Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Þá voru menn bara hommar um helgar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar Hörður Torfason boðaði homma og lesbíur til fundar á heimili sínu 9. maí 1978 til að stofna baráttusamtök samkynhneigðra, Samtökin ’78, hafði hann dreymt um að koma slíkum samtökum á koppinn árum saman við litlar undirtektir. Það var ekki fyrr en hann hafði hrakist úr landi, ætlað fyrirfara sér en hætt við og ákveðið að berjast fyrir réttindum sínum sem hommi sem hjólin fóru að snúast.

Samtökin ’78 halda upp á 40 ára afmæli sitt þann níunda maí. Löngu orðið viðurkennt félag í samfélaginu, hljóta stuðning frá ríki og borg og eru almennt álitin nauðsynlegur partur af samfélaginu. En fyrir rúmum fjörutíu árum þegar ungur leikari, leikstjóri, söngvari og söngvasmiður byrjaði að ámálga það við samkynhneigða félaga sína að stofna samtök til að berjast fyrir réttindum sínum þótti þeim það fráleit hugmynd og sumir hlógu að honum fyrir vitleysuna.

„Já, það var allt annað landslag þá,“ segir Hörður. „Það voru nokkrir menn sem allir vissu að voru hommar, en meirihlutinn var í felum og þorði ekki fyrir sitt litla líf að koma út úr skápnum. Við vorum kallaðir kynvillingar, orðið samkynhneigð var ekki til og Mánudagsblaðið skrifaði um okkur eins og við værum glæpamenn. Svo helltu menn í sig um helgar, fóru á skemmtistaðina og reyndu við aðra homma en það var allt gert undir rós og maður þurfti að vera sérfræðingur í þessu rósamáli til að átta sig á því hvað var í gangi. Ég hef oft sagt að í þá daga hafi menn bara verið hommar um helgar og það er alveg satt. Það eru flestir búnr að gleyma því hvað þetta var niðurlægjandi staða.“

„Það hafa orðið áherslubreytingar innan samtakanna með nýjum kynslóðum og breyttum áherslum eins og kristallaðist í átökunum um inngöngu BDSM fólks fyrir nokkrum árum … En eins og einn vinur minn benti á þá gerist slíkt í öllum félagsskap, meira að segja í KR.“

Hörður segist hafa byrjað að tala um að hommar þyrftu að stofna með sér samtök til að berjast fyrir réttindum sínum og vera sýnilegir í samfélaginu fljótlega eftir að hann kom sjálfur út, þá 21 árs gamall en það hafi ekki verið neinn grundvöllur fyrir því á þeim tíma.

„Ég gat ekki hugsað mér að lifa í felum allt mitt líf,“ segir hann. „Og foreldrar mínir studdu mig í því að vera ég sjálfur og lifa í samræmi við eðli mitt. Ég var orðinn þekktur á þessum árum og mikið talað um kynhneigð mína en ég svaraði alltaf eins og satt var þegar þegar ég var spurður hvort ég væri hommi. Mér datt bara ekki í hug að fela það neitt.“

Var búinn að skrúfa frá gasinu
Eftir að hið alræmda viðtal þar sem Hörður talaði opinskátt um kynhneigð sína birtist í tímaritinu Samúel í ágúst 1975 varð allt vitlaust. Hann var úthrópaður, fékk hvorki vinnu né húsnæði og flúði að lokum til Kaupmannahafnar þar sem hann ákvað að binda enda á líf sitt.

„Ég var búinn að skrúfa frá gasinu og teipa fyrir allar rifur, alveg tilbúinn að deyja, þegar eitthvað í mér gerði uppreisn. Ég var ungur maður, hafði hæfileika sem leikari, söngvari og lagasmiður og mér fannst ég eiga skilið að lifa lífi mínu á eigin forsendum. Ég skrúfaði fyrir gasið og tók þá ákvörðun að berjast fyrir réttindum mínum og annarra samkynhneigðra hvað sem það kostaði.“

- Auglýsing -

Hörður var á þessum tíma í sambandi með norskum manni og með því að nota nafn hans fengu þeir húsnæði á Íslandi. Þar settust þeir að haustið 1977 og Hörður byrjaði ótrauður að undirbúa stofnun samtakanna. Einn til að byrja með en upp úr áramótum 1978 hafði hann samband við Guðna Baldursson, sem varð fyrsti formaður Samtakanna ’78 og fékk hann í lið með sér.

„Guðni fylgdist vel með því sem var að gerast í málefnum samkynhneigðra annars staðar í Evrópu og var þar að auki einstaklega rökfastur og fylginn sér. Það var mikil gæfa fyrir Samtökin að fá hann sem formann,“ segir Hörður. „Við héldum áfram að tala við aðra homma og útskýra fyrir þeim hvað við værum að hugsa og smátt og smátt vaknaði áhugi hjá fleiri hommum. Það var erfiðara að ná í lesbíurnar en mér tókst að fá tvær sem ég þekkti til að mæta á fyrsta fundinn. Það voru nú ekkert allir ánægðir með það en ég hlustaði ekki á mótbárur. Við vorum öll á sama báti og þurftum að standa saman.“

Uppljómun við uppvaskið
Starfsemin fór hægt af stað og vakti ekki mikla ánægju í samfélaginu en smátt og smátt fóru málin að þokast í rétta átt. Hörður segir Guðna alfarið hafa séð um þá hlið starfseminnar sem sneri að samskiptum við stjórnmálamenn og tillögum um lagabreytingar, sjálfur hafi hann tekið að sér að vera í samskiptum við fjölmiðla og vinna að því að gera samkynhneigða sýnilega í samfélaginu.

- Auglýsing -

„Það vissi hver einasti Íslendingur hver ég var þegar hér var komið sögu og ég samdi við Guðna um að hann sæi um Reykjavík en ég skyldi sjá um landsbyggðina, þar sem ég var oft að setja upp sýningar hjá áhugaleikfélögum,“ útskýrir hann. „Ég fór líka í nokkur viðtöl í útvarpinu og hef heyrt það seinna meir að það hafi skipt sköpum fyrir marga. Til dæmis sagði mér kona, mörgum árum seinna, að hún hefði verið húsmóðir í Vestmannaeyjum sem stóð við eldhúsvaskinn sinn og vaskaði upp þegar hún heyrði fyrst í mér tala um samkynhneigð í útvarpinu. Hún hefði samsamað sig öllu sem ég sagði og þar og þá ákveðið að hætta að lifa í blekkingaleik og gangast við því að hún væri lesbía. Sem hún og gerði. Það gladdi mig alltaf jafnmikið að heyra svona sögur og það styrkti þá trú mína að það væri eitt af undirstöðuatriðum þess að samkynhneigðir fengju réttindi á við aðra að þeir yrðu sýnilegir í samfélaginu.“

„Þess vegna finnst mér gott að Samtökin ’78 einbeiti sér að því að berjast fyrir réttindum annarra jaðarhópa, eins og trans fólks og intersex fólks, því eins og ég hef alltaf sagt þá gengur baráttan út á full mannréttindi fyrir alla.“

Gerist líka í KR
Sjálfur yfirgaf Hörður Samtökin ’78 árið 1993 eftir að upp komu leiðindi innan þeirra og hefur ekki verið starfandi í þeim síðan. Hann segist þó alls ekki vera einn af þeim sem finnst þau vera á villigötum.

„Það hafa orðið áherslubreytingar innan samtakanna með nýjum kynslóðum og breyttum áherslum eins og kristallaðist í átökunum um inngöngu BDSM fólks fyrir nokkrum árum. Það kom nýtt fólk með nýjar hugmyndir og yfirtók í raun Samtökin. En eins og einn vinur minn benti á þá gerist slíkt í öllum félagsskap, meira að segja í KR,“ segir Hörður glaðhlakkalega. „Ég lít þannig á að með lagasetningunni 2006 þegar samkynhneigðir fengu loks full mannréttindi eftir þrjátíu og eins árs baráttu Samtakanna ’78 hafi þeim tilgangi sem ég lagði upp með verið náð alveg hundrað prósent þannig að ekki sé lengur þörf á því að berjast fyrir réttindum þeirra. Þess vegna finnst mér gott að Samtökin ’78 einbeiti sér nú að því að berjast fyrir réttindum annarra jaðarhópa, eins og trans fólks og intersex fólks, því eins og ég hef alltaf sagt þá gengur þessi barátta út á full mannréttindi fyrir alla. Hitt er annað mál að mér finnst stundum að unga fólkið í dag skilji ekki hvað það var sem við þurftum að glíma við fyrir fjörutíu árum og alveg ástæða til að hvetja það til að kynna sér söguna og læra af henni. Mér fannst það til dæmis sláandi að þegar lagasetningunni 2006 var fagnað var ekki einn einasti samkynhneigður á sviðinu, enginn. Þar voru bara stjórnmálamenn, eins og þetta væri allt saman þeim að þakka. Mér finnst svolítið umhugsunarfni á hvaða leið Samtökin eru ef þeim finnst það sjálfsagt mál. Það er nefnilega þannig að þessi réttindi fengust ekki af sjálfu sér, það kostaði mikla og harða baráttu og það eru ýmis teikn á lofti í heiminum sem benda til þess að ofsóknir gegn hommum séu aftur að aukast. Það þarf að vera vakandi fyrir því svo sagan endurtaki sig ekki.“

Hinn eðlilegi gangur lífsins
En hvernig líður þér með það að þetta „barn“ þitt sem Samtökin ’78 óneitanlega eru sé orðið fertugt, ertu ekki stoltur af þínum hlut?

„Jú, jú, ég get alveg verið það, ef maður þarf endilega að vera stoltur af einhverju,“ segir Hörður og hlær. „Ég er bara ekki þannig gerður að að ég sé hoppandi af gleði yfir einhverjum hlutum, ég er frekar þurr bara þegar aðrir fagna. Ég hef ekki lengur nein tengsl við Samtökin ’78 en ég losna auðvitað aldrei undan því að hafa verið sá sem stofnaði þau og gengst glaður við því.“

Spurður hvernig hann ætli að fagna tímamótunum upplýsir Hörður að hann hafi verið beðinn um að syngja nokkra söngva í kaffisamsæti sem haldið verður í húsnæði Samtakanna við Suðurgötu 3 þann 9. maí til að halda upp á afmælið.

„Þau hringdu í mig og báðu mig að gera þetta,“ segir hann hógvær. „Og ég geri það auðvitað með gleði, þótt einhverjir verði kannski ekki ánægðir með það. Að öðru leyti hugsa ég ekki lengur mikið um þessi mál. Ég var forgöngumaður í stofnun þessara samtaka, en svo tóku aðrir við stjórninni og það er bara nákvæmlega eins og það á vera. Hinn eðlilegi gangur lífsins.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -