Blessað barnalánið hefur ekki látið á sér standa það sem af er ári, en margir þekktir Íslendingar hafa verið duglegir að fjölga mannkyninu á fyrrihluta árs 2018.
Samfélagsmiðlastjarnan Aron Már Ólafsson, eða Aron Mola eins og hann er oftast kallaður, ákvað að stela þrumu ritstjórans Davíðs Oddssonar með því að eignast barn á afmælisdegi hans, þann 17. janúar. Það kom ekki á óvart að Aron tilkynnti um fæðingu barnsins á samfélagsmiðlum, en hann deildi fallegri mynd af sér, kærustu sinni Hildi Skúladóttur, og litla syninum.
Þá eignuðust hjónin Bergur Ebbi og Rán Ingvarsdóttir son í byrjun febrúar. Bergur Ebbi greindi frá fæðingu barnsins á Facebook-síðu sinni en eitthvað hefur sonurinn verið að flýta sér í heiminn því aðeins liðu fjörutíu mínútur frá því að hjónin mættu uppá fæðingardeild og þar til sonurinn mætti í öllu sínu veldi.
Spéfuglinn Saga Garðarsdóttir og tónlistarmaðurinn Snorri Helgason eignuðust stúlku á síðasta degi febrúarmánaðar, en Snorri tilkynnti það á mjög einlægan hátt á Facebook.
„Fallegasta mannvera sem nokkru sinni hefur verið til. Við erum mjög hamingjusöm lítil fjölskylda.“
Nóg af börnum á leiðinni
Svo eru það öll börnin sem eiga eftir að koma í þennan heim á árinu, en mikið af sónarmyndum hefur fengið að fljóta um samfélagsmiðla að undanförnu.
Unnsteinn Manuel Stefánsson, sem nýverið hlaut Edduverðlaun sem sjónvarpsmaður ársins, á von á dreng með kærustu sinni, Ágústu Sveinsdóttur, í ágúst. Þá eiga Arnar Gunnlaugsson og María Builien Jónsdóttir einnig von á barni á árinu, sem og listamaðurinn Ragnar Kjartansson og myndlistarkonan Ingibjörg Sigurjónsdóttir. Rithöfundurinn og leikarinn Ævar Þór Benediktsson og unnusta hans, Védís Kjartansdóttir, geta einnig glaðst, en þau eiga von á erfingja í ágúst.
Ein af krúttlegustu óléttutilkynningum það sem af er árinu er án efa mynd sem fitness-drottningin Kristbjörg Jónasdóttir og fótboltamaðurinn Aron Einar Gunnarsson settu inn á Instagram. Þar sést sonur þeirra Óliver í bol sem á stendur: „Ég er að verða stóribróðir.“
Svo má ekki gleyma Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur og Víði Guðmundssyni sem eiga von á tvíburum á árinu og ákváðu að búa til heilt lag til að opinbera það, ekki bara á íslensku heldur á ensku líka. Þetta kallar maður metnað!