Alma Dagbjört Möller landlæknir hefur sannarlega verið í sviðsljósinu undanfarnar vikur og framtak þríeykisins í framlínunni vakið athygli á heimsvísu. Alma er fyrsta konan til að gegna embætti landlæknis og fyrra var hún í léttu viðtali í Gestgjafanum um matarminningar og -venjur en hún hefur meðal annars smakkað skordýr, naggrís og krókódíl sem hún segir að sé afbragðsmatur.
1. Hver er þín fyrsta matarminning? „Að fylgjast spennt með annars vegar sláturgerð og hins vegar smákökubakstri mömmu fyrir jólin en á þeim árum voru sko bakaðar margar sortir.“
2. Hvað er alltaf til í eldhúsinu þínu? „Egg, haframjöl, bananar, bláber og kaffi.“
3. Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? „Humar og hvers kyns skeldýr, hangikjöt með makkarónujafningi og slátur.“
4. Eldar þú eftir uppskriftum eða tilfinningu? „Ég styðst almennt við uppskriftir þótt ég fylgi þeim ekki upp á punkt og prik. Síðan eftir því sem ég elda uppskriftir oftar byrja ég að breyta og taka útúrdúra. Þó reynum við hjónin, sérstaklega eiginmaðurinn, að herma eftir uppskriftum sem við höfum fengið á veitingahúsum.“
5. Hver er þín fyrirmynd í eldhúsinu? „Mamma sem eldar eingöngu góðan mat. Mesta visku hef ég fengið frá sænska tímaritinu „Allt om mat“.“
6. Hvað er það flóknasta sem þú hefur eldað? „Að baka frönsk horn (croissant) og makkarónur er flókið í fyrsta sinn. Okkur hjónum finnst rjúpurnar okkar á jólum geta flokkast sem flóknar; fyrst er að veiða, sem getur flækst fyrir bestu veiðimönnum, svo hengja, reyta, fylla og sauma, steikja og svo elda allt meðlætið, m.a. brúnkál. En gott og gaman er það. Svo er Humar Pick Me Up hrikalega góður réttur sem var í Sjávarkjallaranum í gamla daga – eldaður í mjög mörgum skrefum.“
7. Hvað er það skrítnasta sem þú hefur borðað? „Almennt fæ ég mér alltaf það skrítnasta á hverjum matseðli. Get nefnt naggrís, þjóðarrétt Perú, alls ekki slæmur matur. Flest sem ég borðaði í Kína var skrítið, skordýr og margt fleira. Krókódíll er afar ljúffengur.“
8. Áttu þitt uppáhaldsnesti? „Geitaosta-hvítlauksbaka Ottolenghi er frábært nesti. Flatbrauð með hangikjöti, lifrarpylsa og frönsk horn með góðum osti.“
9. Hvaða skyndibiti verður oftast fyrir valinu? „Sushi.“
10. Áttu uppáhaldseldhúsgræju? „Súkkulaðibræðslupotturinn og blandarinn fyrir morgunverðarlummmurnar.“
11. Áttu þér einhverja veika hlið í eldhúsinu? „Mér leiðist frekar að elda stórsteikur en eiginmanninum finnst það gaman að sama skapi – ég er „með læti“.“
12. Kanntu gott sælkeratrix? „Smakka til – krydda passlega og gjarnan nota ferskt krydd. Fallegur borðbúnaður.“
13. Hvaða þrjú hráefni tækirðu með þér á eyðieyju? „Egg, ólífur og appelsínur, til varnar skyrbjúg.“
14. Hvaða tónlist myndirðu setja á fóninn með góðri máltíð? „Dave Brubeck eða Þjóðlegan fróðleik eftir Guðmund Ingólfsson.“
15. Hvaða manneskju myndir þú bjóða í veislu ef þú gætir boðið hverri sem er? „Barack Obama og Xi Jinping.“
16. Hvert væri heitasta umræðuefnið? „Hlýnun jarðar væri klárlega heitasta umræðuefnið en loftslagsbreytingar eru stærsta heilsuvá þessarar aldar og við verðum að spyrna við fótum. Það snertir m.a. hvaða mat við borðum.“ (Rétt er að taka fram að svarið er frá janúar 2019).
17. Hver er uppáhaldssælgætismolinn þinn? „Brúni molinn eða túkallinn í Mackintosh Quality Street.“
18. Ertu sælkeri eða saltari? „Hvorugt, nema þegar saltkaramellur eru annars vegar. Fer varlega með salt og er alls ekki hrifin af sætu, sem betur fer.“