Fimmtudagur 12. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

„Forgangsraða öðruvísi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Feður yfir fimmtugu.

Runólfur ásamt tveimur yngstu dætrum sínum, þeim Sigrúnu Erlu Runólfsdóttur og Lönu Sóeyju Magnúsdóttur.

Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri, er 54 ára og á sex börn og stjúpbörn á aldrinum þriggja ára til þrítugs. Hann er kvæntur Áslaugu Guðrúnardóttur, markaðs- og kynningarstjóra Listasafns Reykjavíkur. Runólfur er í Félagi eldri feðra og er viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs ásamt þremur öðrum félögum.

„Ég var 24 ára þegar  frumburðinn minn hann Skarphéðinn fæddist. Það var um hábjarta sumarnótt á sjúkrahúsinu á Akranesi. Eftir fæðinguna keyrði ég heim upp í Borgarfjörð og tók upp í einmana erlendan puttaling þarna um 2 leytið um nóttina. Sá maður man væntanlega enn eftir þessum hálftíma upp í Borgarnes enda fékk hann ítarlega lýsingu á bæði fæðingu, dásemd barnsins og tilfinningum hins nýbakaða föður,“ segir Runólfur þegar hann er spurður um fæðingu frumburðarins.

„Á þessum tíma tíðkaðist ekki að feður tækju fæðingarorlof og er það líklega stærsta breytingin á því að verða pabbi í dag og þá. Þegar Sigrún Erla, sem við köllum reyndar oftast Lukku, fæddist fyrir þremur árum tók ég að sjálfsögðu fæðingarorlof og ég verð líka að játa það að ég er líklegast mun betri faðir í dag en þá. Það gerir þroskinn. Sem eldri faðir forgangsraða ég öðruvísi og ver mun meiri tíma með yngri börnunum mínu en ég gerði fyrir 20-30 árum með þeim eldri, þegar ég var enn þá með þann metnað að sigra heiminn og taldi störf mín að þeim málum mikilvægari en að vera til staðar fyrir börnin mín og fjölskyldu.“

Hann segir að önnur jákvæð breyting sé gæðin á leikskólunum. „Þar held ég, og miða við reynslu mína af Lukku, og Lönu eldri systur hennar sem er 9 ára í dag, á Laufásborg, að leikskólinn sé líklega framsæknasta og besta skólastigið á Íslandi. Gæði starfs og náms þar eru allt önnur og betri en þegar synir mínir voru í leikskóla fyrir 15-25 árum. Gaman væri að geta sagt hið sama um grunn- og framhaldsskólann, en ég held að því miður hafi þar orðið þróun í öfuga átt námslega séð, þótt vonandi líði börnum betur í sínum skólum í dag en í þeim eineltispytti sem þá var að finna víða í grunnskólum landsins.“

„Pabbi, góðan daginn!“
Runólfur telur sig einstaklega lánsaman einstakling að verða þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast barn, kominn yfir fimmtugt. „Þetta er bónus sem fáir njóta. Auðvitað hefur þetta breytt öllu í okkar lífi sem var bara orðið frekar þægilegt. En hver vill ekki vakna fyrir sjö á morgnana og takast á við einstaklega ákveðna og þrjóska þriggja ára dóttur sína um hvað hún vill borða, í hvaða nærbuxur hún vill fara, Möggu Pálu sé lof fyrir skólabúninginn, og hvað hún ætlar og vill almennt séð í lífinu – þessa einu og hálfu klukkustund sem hún hefur til að ráðskast með aldraðan föður sinn og aðeins yngri móður þar til Hjallastefnan tekur við þessari kæru vinkonu úr höndum foreldra hennar.

Ég vildi ekki skipta á þessu fyrir neitt annað, enda kominn á þann aldur að frami og ferðalög skipta minna máli þar sem enginn staður er til hvar maður hittir ekki fyrir sig sjálfan. Það gerist þessa dagana kannski ekki á stangveiðum á Kyrrahafseyju, við sólarlag hjá Uluru eða í safari í Ngorogoro, heldur bara á Haðarstígnum klukkan 6:40 á mánudagsmorgni þegar lítil og björt stúlkuröddin segir stundarhátt innan úr herberginu sínu: „Pabbi, góðan daginn!“ Þannig líður lífið áfram dag fyrir dag. Þannig er núið hjá hinum aldraða föður. Og það er bara býsna gott.“

- Auglýsing -

Gott mannval
Eins og fram kom í inngangi er Runólfur félagi í hinum óformlegan félagsskap, Félag eldri feðra, sem gerir þá kröfu til félagsmanna að þeir hafi verið orðnir fimmtugir þegar þeir eignuðust sitt síðasta barn. „Við tökum okkur hóflega alvarlega, en erum með hóp á Netinu. Þetta er skemmtilegur félagsskapur enda þarna að finna mikið og gott mannval. Almennt erum við á því að það fari metnaðargjörnum ungkörlum mun betur að vera og verða feður þegar þeir hafa gert sér grein fyrir því með aukum þroska og aldri að börnin okkar, líf okkar, fjölskylda og við sjálfir, skiptir mun meira máli en utanaðkomandi viðurkenning, efnisleg gæði eða svokallaðar tómstundir. Slíkar stundir eru í lífi virkra eldri feðra hvorki margar né tómar. Okkur leiðist ekki og lífið er gott.“

Viðtölin við Hallgrím Helgason, Björn Karlsson og Jakob Frímann Magnússon.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -