„Það tekur gífurlega á að vera maki, dóttir, systir alkóhólista,“ segir Díana María Líndal Stefánsdóttir. Díana er búin að vera með manni sínum í fimm ár, og eiga þau tvo drengi saman; annar fjögurra ára og hinn 18 mánaða. Þá eiga þau líka einn fósturson sem er á nítjánda ári. Díana er lífsglöð og dugleg, en síðustu ár hefur hún þurft að berjast með öllu sem hún á við fíkn eiginmannsins – sjálfan alkóhólismann.
„Maðurinn minn er búinn að vera fíkill síðan hann var unglingur og var inn og út úr meðferðum sem ungur maður. Hann er búinn að taka upp og niður rassíur síðan við tókum saman, en var búinn að ná góðu tímabili áður en hann datt í það núna síðast,“ segir Díana, en stutt er síðan maður hennar kom úr meðferð, en hann lauk bæði meðferð á Vogi og Vík. Díönu blöskrar sú langa bið sem er eftir plássi í meðferð.
„Hann var búinn að bíða í hálft ár eftir að komast inná Vog. Ég var búin að biðja um hjálp frá öllum mögulegum og ómögulegum stofnunum en það var allt yfirfullt. Mér finnst fáránlegt þegar fólk vill sjálft fara í meðferð, eins og hann, að það þurfi að berjast við að reyna að halda sér edrú sjálft í hálft ár, sem er nátttúrulega vonlaust dæmi. Þessi bið þýddi bara hálft ár í neyslu. Á hálfu ári gerist haugur af vitleysu og hann setti okkur til dæmis í fjárhagslega pattstöðu því hann borgaði ekki leigu í þrjá mánuði. Ég vissi það ekki fyrr en leigusalinn okkar kom í vinnuna til mín. Það hefði til dæmis ekki gerst ef hægt væri að kippa fólki strax inn í meðferð. Ég segi bara eins og maðurinn minn: þetta er hrikalegt ástand og það virðist eins og öllum sé sama um stöðuna í þjóðfélaginu. Það skiptir greinilega meira máli að einhver forstjóri sé með margar milljónir í laun á mánuði en að hjálpa fólkinu okkar. Í öllum fjölskyldum er einhver sem þarf að nota þessa þjónustu og það er galið að Vogur sé eina afvötnunarstöðin, sem rúmar aðeins örfáar manneskjur miðað við þann fjölda sem þarf á hjálp að halda,“ segir Díana og heldur áfram.
„Ég hef líka sterkar skoðanir á því að Vogur eigi að vera kynjaskiptur staður því þarna eru veikir einstaklingar. Það er aldrei gott að blanda saman kynjum á svona stöðum og ég held að allir sem koma þarna inn, og aðstandendur þeirra, séu sammála um það, því þetta er ekki staður til að finna sér maka. Þegar fólk er svona veikt er það ekki með rökhugsun.“
Vill ekki hafa fíkilinn nálægt sér
Maður Díönu mætir núna tvisvar í viku í víkingaeftirmeðferð og mun gera það í eitt ár. Það gengur ágætlega að sögn Díönu, en mér leikur forvitni á að vita af hverju hún hafi ekki yfirgefið hann eftir þessi fimm, stormasömu ár.
„Stundum elskar maður einhvern meira en maður gerir sér grein fyrir. Ég vil líka halda í fjölskylduna mína. Ég veit hver hann er þegar hann er edrú. Fíkillinn er ekki maðurinn sem ég elska. Ég elska ekki fíkilinn – ég elska manninn minn og þetta eru tvær ólíkar persónur. Fíkillinn er einhver sem ég vil ekki hafa nálægt mér. Hann veit það og fer út af heimilinu þegar hann er í þessu ástandi. Ég er búin að spyrja mig oft að þessu sjálf, af hverju ég labba ekki bara út. Og ég hef alveg pakkað saman og flutt út. Ég hef flutt inn á tengdaforeldra mína með börnin þegar ástandið var orðið þannig að ég gat ekki verið inni á heimilinu,“ segir Díana, en bætir við að drengirnir sínir hafi ekki þurft að horfa uppá föður sinn fíkilinn.
„Þeir hafa aldrei séð hann undir áhrifum. Hann hefur aldrei vanrækt þá, þó hann vanræki mig, sambandið okkar og sjálfan sig. Ég hef samt hugsað að þessi síðasta meðferð sem hann fór í sé allri síðasti sénsinn hans. Ætla ég að ganga í gegnum þetta allt aftur? Þessar sex vikur sem hann var í burtu voru svakalega erfiðar.“
Ekki gleyma aðstandendum
Faðir Díönu var alkóhólisti og bróðir hennar er það líka. Fósturpabbi hennar er líka alkóhólisti en er edrú í dag.
„Það spyrja mig margir af hverju ég hafi ekki farið sömu leið. Ég er ekki alkóhólisti eða fíkill en ég er ofboðslega meðvirk og það er það sem ég þarf að vinna mikið í. Ég þarf að passa mig á að vera ekki meðvirk en ekki heldur hin andstæðan þar sem ég hlusta alls ekki á fíkilinn. Það er ekki minni vinna fyrir mig að passa mín mörk en fyrir manninn minn að halda sér edrú,“ segir hún og skýtur inní að það sé vöntun á umönnun fyrir aðstandendur fíkla.
„Mér finnst vanta fleiri úrræði fyrir aðstandendur fíkla og alkóhólista. Fólk má alveg muna eftir því hvernig okkur aðstandendum líður.“
Talandi um það, hvernig líður Díönu í skugga þessara erfiðleika?
„Það er rosalega erfitt að svara því hvernig mér líður því ég fæ aldrei þessa spurningu. Það virðist vera sjálfsagt að ég standi alltaf upprétt. Að bakið á mér sé svo breitt að það sé endalaust hægt að hlaða á það,“ segir Díana. Hún er búsett á Selfossi en sækir líkamsrækt í Fitness bilinu í Hveragerði hjá Loreley, og þakkar þjálfara sínum fyrir að missa ekki trú á sér.
„Ég væri löngu hrunin ef ég hefði ekki þjálfarann minn sem ræki á eftir mér og sendi mér skilaboð á hverjum degi. Eitt skipti gat ég ekki reddað pössun og þá sagði hún mér að koma með börnin heim til sín því ég þyrfti á æfingunni að halda. Hjálpin hennar er svo mikil. Ég væri ekki svona lífsglöð ef ég myndi ekki mæta í líkamsrækt. Ég næ að rækta sjálfa mig í ræktinni og það veitir mér þvílíka hugarró.“
„Ég hræðist ekki að láta dæma mig“
Díana er með opið Snapchat undir nafninu djana88 þar sem hún talar um allt milli himins og jarðar, þar á meðal baráttuna við alkóhólisma eiginmannsins, sem hún er mjög opin með. Það fer misjafnlega ofan í fólk.
„Fólki finnst skrýtið þegar ég segi frá því að maðurinn minn sé að fara í meðferð en ég vil ekki fela þetta. Hann skammast sín líka fyrir þetta en samt vita þetta allir. Hann segist vilja passa mannorðið en hann er löngu búinn að skemma það sjálfur. Það er ekki mitt að fela hvernig mér líður og hvernig mitt líf er. Ég hræðist ekki að láta dæma mig. Ég sjálf hef ekkert að fela og mér er alveg sama þó einhver viti að maðurinn minn er fíkill. Það er ekkert öðruvísi að vera fíkill en að vera með annan sjúkdóm, nema þú ræður hvort þú ert í bata eða ekki. Það er undir þér komið hvort þú viljir vinna fyrir því eða ekki. Það er fullt af fólki sem er edrú en samt ekki í bata, sem ber sig áfram daginn út og inn og einn daginn springur það. Það er svo mikil ranghugmynd að fólk geti gert þetta sjálft, án faglegrar hjálpar.“
Bara greitt fyrir fæði og húsnæði
Talið berst aftur að fóstursyni þeirra hjóna sem kom inná heimili þeirra fyrir að verða þremur árum síðan, þá sextán ára gamall.
„Við þekktum aðeins til fjölskyldunnar og á þessum tíma var hann á milli heimila og var að gista hér og þar. Hann fór sjálfur til barnaverndarnefndar og spurði fulltrúann sinn hvort hann mætti flytja til okkar. Hann hafði samband og spurði okkur og við samþykktum það,“ segir Díana. Hún segir að ýmislegt hafi gengið á með drenginn en að hún myndi geta hugsað sér að gerast fósturforeldri annars barns ef kerfið væri betra.
„Ég myndi hiklaust gera þetta aftur ef greiðslurnar væru hærri. Maður uppsker helling, lærir ýmislegt og græðir mikið á því að geta hjálpað barni en greiðslurnar í raun dekka bara fæði og húsnæði fyrir barnið og ekkert meira en það. Við hjálpuðum barni sem var á götunni og mér finnst það mikilvægara en peningar, en greiðslurnar þurfa samt að geta staðið undir barninu,“ segir Díana.
Þú færð ekki hjálp nema þú opnir þig
Hvernig horfir Díana á framtíðina?
„Ég tek bara einn dag í einu og þori ekki fyrir mitt litla líf að hugsa um hvað er að gerast á morgun. Ég er ekki með fimm ára plan eins og er því ég leyfi mér ekki að búa til plan sem ég þarf síðan að henda í ruslið,“ segir Díana sem fagnar þrítugsafmæli sínu í dag, og hefur þetta að segja við fólk sem glímir við erfiðleika:
„Talaðu! Ekki vera hræddur um að einhver sé að fara að dæma þig. Þér á eftir að líða illa ef þú felur þig. Þú færð ekki hjálp nema þú talir. Ef einhver dæmir þig þá er það manneskja sem þú vilt ekki hafa í lífinu þínu.“
Myndir / Úr einkasafni