Árshátíð RÚV var haldin með pompi og prakt í Gamla bíói um síðustu helgi. Öllu var til tjaldað til að gera kvöldið sem eftirminnilegast en það var spéfuglinn Dóri DNA sem var veislustjóri, og reytti af sér brandara eins og honum einum er lagið.
Það má segja að bílastæðavandi í Efstaleitinu hafi verið aðalstjarna kvöldsins þar sem mikið var gert grín að honum í árshátíðarmyndbandinu. Eins og margir vita standa nú yfir framkvæmdir sunnan við Sjónvarpshúsið, og hafa gert um nokkurt skeið, þar sem fjögur fjölbýlishús rísa. Mikið grín var gert að þessum skorti á bílastæðum í skugga framkvæmdanna og uppskar það hlátrasköll um allt bíóið. Sagði Dóri að miðaverðið á árshátíðina væri lægra en í fyrra og talsvert ódýrara en að leggja hjá RÚV, og vísaði þar í að búið væri að sekta bíla í gríð og erg sem legðu ólöglega við Sjónvarpshúsið út af fyrrnefndum stæðaskorti.
Þá komst Dóri DNA ekki hjá því að gera grín að launahækkun sjálfs útvarpsstjóra, Magnúsar Geirs Þórðarsonar, en nýverið komst það í fréttir að laun hans hefðu hækkað um 16%, upp í 1,8 milljón á mánuði.
Það er mál manna að árshátíðin hafi verið með besta móti, en hljómsveitin Babies spilaði fyrir dansi áður en hópurinn tvístraðist út í nóttina.
Aðalmynd af Dóra DNA / Bragi Þór Jósefsson