Aðeins nokkrir dagar eru þar til Eurovision-keppnin hefst fyrir alvöru í Lissabon í Portúgal, en keppnin er haldin dagana 8. til 12. maí næstkomandi.
Evrópskir áhorfendur fá að velja sér sigurvegara ásamt dómnefndum frá öllum Evrópulöndunum og Ástralíu, en fimm reynsluboltar sitja í íslensku dómnefndinni sem leggur sitt mat á öll framlögin sem keppa.
Sjá einnig: Spánn vinnur Eurovision ef marka má Google.
Í dómnefnd eru tónlistarkonan Védís Hervör Arnadottir, Hlynur Ben, ritstjóri og stofnandi garg.is, Jón Rafnsson tónlistarmaður, Erla Jónatansdóttir, kennari og söngkona, og Hannes Friðbjarnarson, trommuleikari og fyrrum Eurovision-fari.
Sá síðastnefndi fór fyrir Íslands hönd í Eurovision-keppnina árið 2013 í Malmö í Svíþjóð þar sem Eyþór Ingi Gunnlaugsson söng lagið Ég á líf. Þá var Hannes í hlutverki bakraddasöngvara. Eftir keppnina viðraði Hannes þá hugmynd að Ísland tæki sér pásu frá Eurovision vegna fjárskorts RÚV. Skemmst er frá því að segja að hugmyndin féll í grýttan jarðveg hjá Eurovision-aðdáednum, svo sem Friðriki Ómars og Regínu Ósk sem skipuðu dúettinn Eurobandið og gerðu garðinn frægan í Serbíu árið 2008.
Sjá einnig: Alexander Rybak heillaði Eurovision-heiminn á fyrstu æfingu.
Það er ekki bara Ísland sem skipar fyrrum Eurovision-stjörnur í dómnefnd.
Danir stóla til dæmis á Emmelie de Forest sem sigraði með laginu Only Teardrops í Malmö árið 2013. Austurríkismenn leggja traust sitt á Nathan Trent sem endaði í 16. sæti í keppninni í fyrra með lagið Running on Air og Norðmenn eru með Hanne Haugsand, sem var í tríóinu Charmed sem keppti árið 2000 með lagið My Heart Goes Boom og lenti í 11. sæti, svo fátt eitt sé nefnt.
Sjá einnig: Það sem býr á bak við brosið.