfar líkaminn ekki jafn vel á æfingum og ég hætti fljótlega að nenna því. Í kjölfarið gengu æfingarnar betur, svefninn varð betri og svo framvegis því þetta hangir allt saman. Áfengi drekk ég í hófi. Tveimur mánuðum fyrir stóra keppni þá er ekki farið á djammið en ég fæ mér alveg einn og einn bjór með mat eða þegar maður kíkir í pottinn eftir erfiðar æfingar.“
Arnari finnst miður að mjög lítil áhersla sé lögð á langhlaup í frjálsíþróttum krakka og þau hafi því litla möguleika á að ná langt á því sviði fyrr en þau verða fullorðin. „Litið er hornauga að krakkar æfi langhlaup og hlaupi tíu kílómetra á dag en ef þau eru að hlaupa á eftir bolta þá er það allt í lagi. Í frjálsum íþróttum eru fjölmargar greinar sem eru allar kynntar fyrir krökkunum, nema langhlaup, þrátt fyrir að það sé í raun langstærsta greinin. Þessar greinar tengjast flestar sprengikrafti á einn eða annan hátt þannig að ef þú hefur ekki góðan sprengikraft og ert byggður fyrir langhlaup þá færðu ekki tækifæri til að spreyta þig. Með þessu eru til dæmis svo til engar líkur á því að við getum sent einhvern 18 ára á Ólympíuleikana í 5000 m eða 10.000 m en til þess að geta það þarftu að vera búinn að byggja hlaupagrunn í að minnsta kosti 6-8 ár. Eins og keppendur frá Afríku sem hafa vegna aðstæðna undirbúið sig fyrir þessi hlaup því þeir þurftu alltaf að hlaupa fram og til baka í skólann. Þeir sem hafa orðið góðir hér hafa orðið það eiginlega óvart, eins og ég sem var að æfa tvær boltaíþróttir og byggði því grunninn fyrir hlaupin þar,“ segir Arnar sem alltaf hefur verið með mikið keppnisskap. „Ég var mjög orkumikill krakki og mamma sendi mig oft út að hlaupa hring um hverfið til að ná mér niður. Ef ég vildi ekki fara þá sagðist hún ætla að taka tímann og þá var ég þotinn af stað. Keppnisskapið hefur hjálpað mér mikið, sérstaklega eftir að ég lærði að láta það vinna með mér. Ég man alltaf eftir atviki þegar ég var efnilegur 11 ára piltur í körfubolta. Þá kom þjálfari hins liðsins til mín eftir leik, þar sem ég hafði fengið fimm villur og þess vegna ekki náð að spila allan leikinn. Hann sagði: „Þú er allt of góður til að láta keppnisskapið fara svona með þig.“ Þetta hefur alltaf setið í mér, að einhver svona utanaðkomandi sæi eitthvað í mér og gæfi mér ráð sem hefur fylgt mér alla ævi. Ég hef reynt að temja mér þetta sjálfur sem og að hrósa öðrum.“

„Hlaup eru miklu félagslegri en margir halda, getustigið spannar allt bilið og enginn er að dæma annan. Í keppnishlaupum koma allir í mark sem sigurvegarar enda taka allir þátt á sínum forsendum.“

Arnar hefur í samvinnu við Íslandsbanka heimsótt fjölmarga hlaupahópa um land allt í vor til að kynna Reykjavíkurmaraþon og gefa hlaupurum góð ráð.

Vill sjónvarpa Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka
Íslandsbanki hefur fengið Arnar til liðs við sig í ár og hann hefur að undanförnu farið inn í hlaupahópa víða um land til að kynna Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka og gefa hlaupafólki góð ráð. „Við viljum meðal annars vekja athygli á þeim fjölmörgu hlaupahópum sem starfandi eru um land allt og hvetja áhugasama til að ganga til liðs við þá. Þetta hefur verið virkilega skemmtilegt verkefni og gengið frábærlega vel enda er gríðarlega jákvæð orka inni í þessum hópum. Hlaup eru miklu félagslegri en margir halda, getustigið spannar allt bilið og enginn er að dæma annan. Í keppnishlaupum koma allir í mark sem sigurvegarar enda taka allir þátt á sínum forsendum.
Einnig er í pípunum að gera heilu maraþoni í Reykjavíkumaraþoni hærra undir höfði, eitthvað í líkingu við það sem fólk þekkir í stóru hlaupunum erlendis og það eru margar hugmyndir á lofti hvað það varðar. Einnig myndi ég vilja sjá RÚV líkja eftir því sem þýsku sjónvarpsstöðvarnar gera og hafa þriggja til fjögurra tíma útsendingu í kringum keppnina enda er þarna endalaust af sögum og sjónvarpsefni. Hægt væri að hafa eina myndavél á fyrsta fólki og klippa inn á það annað slagið en mest væru þetta viðtöl við þátttakendur sem eru til dæmis að hlaupa til styrktar einhverju málefni, slökkviliðsfólkið sem hleypur í búningunum, fólkið á hvatningastöðvunum og svo framvegis. Þetta hefur allt að bera til að verða mjög skemmtilegt sjónvarpsefni og væri kjörin leið til að hefja menningarnæturdagskrána,“ segir Arnar.
„Fram undan er svo íslenska hlaupasumarið en það er skemmtilegasti tími ársins. Planið er að fara í æfingabúðir um mitt sumar sem verða með svipuðu sniði og í Suður-Afríku um áramótin en þá var ég í tvær vikur að hlaupa 200 km og 205 km á viku. Ég stefni að því að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ágúst og svo hugsanlega annað maraþon erlendis í september eða október. Þá verður markmiðið að höggva enn nær ólympíulágmarkinu enda er draumurinn að keppa fyrir Íslands hönd á stærsta sviðinu. Þangað til mun ég halda áfram að mæta í götuhlaupin á Íslandi en þar ber helst að nefna Powerade-sumarmótaröðina og Hleðsluhlaupið. Ef fólk vill fylgjast betur með mér og fá góð hlauparáð þá er ég virkur á Instagram undir nafninu @arnarpetur. Ég vonast til að sjá sem flesta í götuhlaupunum í sumar og hvet alla til að mæta þegar ég fer aftur í heimsóknir í hlaupahópa um allt land.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -