„Þessi skyndibitaförðun var skyndiákvörðunarflipp,“ segir förðunarfræðingurinn Ágústa Sif Aðalsteinsdóttir. Nýjasta verk hennar á Instagram hefur vakið athygli, en á myndinni sést Ágústa með mjög sérstaka förðun. Hún nefnilega málaði annað augað sitt eins og hamborgara og hitt eins og pítsu.
Mikil nákvæmnisvinna
„Ég ætlaði ekki einu sinni að gera þetta. Ég er nýbyrjuð í svona heilsuátaki sem gengur svona hrikalega vel, en pítsur hafa alltaf verið uppáhaldsmaturinn minn. Á tímabili vakti mamma mín mig með orðunum: „ÁGÚSTA! PÍTSA!“. Það hefur verið ótrúlega erfitt að sleppa pítsunum og ég var að verða biluð á lönguninni í eina þegar ég hugsaði um að gera förðun úr þessu,“ segir Ágústa sem leitaði til fylgjenda sinna á Snapchat til að fá álit hvort hún ætti að láta slag standa.
„Mér fannst þetta samt svo heimskuleg hugmynd að ég fór á Snapchat og spurði hvort ég ætti að gera fyndna förðun og jú, fólk vildi sjá hvað ég var að hugsa. Ég ætlaði fyrst bara að gera pítsuna og búið, en þá langaði mig að gera eitthvað annað þegar pítsan kom svona vel út. Ég var að hugsa um að gera pylsu en vinkona mín sagði að hún vildi sjá hamborgara, þannig að ég varð að ósk hennar,“ segir Ágústa. Hún segir að förðunin hafi tekið dágóðan tíma.
„Þetta var í rauninni ekkert erfitt, en mikil nákvæmnisvinna með litlum burstum og frekar tímafrekt. Það tók mig tvær tilraunir að gera hamborgarann því að það var erfitt að staðsetja allt á þann hátt að þetta liti út eins og hamborgari og að það væri hægt að sjá á milli brauðanna. Það var erfitt að velja álegg á pítsuna,“ segir Ágústa.
En ætli þetta uppátæki hennar muni starta nýrri tísku?
„Hvort að þetta verði nýtt trend veit ég nú ekki en það væri gaman að sjá aðra gera eins og prófa. Ég held að við séum ekki að fara að sjá þetta lúkk á gangi um götur borgarinnar,“ segir Ágústa og hlær.
Endaði eins og pandabjörn um augun
Ágústa er 26 ára gömul og býr í Reykjavík með syni sínum, Jökli Owen. Hún útskrifaðist sem förðunarfræðingur árið 2016 en hefur haft áhuga á förðun nánast síðan hún man eftir sér.
„Ég byrjaði að hafa áhuga á förðun mjög ung, fyrsta minningin mín af mér að prófa að mála mig er þegar að ég var um sjö ára og systir mín, sem er förðunarfræðingur, átti svo mikið og flott dót. Ég mátti að sjálfsögðu ekki fikta í því en ég stóðst ekki mátið og klíndi einhverjum maskara og augnskugga á mig. Svo kom hún heim, ég fríkaði út, reyndi að taka þetta af mér með þurrum pappír og endaði eins og pandabjörn um augun. Systir mín sá mig hlaupa inná bað að þrífa af sönnunargögnin en þetta gerðist aðeins of oft,“ segir Ágústa, sem í framhaldinu lagði förðunaráhugann aðeins á hilluna.
„Förðunarlistin mín tók pásu til unglingsaldurs, eftir að hafa verið töluð til út af pöndulúkkinu mínu. Þá fór ég fyrst að gera eitthvað flott og lesa mér til um snyrtingu og förðun. Ég fór að plokka og lita vinkonur mínar, greiða þeim og farða þær nánast daglega til þess að æfa mig og prófa nýja hluti. Það var samt ekki fyrr en árið 2016 að ég skráði mig í gríni í alla förðunarskóla Íslands. Ég hafði hvorki efni á því né fannst mér ég hafa einhverja hæfileika til að taka þetta skref. Ég hélt aldrei að það væri eitthvað að fara að gerast úr þessu. Það vildi svo heppilega til að það losnaði pláss fyrir mig í MOOD Makeup School og ég vældi í systur minni um að mig langaði að gera þetta en að þetta væri ekki rétti tíminn. Hún bauðst þá til að lána mér fyrir skólanum, svo að ég þurfti ekki að hugsa mikið um fjárhaginn. Ég notaði alla mína krafta til að telja mér trú um að ég gæti alveg lært þetta. Ég útskrifaðist svo úr MOOD Makeup School í nóvember 2016. Þetta var eitt skemmtilegasta tímabil lífs míns og ég lærði ótrúlega mikið af kennurunum og eignaðist frábærar vinkonur,“ segir Ágústa.
Vann við stuttmynd í Hamborg
Hún hefur verið svo heppin að fá að starfa talsvert við förðun eftir útskrift.
„Ég er mikið í stuttmyndumog sjónvarpsförðun. Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að vinna á setti með kvikmyndagerðarfólki, og er núna að klára verkefni sem ég lofaði mér í fyrir löngu í Kvikmyndaskóla Íslands. Ég var fengin til að vinna í stuttmynd í Hamborg, það var svakalegasta ævintýrið sem ég hef upplifað hingað til. Ég er líka að farða heima hjá mér fyrir ýmis tilefni. Síðasta verkefni sem ég var í var með Reykjavíkurdætrum, við fórum í myndatöku fyrir mars útgáfuna af 1883 Magazine. Það var mjög skemmtilegt verkefni og kom rosalega vel út.“
Þreytt á brúnum skyggingum
Hún segist eiga margar fyrirmyndir í þessum geira, þá frekar íslenskar en erlendar.
„Það er svo margt sem gefur mér innblástur, hvort sem það sé list annarra, náttúran, hlutir eða matur. Ég lít frekar upp til íslenskra förðunarfræðinga heldur en erlendra. Ragna Fossberg, Harpa Kára, Sigrún Sig, Eygló Ólöf og vinkona mín, hún Sandra María, eru allt konur í förðunarheiminum á Íslandi sem eru að gera frábæra hluti. En ég horfi líka upp til nokkurra erlendra förðunarfræðinga eins og Sergey, sem heitir @milk1422 á instagram, Kandee Johnson, Charlotte Tilbury og Wayne Goss,“ segir Ágústa. Hún segir íslenskar konur vera bæði vanafastar og óhræddar þegar kemur að förðun.
„Margar íslenskar konur eru ofboðslega duglegar og óhræddar við að kynna sér og prófa nýja hluti en aðrar eru rosalega vanafastar. Bæði er að sjálfsögðu allt í lagi en ég er persónulega orðin þreytt á brúnum skyggingum og að flestir noti sömu taktíkina.“
Fögnum bleika litnum!
En hver eru algengustu mistökin sem konur gera þegar þær farða sig?
„Úff, ég er stanslaust að nefna þetta við fólk. Það helsta sem fer í taugarnar á mér er hreinlætið; þegar verið er að nota skítuga bursta eða deila burstum og kremvörum. Mér finnst líka agalegt þegar manneskja með bleikan undirtón notar farða með gulum undirtón. Það lítur alltaf skringilega út. Því miður er þessi litur í tísku og erfitt að finna farða með fallegum bleikum undirtón akkúrat núna. Ef þú ert með bleikan undirtón í húðinni, ekki fela hann með gulum. Reyndu frekar að finna farða með bleikum undirtón. Ég veit að það er erfitt í dag en það verður þess virði. Farðinn mun líta mikið betur út og andlit, bringa og axlir verða í samskonar lit. Fagnaðu bleika litnum!“ segir Ágústa.
Dreymir um starf hjá Kardashian-fjölskyldunni
Hver er draumurinn hjá þessari ungu og hæfileikaríku konu?
„Draumurinn er að mennta mig meira á þessu sviði og læra eins mikið og ég get og að einn daginn geta miðlað minni reynslu og þekkingu til annarra. Að halda námskeið og jafnvel gefa út bók væri algjör draumur. Það væri líka gaman að vinna í stórum kvikmyndum eða að vera í Glam teymi hjá tímariti eða hjá Kardashian-fjölskyldunni. Ég held það sé allt fullt þar samt, en ég held í vonina.“
Þeir sem vilja sjá fleiri verk eftir Ágústu geta fylgt henni á Instagram.