Kjúklingur og beikon er hráefni sem margir elska og þegar sinnepi er bætt við þá verður blandan enn betri. Hér er afar einfaldur og sniðugur réttur sem gælir við bragðlaukana. Gott er að bera þennan rétt fram t.d. með kartöflumús eða kúskús og einnig er gott að hafa salat með.
Sinnepskjúklingur með beikoni
fyrir 3-4
4 msk. dijon-sinnep
1 tsk. paprikuduft
nýmalaður svartur pipar
100 g beikon, skorið í bita
1 laukur, saxaður
2-3 msk. olía
u.þ.b. 600 g úrbeinuð kjúklingalæri eða kjúklingabringur
4 dl kjúklingasoð
Blandið saman dijon-sinnepi, papriku og svörtum pipar. Makið blöndunni vel á kjúklingakjötið og látið standa í a.m.k. 30 mín. Steikið beikon á pönnu þar til það er stökkt, takið af pönnunni og skiljið fituna eftir. Steikið laukinn upp úr beikonfitunni þar til hann er mjúkur, takið af pönnunni og setjið saman við beikonið. Setjið 1 msk. af olíu á pönnuna (ef þarf) og steikið kjúklinginn þar til hann er hefur brúnast fallega (hann þarf ekki að eldast í gegn). Takið hann af pönnunni og setjið soðið út á, notið sleif eða spaða til þess að ná öllu vel af botni pönnunnar. Setjið síðan beikon, lauk og kjúkling aftur út á pönnuna og látið þetta malla við vægan hita í 15-20 mín. eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Bragðbætið með salti og pipar eftir smekk.
Uppskrift/Kristín Dröfn Einarsdóttir