Það er mikið áfall fyrir fólk að komast að því að það hafi verið rangfeðrað.
Því síður er auðvelt fyrir sömu einstaklinga að þurfa að höfða dómsmál til að fá réttan uppruna sinn staðfestan. Ráðast þarf í úrbætur á barnalöggjöfinni þegar mál þessa fólks eru til meðferðar og auka þarf rétt feðra til þess að höfða faðernismál sem er lítill sem enginn núna að mati lögfræðings. Mannlíf ræddi við karl og konu sem bæði voru rangfeðruð og segja þá reynslu mjög erfiða.
„Ég fékk staðfestingu á því að ég væri sonur annars manns 2013 kominn langt á sjötugsaldur. Mig hafði grunað þetta frá því ég var 17 ára þegar móðir mín gaf í skyn að ég væri ekki sonur föður míns en nefndi aldrei nafn míns rétta föður. Ég komst bara að því nýlega,“ segir maður í samtali við Mannlíf sem treystir sér ekki til að koma fram undir nafni vegna þessa máls.
„Þetta þykir öllum í fjölskyldunni minn afskaplega viðkvæmt og hefur legið þungt á mér alla tíð. Ég vil meina að þetta hafi mótað mig sem einstakling, allur þessi efi og þrá mín eftir réttum föður í marga áratugi. Þegar ég fékk loks staðfestingu á því með lífsýnaprófi að ég væri sonur annars manns var þungu fargi af mér létt. Ég eignaðist við það fimm systkini sem hafa tekið mér vel sem er dýrmætt. Þetta er ólýsanleg tilfinning að þekkja ekki uppruna sinn og ég held það sé ómögulegt að skýra það út fyrir nokkrum sem ekki hefur upplifað það,“ segir hann.
Veigrar sér við dómsmáli
Það sem hann hins vegar þráir núna, kominn á áttræðisaldur, er að hann sé rétt feðraður í þjóðskrá. Hann reyndi að fá faðerninu breytt í þjóðskrá en stofnunin hefur hafnað beiðni hans þar sem ekki liggur fyrir dómsúrskurður um rétt faðerni. Það er hins vegar ansi flókið ferli. Fyrst þyrfti hann að höfða svokallað véfengingarmál þar sem upphaflegu faðerni yrði hnekkt fyrir dómi með lífsýnaprófi því til staðfestingar. Að því loknu þyrfti hann að höfða faðernismál sem er annað dómsmál til að staðfesta faðernið með lífsýnaprófi því til sönnunar. Bæði dómsmál og mannerfðafræðileg rannsókn á blóðsýnum eru niðurgreidd af ríkissjóði. Barnalögin segja um þessar aðstæður að einstaklingur sem leitar faðerni síns þurfi að stefna þeim manni eða mönnum sem taldir eru hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma. Sé sá maður látinn áður en málið er höfðað er lögerfingjum hans stefnt.
„Ég get … ekki hugsað mér að stefna systkinum mínum fyrir dóm sem ég hef nýlega kynnst. Ég þrái það heitt að vera rétt feðraður og skráður sem slíkur í opinberum skrám en mér finnst það of mikið lagt á alla í kringum mig.“
Líffræðileg móðir og faðir viðmælanda Mannlífs eru bæði látin og maðurinn sem hann var upphaflega feðraður líka. Þetta þýðir að hann þarf að höfða dómsmál á hendur systkinum sínum, móður megin, til að hnekkja upphaflegu faðerni og svo yrði hann knúinn til að stefna nýjum systkinum sínum fyrir dóm í faðernismálinu.
„Ég get einfaldlega ekki hugsað mér að stefna systkinum mínum fyrir dóm sem ég hef nýlega kynnst. Ég þrái það heitt að vera rétt feðraður og skráður sem slíkur í opinberum skrám en mér finnst það of mikið lagt á alla í kringum mig,“ segir hann. „Ef ég fengi að skrá nafnið mitt rétt yrði ég sáttur. Meira færi ég ekki fram á. Mér finnst þetta hrein mismunun að geta ekki framvísað lífsýnaprófi sem staðfestir svo ekki verður um villst að ég er hálfbróðir systkina minna. Með því að höfða opinbert dómsmál óttast ég að ættingjar mínir taki því illa svo viðkvæmt er þetta mál eins og gefur að skilja.“
Gat ekki hætt að leita föður síns
Benedikta Eik Eiríksdóttir var rúmlega þrítug að aldri þegar hún komst að því að hún var rangfeðruð. „Ég fékk áfall við að heyra að ég væri ekki dóttir mannsins sem ég var feðruð en
mig hafði alltaf grunað það. Ég var þá ekki galin en það tók mikið á að horfast í augu við það eitt og sér,“ segir Benedikta sem hefur í tvígang með átta ára millibili sagt viðburðaríka sögu sína í Kastljósi, nú síðast í desember síðastliðnum. Henni var greint frá því fyrir rúmum tuttugu árum að hún væri ekki dóttir mannsins sem hún taldi vera föður sinn. Sá maður sem móðir hennar taldi vera líffræðilegan föður hennar reyndist ekki heldur vera rétti líffræðilegi faðir hennar þegar blóðsýni þeirra voru rannsökuð. Fram undan var löng og erfið leit.
„Mig grunaði aldrei að ég þyrfti að leita að honum og hvað þá að þetta tæki allan þennan tíma. Ég var samt alltaf sannfærð um að ég yrði að finna út hverra manna ég væri. Ég gat ekki hætt þarna,“ segir hún. Leitinni lauk í fyrra þegar hún fékk nafnlaust símtal sem kom henni á sporið við að finna sinn rétta föður sem síðar var staðfest með lífsýnarannsókn. Faðir hennar hét Eiríkur Ragnar Guðjónsson og lést árið 2013.
„Ég náði aldrei að hitta hann því miður. Ég mun bara þekkja pabba minn í gegnum hans nánustu. Mér tókst hins vegar að finna hann og fyrir það er ég gríðarlega þakklát. Ég græddi fimm systkini í viðbót og mömmu þeirra líka. Þau hafa tekið mér rosalega vel, ég finn hvað ég er velkomin í fjölskylduna og ég reyni að rækta sambandið við þau,“ segir hún.
Vandinn við dómsmál er tilfinningalegs eðlis
Benedikta hefur verið ófeðruð í þjóðskrá í tuttugu ár eftir að hún höfðaði véfengingarmál gegn móður sinni og manninum sem hún var upphaflega feðruð. Hún ákvað í samráði við hin nýju fimm systkini sem hún eignaðist á einni nóttu að höfða faðernismál og fá það staðfest fyrir dómi að Eiríkur væri réttur líffræðilegur faðir sinn. „Ég hef ekki getað kallað mig dóttur neins í tuttugu ár og get núna loksins kallað mig Eiríksdóttur í þjóðskrá samkvæmt úrskurði héraðsdóms og það er mjög mikilvægt fyrir mig. „Þegar ég sá fram á að þurfa að stefna nýju systkinum mínum fyrir dóm og gera þetta mál opinbert þá setti ég mig í stellingar og hélt að þau yrðu ósátt við það. Það varð aldrei og þau sýndu mér fullan skilning og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Kostnaðurinn við dómsmeðferðina er ekki vandinn í sjálfu sér því hann er að mestu niðurgreiddur heldur er hann tilfinningalegs eðlis. Þótt þau hafi öll samþykkt málsmeðferðina fyrir dómi vitandi að hún væri bara formlegs eðlis þá er ekki alltaf hlaupið að því að stefna nýjum ættingjum sínum fyrir dóm sem svo er gerður opinber,“ segir Benedikta. „Ég er enn þá að reyna að ná utan um þetta allt saman, ég næ því kannski einn daginn.“
Ríkið greiði fyrir mannerfðafræðilegar rannsóknir
Á tuttugu árum hefur Benedikta látið bera lífsýni sitt við fimm menn í leitinni að réttum föður því móðir hennar sýndi ekki mikla viðleitni til að aðstoða hana við leitina. Tvær blóðrannsóknir voru greiddar úr ríkissjóði af því þær reyndust réttar, annars vegar í
véfengingarmálinu og hins vegar í faðernismálinu en hin þrjú sem sýndu engin blóðtengsl greiddi hún úr eigin vasa.
Anna Margrét Pétursdóttir útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík í fyrravor og skrifaði meistararitgerð um feðrunarreglur barnalaga. Hún telur meðal annars að það þurfi að endurskoða reglur um niðurgreiðslu á mannerfðafræðilegum rannsóknum. En þær fást ekki endurgreiddar nema dómur hafi gengið í málinu og eingöngu ef niðurstaða staðfestir blóðtengsl. „Þegar einstaklingur leitar uppruna síns, liggja fyrir í mörgum tilfellum aðeins orð móður eða jafnvel sögusagnir um hver það sé sem sé mögulegur faðir. Fenginn er úrskurður héraðsdóms fyrir því að taka megi sýni svo unnt sé að framkvæma rannsókn. Leiði sú rannsókn í ljós að útilokað sé að viðkomandi sé faðir einstaklingsins þýðir það að hann þurfi sjálfur að bera kostnað af málinu. Það skiptir því máli að kostnaður vegna slíkra mála falli alltaf á ríkissjóð óháð niðurstöðu í rannsóknum, annars veigra einstaklingar sér við að höfða mál og fá því ekki svarað þeirri mikilvægu spurningu sem legið hefur þungt á þeim. Íslenska ríkinu ber skylda til að uppfylla ákvæði mannréttindasáttmála og Barnasáttmála sem lögfestir eru hér á landi þar sem kveðið er á um að barn eigi rétt á að þekkja foreldra sína. Mín skoðun er því sú að ríkinu beri skylda til að tryggja þessi réttindi,“ segir Anna Margrét.
Feður hafa takmarkaðan rétt til höfða faðernismál
Anna Margrét ákvað að skoða feðrunarreglur í barnalögum í sínu lokaverkefni meðal annars vegna þess að náinn ættingi hennar hefur reynt að komast að réttu faðerni í fjöldamörg ár án árangurs. „Það eru mannréttindi að þekkja uppruna sinn og þau réttindi eru ekki nægilega tryggð í gildandi barnalöggjöf. Að mínu mati er nauðsynlegt að ráðast í úrbætur svo umrædd réttindi verði tryggð með fullnægjandi hætti.“ Hún segir að mörgum þyki þetta flókið, kostnaðarsamt og íþyngjandi ferli að þurfa fara fyrir dómstól til að sækja þennan rétt.
„Raunveruleikinn er sá að börn eru ranglega feðruð hér á landi. Það er skortur á úrræðum fyrir rangfeðraðra einstaklinga og að auki hafa karlmenn sem telja sig föður barns enga möguleika á að láta á faðerni sitt reyna.“ Hún segir að faðernisregla barnalaga, svokölluð pater-est-regla feli í sér að eiginmaður eða maður sem skráður er í sambúð með móður telst sjálfkrafa faðir barns hennar. Ákvarðanir fólks um sambúðarform hafi því áhrif á feðrun barna. Í flestum tilvikum teljist eðlilegt að svo sé en það geti þó komið fyrir að börn séu ranglega feðruð af þessum sökum. Þótt konan sé ekki í sambúð eða í hjónabandi þegar barnið er getið þá hefur faðir barnsins engan rétt ef konan hefur sambúð eða gengur í hjónaband með öðrum manni áður en barnið fæðist.
„Barn er sjálfkrafa ranglega feðrað eiginmanni eða manni sem móðir þess er skráð í sambúð með sem veldur því að sá sem réttilega telur sig vera faðir barns getur ekki höfðað faðernismál þar sem barnið hefur þegar verið feðrað. Þessu þarf að breyta og eru tillögur mínar þær að rýmka skuli málshöfðunarheimildir barnalaga til að tryggja manni sem telur sig föður barns heimild til að höfða faðernismál og/eða véfengingar- og ógildingarmál. Með því yrði réttindum barns til að þekkja uppruna sinn gert hærra undir höfði og opnuð sú leið að heimila mönnum að láta á faðerni reyna fyrir dómstólum,“ segir Anna Margrét.
Texti / Helga Arnardóttir
Aðalmynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir