Miðvikudagur 11. desember, 2024
6.8 C
Reykjavik

„Algjört ævintýri“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigurður Steinar er á hraðri uppleið í tískuheiminum eftir frábæran árangur í Elite Model Look-fyrirsætukeppninni í Mílanó. Mannlíf tók þennan hressa og efnilega 17 ára Reykvíking tali.

Árlega halda yfir 30 lönd undankeppni fyrir Elite Model Look sem þúsundir keppenda taka þátt í. Af þeim 64 þátttakendum sem komust áfram í ár stóðu uppi 15 sigurvegarar, 10 stúlkur og 5 strákar. Sigurður Steinar var einn fimm sigurvegara í hópi drengja en ekki er raðað sérstaklega í sæti fyrir utan það efsta. Sigurvegararnir fá allir samning við Elite International sem tryggir þeim verkefni í kjölfarið.

Hvernig tilfinning var að ná svona langt í keppninni? „Vá, þegar ég stóð á sviðinu og það var bara eitt sæti eftir og svo heyrist í hljóðkerfinu: „From Iceland, Siggi!“ Það var eitt af skrítnustu augnablikum sem ég hef upplifað! Við höfðum öll fengið fyrirmæli um að halda „kúlinu“ ef við kæmumst áfram, þannig að ég gekk bara fram og tók hring með hinum efstu 15 módelunum en rosalega langaði mig til að fagna!“

Áttirðu von á þessu? „Alls ekki. Það voru svo rosalega margir og flottir krakkar í þessari keppni.“

Var keppnin erfið? „Já, vikuna fyrir keppni þurftum við að vakna klukkan 7 á hverjum morgni, skella í okkur morgunmat og flýta okkur út í rútu sem ók með okkur í risastórt stúdíó þar sem við tóku strangar æfingar. Til dæmis fengum við strákarnir flestir blöðrur á fæturna bara af því að æfa göngulagið í allt of þröngum skóm. Stelpurnar þurftu að ganga í hælaskóm sem var örugglega enn verra. Svo var æft alveg til klukkan 9 öll kvöld. Þannig að þetta var ein af erfiðari en skemmtilegri vikum lífs míns!“

Hvernig kom til að þú tókst þátt? „Þetta byjaði allt hjá Eskimo Models á Íslandi. Fyrir þeirra tilstilli komst ég á samning hjá Elite í París og þar var ákveðið að senda mig beint í stóru lokakeppnina í Mílanó.“

Hafa einhverjar dyr opnast í kjölfarið? „Já, ég er strax kominn á samning hjá Elite Paris og Elite Milano og var að undirrita samning við Elite London. Í janúar tók ég svo þátt í Men’s Fashion Week Winter í París þar sem ég vann fyrir Loewe og ég er líka búinn að fara í prufur hjá Louis Vuitton, Versace, Chanel, Vouge, GQ magazine, Armani, Diesel, Lacoste og fleirum.“

Mynd / Nicholas Efimtcev

Ferðastu þá ekki svolítið í tengslum við starfið? „Jú, ég hef búið í Mílanó og París sem er alveg mögnuð borg. Svo er ég að fara til London til að taka þátt í Men’s fashion.“

- Auglýsing -

Ertu í skóla samhliða módelstörfunum? „Ég kláraði eitt ár í tækniteiknun í Tækniskólanum sem var mjög skemmtilegt en þegar þetta tækifæri bauðst skyndilega ákvað ég, í samráði við foreldra mína og Eskimo, að bíða með námið. Það er nefnilega mjög erfitt að sinna hvorutveggja á sama tíma.“

Hvað finnst skólafélögunum og vinunum um þetta? „Allir í kringum mig eru bara rosalega stoltir af mér og hafa verið duglegir að hvetja mig áfram.“

Stefnirðu að frama í þessu eða langar þig til að vinna við eitthvað annað þegar þú verður eldri? „Ég ætla að einbeita mér að þessu, alla vega eins og er en ég stefni að því að fara í nám í arkitektúr seinna.“

- Auglýsing -
Elite Model Look-keppnin hefur verið haldin árlega frá 1983 og er stór stökkpallur fyrir fyrirsætur en meðal þeirra sem hafa byrjað feril sinn þar eru ofurfyrirsæturnar Cindy Crawford og Gisele Bundchen. Mynd / Cynthia Frebourg

En þessi bransi, er hann í líkingu við það sem þú ímyndaðir þér? „Nei, þegar ég byrjaði vissi ég ekki alveg hvað ég var að fara út í. Þetta er mjög gaman en líka algjört puð.  Það tekur á að fara í 16 prufur á einum degi og ekki grunaði mig að ég myndi lenda í topp fimm í stærstu módelkeppni í heimi! Þessi bransi er svolítið þannig; það er erfitt að sjá fyrir hvað gerist næst. Nú er ég til dæmis að fara til London og svo kannski til París. Annað veit ég ekki í bili. Eina sem ég veit er að það er búið að vera algjört ævintýri að fá að ferðast og búa í svona flottum stórborgum bara 17 ára og þurfa að sjá um sig sjálfur.“

Áttu heilræði handa þeim sem vilja feta sig út á þessa braut? „Hafðu trú á þér. Vertu ófeiminn og alls ekki reyna að vera eins og allir hinir. Vertu bara þú sjálfur og komdu alltaf heiðarlega fram.“

Hægt er að fylgjast með Sigurði Steinari á Instragram undir notendanafninu sigurdur_st

Texti / Roald Eyvindsson
[email protected]
Aðalmynd / Stephane Gizard

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -