Innbrotahrina erlendra glæpagengja stöðvuð. Þýfið var flutt úr landi eða hent. Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir dæmi um að fólki hafi liðið illa á heimilum sínum eftir innbrot og flutt.
„Við náðum að stöðva þá sem stóðu að stórum hluta þessara innbrota. Þetta voru sjö einstaklingar frá Austur-Evrópu og einn sem hafði verið búsettur hér lengi og var með íslenskt ríkisfang. Einn var 16 ára og hefur verið sendur til síns heima en aðrir hafa verið úrskurðaðir í farbann, gæsluvarðhald og bíða ákæru,“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er búið,við sjáum ekki þessa hópa lengur.“
Skúli segir lögreglu hafa tekist að endurheimta hluta af þýfi við húsleitir og handtökur. Ljóst sé að þjófarnir hafi flutt eitthvað úr landi og selt hluta þess. Það sem þjófarnir töldu ekki fást mikið fyrir hentu þeir. Tilfinningalega tjónið er mest, að mati Skúla. „Það eru dæmi um að fólk hafi ekki getað búið í húsum sínum lengur, selt það og flutt.“
„Það eru dæmi um að fólk hafi ekki getað búið í húsum sínum lengur, selt það og flutt.“
Innbrotahrina gekk yfir höfuðborgarsvæðið fyrir jól og inn í árið. Helst var brotist inn á heimili fólks, sérstaklega fjölgaði innbrotum í sérbýli í Garðbæ, Kópavogi, Grafarvogi og Mosfellsbæ. Skúli segir lögregluna hafa greint af aðferðunum að herjað var skipulega á ákveðin hverfi. Aðferðirnar við innbrotin og verksummerki voru svipuð. Farið var inn bakatil hjá fólki þegar enginn var heima yfir hábjartan dag. Farið var inn í svefnherbergi og stolið skartgripum, peningum og minni raftækjum.
„Verksummerki sýndu greinilega að fleiri en einn var á ferðinni. Okkur grunaði strax að um væri að ræða erlenda brotamenn því við vorum með myndir af brotamönnum sem enginn okkar kannaðist við. Þýfi var heldur ekki að ganga kaupum og sölum. Við fundum reyndar þýfi hjá skartgripasala sem hafði keypt það í góðri trú,“ segir Skúli.
Ábendingar leiddu til handtöku
Slíkur var faraldurinn að lögreglan bað fólk að vera á varðbergi og fylgjast með mannaferðum. Árangurinn var góður og bárust lögreglunni ábendingar sem leiddu til þess að þjófagengið var handtekið í tveimur umfangsmiklum aðgerðum í Setbergshverfinu í Hafnarfirði og í Garðabæ. Átta til níu lögreglubílar voru notaðir við aðra handtökuna. Þýfi fannst á vettvangi auk muna sem stolið var úr sumarbústöðum á Vesturlandi og því ljóst að þjófarnir voru sökudólgarnir í innbrotum þar.
„Ég var mjög ánægður með það hvernig lögreglan stóð sig við handtökurnar. Þessir einstaklingar áttu enga möguleika á því að komast burt og voru handteknir á hlaupum,“ segir Skúli. Þegar þjófarnir voru handteknir voru tilkynningar um innbrot í sérbýli, einbýlishús og ráðhús, orðnar 70 talsins.
En hvernig á að komast hjá því að kaupa þýfi?
„Yfirleitt er það þannig að fólki er að bjóðast verðmætir hlutir á ótrúlega lágu verði. Þegar þannig háttar til þá á fólk að vera á varðbergi, gæti verið um þýfi að ræða. Fólk má ætla að um sé að ræða þýfi,“ segir Skúl aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Hér má sjá þróun innbrota í fyrirtæki/verslanir/stofnanir og heimili. Eins og myndin sýnir þá fjölgaði innbrotum talsvert á þessu ári. En hrinunni lauk snarlega þar sem grafið fer niður. Innbrot hafa verið á svipuðu róli síðustu árin og hefur lögreglan séð það verra, svo sem á árunum eftir hrun.