Margrét Erla Maack, fjöllistadís, kabarettmær og mamma Reykjavík Kabarett, sem er að undirbúa sumarsýningar, deilir með lesendum nokkrum sakbitnum sælum.
Death Becomes Her (1992)
Meryl Streep, Goldie Hawn og Bruce Willis í tiltölulega barnvænni hryllingsmynd um æskudýrkun og hégóma. Ég sá plakatið á vídeóleigu þar sem Goldie er með gat í maganum … og var ekki lítið spennt yfir því að sjá hana í fyrsta sinn. Og hún var stórkostleg. Ég horfði á hana aftur um daginn og ég held að það verði fastur liður núna. Hún eldist mjög vel og er orðin költ-mynd. Og það á víst að gera söngleik upp úr henni. Ekki leiðinlegt.
Bring it on (2000)
Ég var búin að gleyma þessari mynd en fékk fyrirspurn um daginn um að kenna klappstýrufjör í gæsapartíi, svo auðvitað varð ég að sökkva mér á kaf í hana, vinnunnar vegna. Hún eldist svona sæmilega en það er fjandi mikið stuð og kóreógrafía er geggjuð.
Working Girl (1988)
Undirfötin í sexí senunum fá mig til að veltast um í hláturs- og aulakasti. Annars er þetta bara virkilega góð og „empowering“ mynd sem ég fæ ekki nóg af.
Blossi/810551 (1997)
Við verðum bara að finna aðra plánetu til að halda partíinu gangandi. Þessi mynd var víst framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 1998.
The Cockettes (2002)
Þessi mynd er allt of góð til að vera á svona lista, en samt. Ég get horft endalaust á þessa heimildamynd um dragkabarettkommúnu í San Francisco á sjöunda áratugnum. Það verður fyndnara og fyndara með hverju áhorfi að engum ber saman um neinar tímasetningar eða „neimdropp“ því allir voru á svo miklum eiturlyfjum á sögutímanum. Frábær frásagnarstíll og „inspírerandi“ fólk.
Aðalmynd / Auðunn Níelsson