Múffur eru handhægar og þægilegar í nestisboxið og eru einstaklega fljótlegar og einfaldar í bakstri, tekur varla meira en 30-40 mínútur. Það er því tilvalið að skella í þær að morgni ferðadags og hafa með sér brakandi ferskar eða eiga frystar og láta þær þiðna í bakpokanum.
Kúrbítsmúffur
10 stk.
3 ½ dl hveiti
1 tsk. matarsódi
1 tsk. kanill
½ tsk. salt
½ tsk. múskat
1 ½ dl sykur
1 egg
1 tsk. vanilludropar
½ kúrbítur (u.þ.b. 200 g), rifinn gróft
100 g smjör, brætt
1 ½ dl valhnetur, gróft saxaðar
1 ½ dl saxaðar döðlur, gott að nota mjúkar
Blandið hveiti, matarsóda, kanil, salti og múskati saman í skál. Pískið sykur og egg saman í annarri skál og bætið síðan vanilludropum og rifnum kúrbít út í. Hrærið vel og blandið að lokum smjörinu saman við. Hrærið þetta létt saman við þurrefnin í nokkrum handtökum og setjið síðan hnetur og döðlur út í, blandið létt þannig að allt dreifist vel í deigið. Skiptið deiginu niður í múffuform og bakið í 20-25 mín.
Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir Myndir / Íris Dögg Einarsdóttir Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir