Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Eiturhressi Eurovision-leikur Mannlífs og algjörlega tilgangslaus fróðleikur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stærsti dagur Eurovision-aðdáenda um heim allan, samt mestmegnis bara í Evrópu, er á næsta leiti. Því sá Mannlíf sig knúið í að búa til eiturhressan og skemmtilegan Eurovision-leik til að gera keppnina og öll Eurovision-partíin aðeins skemmtilegri.

Leikurinn er þannig gerður að bæði er hægt að spila hann meðal fullorðinna í hressum teitum þar sem svokallað partígos er við hönd eða í stórum fjölskylduboðum þar sem krakkarnir eru útúrtjúnaðir af snakk- og nammiáti. Góða skemmtun!

1. Við byrjum þetta rólega. Gefið næsta manni „high five“ í hvert sinn sem minnst er á Salvador Sobral, sigurvegara síðasta árs.

2. Drekkið tvo sopa, hvort sem það er partígos eða strangheiðarlegt vatn, í hvert sinn sem þið skiljið ekki texta í lögunum.

3. Troðið munninn á ykkur fullan af snakki alltaf þegar portúgölsku kynnarnir reyna að vera fyndnir en mistekst hrapallega.

- Auglýsing -

4. Klappið í hvert sinn sem sungið er um ást eða heimsfrið. Bara ekki klappa of hátt, eða verið í vettlingum – þetta verður ansi hreint mikið klapp!

5. Klárið úr glasinu ykkar þegar Gísli Marteinn minnist á hve Ari stóð sig frábærlega eða þegar hann ber saman stjórnmál og Eurovision eða þegar hann gerir grín að klæðaburði keppenda.

6. Standið upp og dansið fugladansinn í hvert sinn sem eldur er á sviðinu.

- Auglýsing -

7. Ef þið hafið ekki hugmynd um hvar eitthvað land er staðsett í Evrópu, eða hvort það er á annað borð í Evrópu, verðið þið að róa ykkur niður og fá ykkur þrjá sopa.

8. Fimm sopar á haus í hvert sinn sem stigakynnir reynir fyrir sér á tungumáli heimamanna, portúgölsku, með misgóðum árangri. Bónussopi ef portúgölsku kynnarnir skilja ekki bofs í stigakynninum. #áframeddasif!

9. Tvær, vænar lúkur af nammi í skoltinn á ykkur ef einhverjir tæknilegir örðugleikar verða þegar stigin eru kynnt. Jebb, það fer enginn í megrun á Eurovision!

10. Og svo verðið þið að blanda ykkur glænýjan drykk og skála í botn í hvert sinn sem þjóð gefur nágrannaþjóð sinni 12 stig.

Tíminn líður hratt …

Ísland tók fyrst þátt í Eurovision árið 1986 með lagið Gleðibankinn. Þá voru aðeins tuttugu lög í keppninni og Ísland lenti í hinu alræmda sextánda sæti með nítján stig. Þá var …

… forsætisráðherra okkar, Katrín Jakobsdóttir, aðeins 10 ára.

…. fjármála- og efnahagsráðherra okkar, Bjarni Benediktsson, 16 ára.

… félags- og jafnréttismálaráðherra okkar, Ásmundur Einar Daðason, aðeins 4 ára gamall.

… utanríkisráðherra okkar, Guðlaugur Þór Þórðarson, á 19 aldursári.

… umhverfis- og auðlindaráðherra okkar, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, 9 ára gamall.

… sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra okkar, Kristján Þór Júlíusson, 29 ára.

… mennta- og menningarmálaráðherra okkar, Lilja Alfreðsdóttir, 13 ára gömul.

… dómsmálaráðherra okkar, Sigríður Á. Andersen, rétt nýfermd, eða að verða 15 ára.

… samgöngu- og sveitastjórnarráðherra okkar, Sigurður Ingi Jóhannsson, 24 ára.

… heilbrigðisráðherra okkar, Svandís Svavarsdóttir, 22 ára.

… ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra okkar, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ekki fædd.

Endurkomur allra endurkoma

Eins og margir vita reynir Norðmaðurinn Alexander Rybak að endurtaka leikinn í ár með lagið That’s How You Write a Song, eftir að hafa sigrað í Moskvu árið 2009 með lagið Fairytale.

Hann er langt frá því að vera fyrsti Eurovision-keppandinn sem snýr aftur, og örugglega ekki sá seinasti. Raunar hafa tæplega tvö hundruð keppendur snúið aftur í keppnina með misgóðum árangri. Flestum vegnar verr í annað sinn, en svo eru aðrir sem ná að vinna huga og hjörtu Eurovision-aðdáenda aftur og aftur.

Þrenna til Írlands
Eins og írski söngvarinn Johnny Logan. Hann vann Eurovision fyrst árið 1980 með lagið What’s Another Year. Sjö árum seinna tók hann aftur sigurinn heim með Hold Me Now og árið 1992 sigraði Linda Martin með laginu Why Me, úr smiðju fyrrnefnds Johnnys.

Númer 1
Hin gríska Helena Paparizou átti líka stórkostlega endurkomu í Eurovision árið 2005, eftir að hafa lent í þriðja sæti með stúlknasveitinni Antique árið 2001. Árið 2005 nefnilega kom, sá og sigraði Helena með goðsagnakennda lagið My Number 1 sem enn er spilað við góðar undirtektir á Eurovision-böllum um heim allan.

Alltaf í topp fimm
Önnur stórsöngkona, Carola Häggkvist frá Svíþjóð, hefur keppt í Eurovision hvorki meira né minna en þrisvar sinnum. Fyrst árið 1983 með lagið Främling sem lenti í þriðja sæti, aðeins sextán stigum frá sigrinum. Svo sneri hún aftur árið 1991 með lagið Fångad av en stormvind. Þá var jafntefli milli Svíþjóðar og Frakklands en Svíar hlutu loks dolluna þegar búið var að telja hvort landið fékk fleiri tíu stig, enda löndin jöfn að fjölda 12 stiga atkvæða. Árið 2006 kom Carola síðan aftur í Eurovision eins og stormsveipur með lagið Invincible sem lenti í fimmta sæti.

Skautað til sigurs
Það væri hægt að halda endalaust áfram í endurkomunum, en við verðum að minnast á rússneska hjartaknúsarann Dima Bilan sem lenti í öðru sæti árið 2006 með lagið Never Let You Go, eftir eftirminnilega atriðið þar sem kona reis upp úr píanói. Tveimur árum seinna sneri Dima aftur með fiðluleikara og listdansskautara, negldi lagið Believe og færði Rússum sigurinn.

Hvernig sigrar maður í Eurovision?

Ef við lítum á keppnirnar frá árinu 1998, þegar símakosningu var hrint af stað, þá er sigurstranglegast að keppa í seinni undanúrslitariðlinum. Af þeim tuttugu lögum sem hafa unnið frá árinu 1998 hafa fjórtán þeirra keppt í seinni riðlinum, en aðeins sex í þeim fyrri, þar á meðal hinn portúgalski Salvador Sobral sem vann í fyrra. Öll lögin hafa keppt í seinni helmingi síns riðils, nema tvö – Dana International með lagið Diva, árið 1998, og Sertab Erener með lagið Everyway that I can, árið 2003.

Þrumur = gott, sólskin = vont
Þá er ýmislegt í texta lagsins sem getur verið líklegt til sigurs. Það er til dæmis mjög sigurstranglegt að syngja um vont veður, eins og þrumur, eldingar og ský. Þá er einnig gott að hafa einhvers konar eld í atriðinu. Það er hins vegar ekki vænlegt til árangurs að syngja um sólskin. Það er slæmt að hlaupa eða ganga til einhvers en mjög gott að syngja um flug. Þá er afleitt að syngja um að tala með hjartanu og betra að tala með huganum, augunum eða öðrum líkamspörtum ef sigur er markmiðið.

Popplag í D-moll
Lög geta verið í dúr og moll. Lög í dúr eru yfirleitt glaðleg en í moll eru þau frekar dökk og drungaleg. Maður myndi halda að lögin í dúr væru þá líklegri til vinsælda í Eurovision, en svo er ekki, allavega frá aldamótunum 2000. Þá hafa örfá lög í dúr sigrað en flest sigurlaganna verið í moll. Og ef þið ætlið að semja Eurovision-lag, hefur D-moll verið ansi vinsæl tóntegund síðustu ár.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -