Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Börn eiga ekki að þurfa að verða fyrir kynferðisofbeldi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Félagasamtökin Blátt áfram hafa hrint af stað landssöfnun undir yfirskriftinni „Vertu verndari“ í því skyni að efla fræðslu og forvarnir gegn kynferðisofbeldi á börnum. Sigríður Björnsdóttir, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Blátt áfram, segist hafa upplifað mikla viðhorfsbreytingu hjá almenningi gagnvart þessum erfiða málaflokki á þeim 14 árum sem samtökin hafa starfað, en segir að enn sé af nógu að taka eins og #metoo-byltingin hafi sýnt fram á.

„Þetta er allt annað í dag. Það er kominn miklu betri skilningur á kynferðisofbeldi og þeim skelfilegu afleiðingum sem það getur haft og við sem samfélag almennt miklu meðvitaðri um hvað það er mikilvægt að koma í veg fyrir það,“ segir Sigríður, spurð hvernig henni finnist viðhorfið gagnvart umræðunni um kynferðisofbeldi á börnum hafa breyst frá því að samtökin voru stofnuð.

„Fólk er almennt bæði betur upplýst og tilbúnara að afla sér fræðslu en áður,“ heldur hún áfram. „Það hringir til okkar, leitar sér hjálpar og breytir viðbrögðum sínum eftir að fengið forvarnarfræðslu hjá Blátt áfram, sem er besta uppskera viðfangsefna okkar,“ segir hún og nefnir sem dæmi að síðastliðinn vetur hafi Blátt áfram farið af stað með nýtt verkefni ætlað foreldrum og aðstandendum barna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og því hafi verið vel tekið. „Talið er að um 17 til 27 prósent barna verði fyrir kynferðisofbeldi eða áreitni fyrir 18 ára aldur og foreldrar þessara barna eiga oft um sárt að binda. Telja sig ekki hafa staðið sig vel í foreldrahlutverkinu og eru af þeim sökum stundum uppfullir af skömm, reiði og sektarkennd. Við ákváðum að bjóða upp á stuðingshóp fyrir foreldra og aðstandendur því meðferð barna fer töluvert eftir því hvernig foreldrum tekst að halda utan um eigið líf,“ útskýrir hún.

„Árið 2014 sendum við Velferðarráðuneytinu drög að aðgerðaráætlun fyrir forvarnir gegn kynferðisofbeldi á landsvísu en ráðamenn eru fyrst núna að taka við sér og átta sig á mikilvægi forvarna til langs tíma.“

Hún nefnir líka námskeiðið „Verndarar barna“ sem er eitt af helstu verkefnum Blátt áfram og er gagnreynt efni byggt á rannsóknum. „Þetta er markviss og öflug fræðsla fyrir fullorðna, foreldra og aðila sem starfa með börnum og ungmennum. Fræðsla sem stofnanir og sveitafélög nýta sér til að efla þekkingu og færni meðal starfsfólks við störf sín og hjálpar því að taka samstundis á óæskilegri hegðun annarra fullorðinna og hjálpar börnum að greina strax frá ofbeldi.“

Ráðamenn fyrst núna að taka við sér
Sigríður segir það vera góða þróun að sveitarfélög og stofnanir séu farin að taka ábyrgð á velferð barna og ungmenna með markvissri þjálfun starfsstétta sem starfa með þessum aldurshópum. „Það er góð tilfinning að sjá slíkan árangur en ég viðurkenni samt sem áður að ég hefði viljað sjá fleiri breytingar í samfélaginu og þær mættu hafa gerst hraðar og fyrr.

Árið 2014 sendum við til dæmis Velferðarráðuneytinu drög að aðgerðaráætlun fyrir forvarnir gegn kynferðisofbeldi á landsvísu en ráðamenn eru fyrst núna að taka við sér og átta sig á mikilvægi forvarna til langs tíma. Fólk er að átta sig á því að forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börunum eru líka forvarnir gegn sjálfsvígum, áfengis- og vímuefnanotkun, matarfíkn og öðrum afleiðingum sem valda fólki með áfallasögu úr æsku meiri vanda, langt fram á fullorðinsárin. Að áföll í æsku hafa langvarandi afleiðingar á allt lífið og með því að fækka slíkum áföllum höfum við áhrif á svo margt fleira en bara einstaklinginn sjálfan. Að starfið sem Blátt áfram innir af hendi og baráttan gegn kynferðisofbeldi á börnum er ekki stakt átaksverkefni.“

Íslendingar stutt komnir í baráttunni
Spurð hvort það sé ekki búið að vera strembið að standa í brúnni í öll þessi ár viðurkennir Sigríður að vissulega hafi það oft tekið á. „Það er krefjandi að vera í fararbroddi með umræðu um jafnvandasamt og sársaukafullt málefni og kynferðisofbeldi á börnum,“ segir hún. „En á sama tíma er gott að sjá árangur af starfinu. Fólk kemur og þakkar okkur fyrir að vera með fræðslu og segir að samtökin hafi bjargað sér. Eins og þegar ung kona stöðvaði mig á förnum vegi fyrir skömmu og sagði mér frá því að vegna fræðslu sem hún hafði fengið hjá Blátt áfram í skólanum sínum þegar hún var yngri hafi hún strax getað greint frá ofbeldi sem hún varð síðar fyrir. Það er gefandi að heyra svona sögur. Að fá að vita að við erum að bjarga mannslífum.“

- Auglýsing -

Heldurðu að þessari baráttu, baráttunni gegn kynferðisofbeldi á börnum, komi einhvern tímann til með að ljúka? „Ég held að henni ljúki ekki, nei,“ svarar hún, „en verkefnin breytast og við sjáum það á þeim þjóðum sem eru komnar lengra en við Íslendingar í forvörnum gegn kynferðisofbeldi hvað við erum raunverulega stutt á veg komin í að uppræta ofbeldi á börnum.“

Gerendur ekki með horn og hala
En hvernig sérðu fyrir þér að við getum unnið betur á þessu samfélagsmeini sem kynferðisofbeldi er? „Samfélagsmeinið er til dæmis vandi okkar að horfast í augu við hverjir það eru sem brjóta gegn börnum. Að átta sig meðal annars á því að gerendurnir eru ekki með horn og hala. Að flestir sem brjóta gegn börnum eru tengdir þeim með einhverjum hætti. Ef við viljum stöðva ofbeldið þurfum við að taka það með inn í myndina. Við þurfum að vera tilbúin að bregðast við óþægilegri hegðun annars fullorðins fólks gagnvart börnum og þannig vernda börnin,“ svarar hún og getur þess að ein leiðin til þess sé einmitt að leggja Blátt áfram lið.

„Samfélagsmeinið er … vandi okkar að horfast í augu við hverjir það eru sem brjóta gegn börnum. Að átta sig meðal annars á því að … flestir sem brjóta gegn börnum eru tengdir þeim með einhverjum hætti.“

„Blátt áfram er rekið með styrkjum og frjálsum framlögum einstaklinga, fyrirtækja og félaga. Fleiri aðilar styðja við bakið á okkur sem störfum að forvörnum gegn kynferðisofbeldi með ýmsum hætti þótt hann sé sjaldnast nægur. Þess vegna skiptir landssöfnun félagsins sem er í gangi núna miklu máli. Lyklakippan sem er til sölu felur í sér stuðning til okkar. Salan er mikilvægur liður í því að afla fjár til að sinna brýnum verkefnum sem eru mörg og fjölgar árlega. Hún er liður í því að hjálpa öðrum til betra lífs. Liður í því að hjálpa samfélaginu að bæta tilveru okkar allra. Í því að hjálpa okkur að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi á börnum.“

- Auglýsing -

Stöðvum ofbeldi gegn börnum
Að sögn Sigríðar vita flestallir Íslendingar nægilega mikið um þessi mál í dag, til dæmis með tilkomu nýlegra byltinga, eins og #metoo þar sem fjöldi kvenna hefur stigið fram og greint frá kynferðisáreiti og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir, margar hverjar á á barnsaldri, til að vera meðvitaðir um nauðsyn þess að koma í veg fyrir að slíkt ofbeldi eigi sér stað. „Við vitum nægilega mikið um það hvernig það gerist og þá er komin tími til að koma í veg fyrir það. Börn eiga ekki að þurfa að verða fyrir þessu ofbeldi,“ segir hún. „Þess vegna hvet ég sem flesta að gerast „verndarar“ með því að styðja Blátt áfram í því að stöðva það, þetta ofbeldi á börnum, til dæmis með því að kaupa fyrrnefndu lyklakippuna sem er til sölu í landssöfnun félagsins eða með því að styrkja starfssemi þess með mánaðarlegum greiðslum. Tækifærið sem við höfum núna til þess að reyna að vinna gegn því er einstakt fyrir samfélagið okkar. Tíminn er núna.“

Mynd / Sigtryggur Ari Jóhannsson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -