Marens er mjög einföld kaka í eðli sínu en það eru nokkur atriði sem þarf að hafa í huga til þess að hann heppnist vel og verður farið yfir þau hér í þættinum.
Ég hef heyrt því fleygt að veðurfar hafi áhrif á marensgerð, mikill loftþrýstingur og raki séu t.d. ekki ákjósanlegar breytur. Það tekur stundum aðeins lengri tíma að baka marensinn ef mjög rakt er í veðri en það hefur ekkert úrslitavald. Franskar makrónur eru kannski það viðkvæmasta en það verður þó ekki fjallað um þær hér.
– Hafið skálina alltaf tandurhreina
– Byrjið alltaf á því að þeyta eggjahvíturnar aðeins áður en sykrinum er bætt við
– Hrærið aukahráefni alltaf mjög varlega saman við marensdeigið
– Ef eggjarauða blandast saman við hvíturnar, veiðið hana upp með eggjaskurn. Prufið að þeyta, ef ekkert gerist, byrjið upp á nýtt og notið það gamla í ommeilettu.
– 1 eggjahvíta er u.þ.b. 30-35 g
– 1 dl af eggjavítum, samsvarar hvítu úr þremur eggjum
– Hafið alltaf eggjahvíturnar við stofuhita
– Geymið marens í lokuðum umbúðum
Mjúkir toppar:
Þegar þeytaranum er stungið ofan í eggjahvítuhræruna, hann tekinn upp og snúið við, slútir marensinn aðeins niður.
Stífir toppar:
Þegar þeytaranum er stungið ofan í eggjahvítuhræruna, hann tekinn upp og snúið við, stendur marensinn beint upp í loftið.
Sjá einnig: Ljúffeng og falleg sítrónumarenskaka
Texti / Gunnar Helgi Guðjónsson