Stjórn framboðsins Okkar Hveragerði er ekki beint í skýjunum eftir að ungir sjálfstæðismenn í bænum keyptu lén framboðsins í lok mars.
Okkar Hveragerði er nýr listi skipaður fólki úr Samfylkingunni, Bjartri framtíð og óháðra sem ætlar fram í sveitarstjórnarkosningunum í lok mánaðar. Frambjóðendurnir stofnuðu Facebook-síðu Okkar Hveragerði 28. mars síðastliðinn. Daginn eftir tryggði stjórn Asks, félags ungra sjálfstæðismanna í Hveragerði sér hins vegar lénið www.okkarhveragerdi.is og vísaði allri umferð þaðan yfir á vefsíðu Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði.
„Það kom okkur mjög spánskt fyrir sjónir að lénið væri virkilega laust á þessum tímapunkti og kom þá upp í einhverjum félagsmönnum örlítill ungliðapúki sem vildi setja fútt í kosningabaráttuna,“ segir Laufey Sif Lárusdóttir, formaður Asks. Hún bendir á að Askur og fleiri í Hveragerði hafi notað slagorð nýja framboðsins í sínu starfi í gegnum tíðina.
Laufey bendir líka á að undarlegt sé að stjórn framboðsins Okkar Hveragerði hafi ekki tryggt sér lénið fyrr. ,,Í nútímasamfélagi er þetta eitt af því fyrsta sem maður gerir við stofnun fyrirtækis eða pólitísku framboði. Þú finnur nafn og kannar hvort lénið sé laust. Ef maður gerir það ekki þá gerir einhver annar það,“ segir hún.
Spurð hvort stjórn framboðsins Okkar Hveragerði hafi haft samband við stjórn Asks til að þess að fá lénið segir hún svo ekki vera.
Aðalmynd: Laufey Sif Lárusdóttir segir fútt komið í kosningabaráttuna í Hveragerði.