Girnilegar og safaríkar steikur eru kannski það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar grill er nefnt á nafn en svo ótalmargt annað má gera með þessari eldunaraðferð – eins og til dæmis að grilla brauð. Gestgjafinn kom nýlega út með sumarlegum og flottum uppskriftum og að því tilefni gefum við hér uppskrifir af tveimur frábærum brauðréttum á grilli.
Grillað piadina-brauð með tómat-tapenade og grilluðu eggaldini
3 ¾ dl 37°C heitt vatn (fingurvolgt)
1 pakki þurrger
½ tsk. sykur
570 g hveiti
3 msk. jómfrúarolía
2 tsk. sjávarsalt frá Saltverki
Blandið vatni, sykri og geri saman í hrærivélarskál og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman, leyfið að standa í 5 mín., þar til myndast hefur þunnt lag af hvítri froðu ofan á vatninu en það þýðir að gerið er farið að virka. Blandið restinni af hráefninu saman við og hrærið rólega í 2 mín. eða þar til deigið hefur tekið sig vel saman. Stillið vélina á meðalhraða og hrærið deigið saman í 10 mín. Búið til fallega kúlu úr deiginu og setjið í olíuborna skál, hyljið með viskustykki þar til deigið hefur rúmlega tvöfaldað sig í stærð. Takið nú deigið og búið til 8-12 jafnstórar kúlur, fer eftir stærðinni sem þið viljið hafa á brauðinu, fletjið hverja kúlu út í þunna botna. Setjið þá á smjörpappír og smáolíu bæði undir og ofan á deigið svo það festist ekki. Hitið grillið upp í 180°C og bakið brauðið við þann hita í 2 mín. og á hvorri hlið. Þegar brauðið er tekið af er því leyft að kólna lítillega áður en það er skorið í viðeigandi bita. Útbúið mauk eða bara góða sósu til að dýfa þessu skemmtilega grillbrauði í.
Tómat-tapenade
100 g ólífur, helst kalamata-ólífur, steinhreinsaðar
100 g sólþurrkaðir tómatar
1 hvítlauksgeiri
3 msk. jómfrúarolía
handfylli fersk basilíka
2 msk. kapers
2 tsk. balsamedik
vel af svörtum pipar
Fyrst eru ólífurnar, tómatarnir og hvítlaukurinn sett í matvinnsluvél og látið saxast létt, því næst er olíunni og restinni af hráefninu bætt við og blandað saman þar til maukið helst vel saman.
Eggaldinmauk
1 heill hvítlaukur
2 eggaldin, um 500 g
1 msk. safi úr sítrónu
1 tsk. óreganó
1 tsk. salt
1 tsk. pipar
Hitið grillið í 200°C. Skerið toppinn af hvítlauknum og makið smáolíu þar ofan á. Pakkið lauknum inn í álpappír og bakið með eggaldininu. Stingið gat á eggaldinin með gaffli á nokkrum stöðum svo gufa komist út. Leggið á heitt grillið og bakið í 15-20 mín. eða þar til þau verða mjúk í gegn. Skerið eggaldinin síðan eftir endilöngu og skafið mjúka partinn innan úr og setjið í skál. Takið hvítlaukinn og hreinlega kreistið hann þar til rifin úr honum fara í skálina. Bætið öllu öðru sem er í uppskriftinni saman við og setjið í matvinnsluvél. Maukið þar til verður að silkimjúku mauki.
Grillaðar pylsur með brauðvafningi
Í þessu brauðdeigi er smjörbolla en hún hjálpar til við að brjóta niður glútenið í brauðinu og gerir það teygjanlegra.
6 pylsur
350 g hveiti
50 g sykur
1 tsk. salt
1 msk. þurrger
1 ¼ dl mjólk
1 egg
120 g bökuð smjörbolla
30 g smjör við stofuhita í litlum teningum
Blandið þurrefnunum saman. Setjið mjólkina, eggið og smjörbolluna í aðra skál og blandið vel saman. Gerið því næst dæld í þurrefnin og hellið blautefnunum út í. Notið krók til þess að blanda vel saman og passið að engir kekkir séu í deiginu. Setjið smjörið út í þegar þetta er komið vel saman og hrærið í minnst 10 mín. eða þar til ekkert festist við skálina og er mjög teygjanlegt. Ef þú heldur að þú sért búin að hnoða nóg, hnoðaðu þá í 2 mín. í viðbót því þessi hnoðun er það sem gerir brauðið loftkennt og létt. Setjið deigið í stóran bolta og undir rakt stykki. Komið því fyrir á volgum stað og leyfið því að hefast í 40 mín. eða þar til það hefur tvöfaldast í stærð.
Skiptið deiginu í 18 jafnstóran hluta, best er að nota vigt til þess. Notið hveiti undir svo deigið festist ekki við. Leyfið þeim að hvíla aftur í 15 mín. með röku stykki yfir.
Rúllið deigkúlu upp í langan orm og vefjið utan um pylsuna. Leggið á ofnplötu og leyfið því að hvíla aftur í klst. Passið að hafa langt bil á milli því þetta á eftir að tvöfaldast í stærð.
Hægt er að grilla pylsuvafningana á grillbakka eða baka þá í ofni. Hafið ofninn í 180°C eða grillið í 190°C á óbeinum hita þannig það sé bara kveikt á hliðarbrennurunum en ekki beint undir brauðunum. Bakið í 30-35 mín. eða þar til pylsuvafningarnir eru vel bakaðir.
Gott er að setja tómatsósu og sinnep í skál og bera með.
Smjörbolla
100 g smjör
50 g hveiti
Bræðið smjörið og bætið hveitinu út í, sláið saman þar til blandan helst saman og myndar bollu.
Umsjón / Hinrik Carl Ellertsson
Myndir / Karl Petersson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir