Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Safnar pening fyrir veiku tíkina Pöndu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég held að ég sé háðari hundinum en hún mér. Það er mjög sérstakt samband á milli okkar og hún á hjarta mitt þessi litla dúlla,“ segir Kolbrún Matthíasdóttir sem er búsett í Noregi. Dætur Kolbrúnar hófu nýlega söfnun á norsku hópfjármögnunarsíðunni Spleis fyrir Chihuahua-tíkinni hennar Kolbrúnar, Pöndu. Panda veiktist alvarlega skyndilega fyrr í þessum mánuði og hefur Kolbrún ekki efni á lækniskostnaði fyrir tíkina.

Panda með uppáhaldsbangsann sinn.

„Panda er sex ára. Hún er rosalega hress og spræk. Alveg meiriháttar hundur og með frábæran persónuleika. Ég og hún eigum mjög sniðuga sögu saman,“ segir Kolbrún, en hún lenti í alvarlegu vinnuslysi árið 2012. Þá var hún aðeins búin að eiga Pöndu í tvo mánuði.

„Ég var að vinna á sjúkrabíl hér í Noregi og var að keyra til að ná í sjúkling með sírenurnar rauðblikkandi. Allt í einu kemur bíll á móti en á þessum vegi var ómögulegt að mæta bíl. Ökumaður bílsins tók ekki tillit til þess að ég væri á sjúkrabíl með sírenurnar á og bara keyrði á móti mér. Ég þurfti að velja hvort ég ætti að keyra út af, keyra á bílinn eða á fjall. Ég ákvað að keyra út af og féll fjörutíu metra niður. Við það eyðilagði ég líkama minn og hef verið að berjast við eftirköst slyssins síðan. Panda var bara hvolpur og þurfti auðvitað athygli, en hún passaði uppá mömmu sína og dró mig á lappir á ný,“ segir Kolbrún.

Lét vita af blóðtappa í hjarta og lungum

Tveimur árum síðar, eða árið 2014, veiktist Panda. Þá var hún send í aðgerð á dýraspítala en ekkert fannst að henni nema sýking í þörmum og Panda braggaðist fljótt. Í október sama ár fékk Kolbrún blóðtappa í hjarta og lungu og telur víst að tíkin hafi bjargað lífi sínu.

„Hún lét mig vita að ekki væri allt með felldu. Hún gróf og gróf í brjóstkassann á mér og hoppaði viðstöðulaust. Þá stóð ég upp og náði varla andanum og taldi best að leita til læknis. Þá lenti ég á gjörgæslu á sjúkrahúsinu. Þegar ég kom heim, beið Panda eftir mömmu sinni og passaði uppá að ég færi út að ganga og tæki lyfin mín. Hún var alltaf að ýta á eftir mér að fara út og hreyfa mig og ég fékk fljótt miklar harðsperrur,“ segir Kolbrún og hlær. Aftur ári síðar lét Panda eiganda sinn vita að eitthvað amaði að.

„Ég ákvað að hunsa hennar viðvaranir því ég var orðin svo þreytt á læknum og sjúkrahúsum. En Panda hélt áfram og lét mig ekki í friði. Loks sögðu dætur mínar mér að fara til læknis út af því hvernig Panda lét og þá var ég komin með blóðtappa í lifrina sem lokaði alveg á blóðflæði til lifrinnar. Ég var í sex vikur í burtu á sjúkrahúsi og hélt að ég myndi deyja, svo háð var ég hundinum,“ segir Kolbrún.

Panda með systur sinni, Schaefer-hundinum Cleopötru.

„Hún er líflínan mín“

Fárveik Panda.

Svo var það núna í mars að Panda veiktist alvarlega, án nokkurrar viðvörunar.

- Auglýsing -

„Laugardaginn 3. mars hætti hún að drekka en hún hafði þá borðað síðast 1. mars og náði síðast að kúka aðfaranótt föstudagsins. Eftir það fór hún rosalega hratt niður á við. Ég hringdi á lækni á sunnudeginum sem ákvað að koma hingað heim til okkar og kíkja á hana. Dýralæknirinn vildi nefnilega ekki stressa Pöndu upp með spítalaheimsókn því hann veit hvaða þýðingu hún hefur fyrir mig. Hún er líflínan mín,“ segir Kolbrún. Þegar lækninn bar að garði var Panda þjáð af vökvaskorti og þurfti að svæfa hana til að gefa henni laxerolíu í endaþarm, vökva í æð og verkjalyf. Læknirinn hélt að tíkin væri bara stífluð, en um kvöldið vaknaði Panda með sára verki.

„Það mátti ekki koma við hana. Hún grenjaði og grenjaði. Svo datt hún út og inn og á tímabili vissi ég ekki einu sinni hvort hún væri á lífi. Í sjö klukkutíma gekk ég um gólf með hana eins og lítið barn og reyndi allt sem ég gat til að láta henni líða betur, en hún náði ekki að reka við. Ég sá að maginn hennar var að blása upp þannig að ég fór með hana út og ætlaði að leyfa henni að labba aðeins, en það þýddi ekki neitt. Hún vildi ekkert labba vegna verkja,“ segir Kolbrún.

Grét og hélt að hún væri farin

Næsta dag var Panda lögð inn á dýraspítala, hún svæfð á nýjan leik og röntengmyndir teknar af henni. Þá sáu dýralæknar að ristillinn hennar var fullur af lofti. Í sónarmyndum kom fram að engin virkni var í smáþörmunum hennar og höfðu læknar áhyggjur af því. Hún var sett á sýklalyf og fleiri lyf og send aftur heim sofandi með vökva í æð.

- Auglýsing -

„Hún vaknaði mjög rólega og fínt um nóttina og byrjaði á að reka aðeins við. Hún reyndi að skrölta aðeins af stað og var að ranka við sér fram á þriðjudagsmorgun. Á miðvikudag byrjaði hún aðeins að taka við mat og verða Panda aftur. En á fimmtudeginum fór hún aftur niður á við. Ég sat bara og grét og hélt að hún væri að fara. Ég vissi ekki hvað ég gat gert fyrir hana meira.“

Á föstudeginum var Panda orðin mjög slæm og þurfti Kolbrún að sprauta uppí hana vatni á klukkutímafresti. Hún eyddi laugardeginum á dýraspítala þar sem hún var svæfð í þriðja sinn, skoðuð í bak og fyrir, sýni send í ræktun og tíkin sett á morfín. Það kvöld var Kolbrún send heim með alls kyns lyf og sagt að vakta tíkina í tvo sólarhringa, sem hún gerði með hjálp dóttur sinnar og tengdasonar.

Panda hefur átt við erfið veikindi að stríða.

„Hún vaknaði um klukkan 2.30 um nóttina og hætti ekki að væla fyrr en hún náði að skakklappast í fangið á mér. Við reyndum að gera allt til að hjálpa henni að losa þetta loft og heyrðum prump reglulega. Þá gaus upp þessi viðbjóðslega lykt úr henni en okkur fannst þetta frábært því það þýddi að þarmarnir voru að fara aftur í gang. Við vonuðum bara að hún myndi kúka, hvar sem er, þess vegna á okkur,“ segir Kolbrún og hlær.

Skrýtinn kúkur eins og þungt hlaup

Á sunnudeginum var Panda hitalaus og daginn eftir náði hún loksins að kúka.

„Þá kemur þessi skrýtnasti kúkur sem ég hef á ævi minni séð. Hann var eins og þungt hlaup. Ég þurfti að taka sýni úr saurnum, sem tókst fyrir rest. Liturinn var óhugnalegur, svona gulgrænn. En mikið svakalega vorum við glöð að sjá þennan stóra hlunk koma út úr henni.“

Síðan þá hefur Panda braggast heilmikið, er búin að hafa hægðir aftur og búin að fara í göngutúra með eiganda sínum. Hins vegar eru læknareikningarnir komnir upp í tíu þúsund norskar krónur, eða tæplega 130 þúsund íslenskar krónur. Það er of stór biti fyrir Kolbrúnu, þar sem veikindin komu eins og þruma úr heiðskýru lofti og hún hafði alls ekki reiknað með þeim. Kolbrún er á örorkubótum eftir fyrrnefnt vinnuslys og má lítið út af bera í heimilisbókhaldinu. Því ákváðu dætur hennar að hefja hópfjármögnun á norsku síðunni Spleis til að eiga fyrir læknakostnaði fyrir Pöndu. Panda er ekki tryggð.

„Ég er svo þakklát öllum þeim sem vilja og geta hjálpað okkur. Við getum öll lent í því að dýrin okkar veikist og að við stöndum ráðalaus frammi fyrir því. Mínir yndislegu dýralæknar senda mér alltaf reikninga eftir á því þeir þekkja okkur mjög vel. Þeir þekkja Pöndu og vita að hún má ekki fara, því þá fer ég líka. Ég vil geta borgað þessa reikninga því læknarnir á spítalanum okkar, Eid Veterinærkontor, björguðu lífi hennar. Í vikunni ætla ég með Pöndu til þeirra með blóm því þessir yndislegu dýralæknar eru ástæðan fyrir því að Panda er á lífi í dag,“ segir Kolbrún, sem að vonum er uppgefin eftir mikið álag síðustu daga.

Hér má sjá myndband af Pöndu þegar hún var sem verst:

Vill ekki sjá að hundurinn þjáist

Panda er alla jafna mjög lífsglöð tík.

„Nú krossa ég bara fingur og vona að hún sé á góðri leið með að verða frísk aftur. Það veit enginn af hverju hún varð svona veik. En ég er rosalega þreytt og hef fengið lítinn svefn. En hún tók á sig að vera hjúkrunarfræðingurinn minn í þessi ár og því á Panda þetta inni hjá mér. Hún er með mikinn baráttuvilja og berst hetjulega í gegnum þetta allt saman,“ segir Kolbrún og bætir við:

„Panda er mín hjálparhella á erfiðum dögum. Hún fær mig til að brosa og heldur mér félagsskap þegar ég er sem verst. Ég er öryrki og með mikla verki í allri hægri hliðinni, króníska verki sem ekkert er hægt að gera við. Þess vegna er svo mikil hjálp fyrir mig að hafa hana. Hún les mig eins og opna bók og veit hvernig ég hef það hverju sinni. Ef hún hins vegar verður aftur mjög slæm og þjáist mikið þá fær hún að fara, þó það verði ofboðslega erfitt fyrir mig. Ég er nú eftir allt saman manneskja og vill ekki sjá að hundurinn sem ég elska þjáist.“

Hægt er að styrkja söfnunina með því að smella hér.

Myndir / Úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -