Framleiðendur Royal-búðingsins á Íslandi hafa nú kynnt nýjan búðing til leiks, þann fyrsta um árabil. Hann er með saltkaramellu en sú bragðtegund hefur notið vaxandi vinsælda hjá Íslendingum á síðustu árum og því ekki við öðru að búast að nýi Royal-búðingurinn muni fara vel í landsmenn.
Uppruna Royal-vörumerkisins má rekja til ársins 1866 þegar bræðurnir Joseph Christoffel Hoagland og Cornelius Nevius Hoagland stofnuðu The Royal Baking Powder Company í Bandaríkjunum. Árið 1954 tók heildsölu og innflutningsfyrirtækið Agnar Ludvigsson Royal-vörumerkið á leigu og hóf framleiðslu á lyftidufti og í framhaldinu Royal-búðingum. Fyrirtækið hóf rekstur árið 1941 en vegna gjaldeyrishafta varð auðveldara að flytja inn tæki til framleiðslu hér á landi heldur en að flytja sjálfar vörurnar inn sem var aðalástæðan fyrir því að framleiðslan hófst.
Fyrirtækið Agnar Ludvigson er nú í eigu heildsölunnar John Lindsy sem hefur haldið framleiðslunni gangandi síðan hún tók fyrirtækið yfir fyrir 20 árum, nú í nýlegu húsnæði í Klettagörðum en framleiðslan var um árabil á Nýlendugötunni.
Umbúðir Royal-búðingana breyst töluvert hjá eigendunum vestanhafs en hér á landi hefur útlit þeirra haldist óbreytt frá upphafi. Upphaflega voru bragðtegundirnar fimm – karamella, súkkulaði, vanillu, jarðarberja og sítrónu en hætt var að framleiða búðinginn með sítrónubragðinu. Þannig að nú eru tegundirnar aftur orðnar fimm og ekki útilokað að fleiri bætist í hópinn á komandi árum.