Hélt veisluna hjá
Sálarrannsóknarfélaginu
Jóel Sæmundsson leikari segir fermingardaginn sinn vera eftirminnilegan fyrir ýmsar sakir. Til dæmis gleymi hann seint athöfninni í kirkjunni.
„Ég týndi sálmabókinni minni,“ segir hann. „Þetta var merkt sálmabók og ég týndi bæði henni og öllum skeytun-um, móður minni til mikillar gleði.“ Þetta hafi ekki verið ábæt-andi ofan á stressið því hann hafi ekki þekkt hina krakkana sem voru að fermast og verið sá eini í hópnum sem þurfti að fara með vers, sem var ferlega pínlegt þar sem hann var í rosalegum mútum.
Veislan eftir á hafi þó toppað allt en hún var haldin í húsakynnum Sálarrannsóknarfélagsins.
„Við fjölskyldan bjuggum á Þórshöfn en ákváðum að halda ferming-una í Reykjavík þar sem ættin bjó meira og minna öll á höfuðborgarsvæðinu og þetta var eini salurinn sem var laus,“ útskýrir hann og kveðst aldrei gleyma árumyndunum og kristölunum, sem héngu þar niður úr loftinu. „Þetta var algjört bíó!“
Að öðru leyti hafi dagurinn gengið vel fyrir sig og sveitastrákurinn fengið flottar fermingargjafir.
„Ég fékk m.a. pening, útilegubúnað og úr frá ömmu sem mér þykir mjög vænt um. Svo gáfu mamma og -pabbi mér fyrstu ferðina í körfuboltabúðir í Bandaríkjunum þaðan sem ég á afskaplega góðar minningar.“
Hvaða ráð viltu gefa krökkum sem eru að fara að fermast?
„Passið ykkur að kaupa ekki fermingarföt sem eru í tísku akkúrat núna. Þau gætu orðið til þess að ljósmyndirnar af ykkur verða hallærislegar seinna meir. Setjið svo peningagjafir inn á læsta bankabók. Ég veit að það hljómar leiðinlega en það margborgar sig því þegar þið verðið eldri þá gætuð þið til dæmis átt útborgun í fyrstu íbúðina.“
Skemmti með búktali
Steindór Grétar Jónsson, blaðamaður og sviðslistamaður, fermdist í Neskirkju árið 1999 og segir veisluna, sem var haldin í Garðabænum heima hjá ömmu hans og afa, eitt það minnistæðasta við daginn.
„Aðallega af því ég píndi Finn vin minn til að vera með atriði. Hann var ágætur búktalari og mér fannst ekki annað hægt en að gestirnir nytu góðs af. Þannig að ég neyddi hann til að sýna og nota mig sem brúðu,“ minnist hann hlæjandi og bætir við að Finnur hafi gefist upp á draumnum um að verða búk-talari eftir þetta.
Spurður hvað hann hafi fengið í fermingargjöf segir Steindór foreldrana hafa gefið sér fjölskylduferð til Flórída um sumarið og PlayStation-leikjatölvu.
„Annars voru krakkarnir að metast um hver hafi fengið mestan pening og -örugglega einhverjir sem lugu til að hljóma meira töff,“ segir hann kíminn. Ein gjöf hafi þó staðið upp úr en það hafi verið Jeremy Klein Birdhouse-hjólabretti með mynd af lifandi pylsu, sem hann fékk frá ömmu sinni og afa.
„Sú gjöf breytti lífi mínu því næstu ár var ég skeitari, sem hafði áhrif á heimsmynd mína.“
Var eitthvað við daginn sem kom á óvart?
„Nei, ekki nema hvað oblátan var bragðlaus. Vona að þær hafi breyst á 19 árum, það hlýtur að vera búið að piparhúða þær.“
Áttu einhver góð heilræði handa krökkum sem eru að fara að fermast núna?
„Nei, en ef þau eiga einhver heilræði handa mér þá væru þau vel þegin. Ég veit ekkert hvað ég er að gera.“
Eins og að giftast einn
Fjölmiðlakonan Júlía Margrét Alex-andersdóttir fermdist á köldu vori í Árbæjarkirkju og segist muna eftir athöfninni eins og hún hafi gerst í gær.
„Ég man eftir því að við fermingarsystkinin biðum spennt eftir því hvort einhver myndi gleyma versinu sínu. Svo skoðuðum við hvert annað í krók og kring, í hverju bekkjarsysturnar og -bræðurnir voru, hverjir höfðu fengið að klína á sig andlitsmálningu og gera eitthvað fríkað við hárið á sér. Hverjir höfðu fengið að sleppa því að vera í hvítum fötum og voru jafnvel útbúnir eins og þeir væru að fara á ball í Árseli – þá öfundaði maður,“ rifjar hún upp og hlær.
Sjálf klæddist hún hvítri dragt, jakka með léttum axlapúðum og hné–síðum stuttbuxum. „Stuttbuxur voru þá í tísku en á mínu heimili þótti það um of og hnésíðar var millivegurinn. Um morguninn fór ég svo í hátíðlega greiðslu á stofu. Þegar ég skoða myndir af mér eftir á og öðrum fermingarbörnum eru mörg okkar í þessum drögtum búin út eins og við séum að fara að sitja í stjórn fyrirtækja en ekki að fermast.“
Eftir athöfnina var veisla haldin í sal fyrir ofan Hreyfil á Grensásvegi þangað sem ættingjum og vinum Júlíu var boðið.
„Veislan sjálf þar sem athyglin fór af meira en 30 fermingarbörnum á mig eina var hálfgert sjokk. Eins og að giftast einn því í brúðkaupi er þó allavega brúðgumi sem tekur athyglina með þér. Þarna á maður að skera kökuna einn og tala eitthvað. Ég held ég hafi meira að segja spilað á fiðlu. Ég fílaði nú ekki að vera svona miðdepill og minnir að ég hafi verið fegin í lok dags.“
Júlía segir að þessum tíma hafi verið hneykslast talsvert á börnum sem fengu sjónvörp og vídeótæki í fermingargjöf. Í dag sé enn verið að hneykslast á því þegar börn fá ofurdýrar fermingar gjafir en hún telur að umræðan sé nokkurn veginn alltaf sú sama.
„Kannski var umstangið í kringum fermingarbörnin útlitslega minna þá,“ segir hún hugsi. „En ég er ekki svo viss. Að minnsta kosti fór enginn sem ég man eftir í nagla- og fótsnyrtingu fyrir fermingu en vissulega þegar maður rifjar þetta upp þá voru sumar stelpur sendar í ljós áður, fóru kannski í gegnum heilt 10 tíma kort á mánuði fyrir fermingardaginn.“
Spurð hvort hún eigi heilræði handa tilvonandi fermingarbörnum svarar hún.
„Þið eruð svo heppin að það er til Facebook svo mitt heilræði er: Kynnið ykkur hverjum er boðið í veisluna, lærið nöfn ömmusystra og -afa og lærið að tengja nöfnin við andlit þeirra af myndum ef þetta eru ættingjar sem þið hittið aðeins við svona tilefni. Það er gaman að geta þakkað fyrir sig og vitað við hvern maður talar.“