Hildur Eir Bolladóttir, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, segir fermingarfræðslu vera stóran hluta af þeim tímamótum sem felast í því að fermast. Að hennar mati er mikilvægt að nota fræðsluna til að
brýna fyrir fermingarbörnum að virða og elska sjálfan sig.
„Ég er mikið að tala um sjálfsmynd þeirra í fermingafræðslunni, hjálpa þeim að finna styrkleika sína og segja þeim hvað Guði elski þau mikið með því að vísa í sögur Jesú frá Nasaret,“ segir Hildur Eir og bætir við að megininntak fermingarfræðslunnar eigi að vera forvörn gegn kvíða, sjálfshatri og samanburðarmenningu vegna þess að krakkarnir séu einmitt á þeim aldri þar sem maður finni sér allt til foráttu. „Þar kemur Jesús sterkur inn með allar sínar dæmisögur.“
Spurð hver sé algengasta spurningin sem hún fái í fermingarfræðslunni segir Hildur krakkana oft vilja vita hvernig trú hennar sjálfrar sé. Hvort hún trúi bókstaflega öllu sem standi í Biblíunni.
„Þá svara ég að bókstafstrú sé í besta falli ógagnleg og versta falli hættuleg. Við tölum til dæmis um kraftaverkin sem Jesús framkvæmdi og skoðum bakgrunn aðstæðna. Var Jesús raunverulega að gefa Bartimeus sjón eða var hann að gefa honum innri sýn og trú á sjálfan sig svo hann væri ekki blindur á eigin möguleika og getu. Svona skoðum við sögurnar og lærum af þeim.“
Finnst þér krakkar hugsa öðruvísi í dag en áður fyrr. Liggur þeim eitthvað annað á hjarta?
„Ég hugsa að þau séu á margan hátt tilbúnari til að tala um tilfinningar sínar og andlega líðan vegna þess einfaldlega að samfélagið hefur opnað á þann möguleika með margvíslegum hætti. Það er kannski svona helsta breytingin sem ég sé.“
Áttu eitthvert eitt gott ráð handa fermingarbörnum í lokin – og kannski foreldrum þeirra líka?
„Já að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig. Ást er ástundun en ekki markmið.“
Mynd / Auðunn Níelsson