Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Raunkostnaður hærri en verðskrá SÍ kveður á um

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þingsályktunartillaga um að endurskoða ætti greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferðar var samþykkt árið 2016 og átti endurskoðun að ljúka fyrir árslok þess árs. Henni er ekki enn lokið.

Í þessari tillögu var meðal annars lagt til að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái til fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðar hjá fólki óháð því hvort það eigi barn fyrir, en í dag nær þessi þátttaka aðeins frá annarri til fjórðu meðferðar hjá pörum og einstaklingum sem eiga ekki barn fyrir. Hins vegar er tekið þátt í fyrstu meðferð para og einhleypra kvenna ef um er að ræða yfirvofandi ófrjósemisvandamál konunnar vegna fyrirsjáanlegrar lyfjameðferðar, geislameðferðar eða beinmergsflutnings. Þá endurgreiða Sjúkratryggingar Íslands 65% útlagðs kostnaðar vegna ástungu á eista og frystingu sáðfruma þegar um er að ræða karlmenn með yfirvofandi ófrjósemisvandamál vegna fyrirsjáanlegrar lyfjameðferðar, geislameðferðar eða beinmergsflutnings. Í þeim tilfellum er Sjúkratryggingum Íslands heimilt að greiða 90% útlagðs kostnaðar vegna geymslugjalds á frystum fósturvísum/sáðfrumum, þó að hámarki í tíu ár.

Þá fer greiðsluþátttaka eftir verðskrá Sjúkratrygginga Íslands, en sú verðskrá hefur ekki verið uppfærð síðan árið 2011 og er ekki í samræmi við verðskrá þeirra stofnana sem framkvæma frjósemismeðferðir. Eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni er því raunkostnaður við frjósemismeðferðir umtalsvert hærri en verðskrá Sjúkratryggina Íslands kveður á um. Að mati flutningsmanna tillögunnar er Ísland nokkur eftirbátur nágrannalanda okkar og þeirra landa sem við viljum almennt bera okkur saman við á þessu sviði. Tekin eru dæmi um að í Danmörku og Svíþjóð nái greiðsluþátttaka ríkisins yfirleitt til fyrstu og þriðju meðferðar.

Samkvæmt þingsályktunartillögunni standa þjóðirnar sem við viljum bera okkur saman við okkur fremur í greiðsluþátttöku vegna frjósemismeðferða.

Ekki unnt að uppfæra gjaldskrá vegna fjárskorts

Mannlíf sendi fyrirspurn til heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, um þetta greiðsluþátttökukerfi og hvar endurskoðun þess stæði. Eftirfarandi svör bárust frá ráðuneytinu:

Í reglugerð um greiðsluþátttöku vegna tæknifrjóvgana stendur að endurgreiðsla miðist við gjaldskrá SÍ. Sú verðskrá hefur ekki verið uppfærð síðan 2011 og tekur því ekki mið af verðlagsbreytingum. Af hverju hefur sú verðskrá ekki verið uppfærð?

Svar: Verðskráin hefur tekið mið af þeim fjármunum sem hafa verið til ráðstöfunar og framlög hafa ekki verið aukin þannig að unnt væri að uppfæra gjaldskrána.

- Auglýsing -

Verðskrá SÍ og verðskrá stofnana sem sjá um frjósemismeðferðir eru tvær ólíkar verðskrár. Stendur til að samræma þessar verðskrá að einhverju eða öllu leyti?

Svar: Ekki eru áform um að samræma gjaldskrá SÍ og einkarekinna fyrirtækja sem sinna þessari þjónustu, þar sem ekki hafa tekist samningar milli SÍ og viðkomandi aðila. Sem fyrr segir hefur þetta einnig með fjárframlög að gera.

Enginn samningur er á milli íslenska ríkisins og stofnana sem sjá um frjósemismeðferðir. Stendur til að koma á slíkum samningi? Ef já, hvar er það statt í ferlinu? Ef nei, af hverju ekki?

Svar. Já, það er stefnt að því að semja um þessa þjónustu.

- Auglýsing -

Varðandi orðalag í reglugerð um greiðsluþátttöku vegna tæknifrjógvunar þá er talað um að endurgreiða einhleypum konum með yfirvofandi ófrjósemisvandamál vegna meðferðar. Hins vegar stendur að karlmenn með yfirvofandi ófrjósemisvandamál fái endurgreitt fyrir ástungu á eista eða frystingu á sæðisfrumum. Má þá skilja það þannig að ekki sé tekið þátt í frjósemismeðferðum einhleypra karla að öðru leyti?

Svar: Það er rétt skilið.

Í gjaldskrá SÍ er ekki talað um frystingu á fósturvísum og eggjum, heldur eingöngu sáðfrumum. Er ekki tekið þátt í kostnaði vegna frystingar á fósturvísum og eggjum, eða er það talið hluti af frjósemismeðferð?

Svar: Rétt er að benda á að frá árinu 2012 hefur verið 90% greiðsluþátttaka ríkisins vegna geymslugjalds á frystum fósturvísum (sbr. rg. um 2. breytingu á rg. nr. 917/2011). Greiðsluþátttaka í frystingu á eggfrumum hefur ekki verið í gjaldskránni til þessa vegna þess að meðferðin hefur verið óframkvæmanleg hér á landi. Nú hefur orðið breyting á því og þar með er áformað við endurskoðun þessara mála að ríkið taki þátt í kostnaði vegna frystingar á eggfrumum.

Nú hefur verið samþykkt þingsályktunartillaga þess efnis að endurskoða reglur greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferðar. Hvar er sú vinna stödd? Í þingsályktun stendur að þáverandi heilbrigðisráðherra ætti að endurskoða reglur fyrir árslok 2016. Af hverju hefur þessi vinna tafist?

Svar: Endurskoðun á reglunum stendur yfir í samvinnu við Sjúkratryggingar Íslands.

Stendur til að hækka fjárframlag til þessarar endurgreiðslu?

Svar: Stefnt er að því að setja nýja reglugerð um þessa þjónustu innan fárra vikna. Með henni verður breytt fyrirkomulagi varðandi greiðsluþátttökuna. Aftur á móti liggur fyrir fjármagn til þessarar þjónustu í fjárlögum og því ekki svigrúm til þess að auka útgjöldin á þessu ári.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -