Fallegt brauð er nauðsynlegt á veisluborðið og er að auki góð leið til að drýgja veitingarnar.
Allir elska nýbakað brauð og her er eitt skemmtilegt sem smellpassar í fermingarveisluna, hvort sem það er með súpu, pottréttum eða sem hluti af hlaðborði. Brauðið er hægt að útbúa og geyma í kæli yfir nótt, leyfa því síðan að ná stofuhita og baka rétt áður en það eru borin fram. Eins er hægt að baka það, frysta og hita síðan upp við um það bil 100°C þegar bera á það fram.
Rauðlauksfyllt ostabrauð með rósmaríni
fyrir 16-20
10 dl hveiti
2 msk. sykur
1 msk. gróft sjávarsalt
2 tsk. þurrger
60 g mjúkt smjör
3 ½ dl volg mjólk
1 krukka (225 g) sultaður rauðlaukur, t.d. rauðlauksmarmelaði með chili-pipar frá MACKAYS
u.þ.b. 100 g rifinn mozzarella-ostur
1 grein rósmarín, laufin söxuð fínt
nýmalaður svartur pipar
Blandið þurrefnunum saman og setjið síðan smjör og mjólk saman við. Hnoðið vel saman í allt að 10 mín. Látið þá deigið lyfta sér undir rökum klút í a.m.k. 1 klst. (gjarnan lengur ef tími er til). Skiptið deiginu í tvennt og fletjið báða partana út þannig að þeir séu hringlaga, jafnstórir og u.þ.b. ½ cm á þykkt. Setjið annan deighlutann á bökunarpappírsklædda ofnplötu og dreifið rauðlaukssultunni ofan á og rifnum osti og rósmaríni þar yfir. Setjið hinn hlutann af deiginu ofan á og þrýstið létt saman. Setjið litla skál í miðjuna og skerið deigið út frá skálinni í 16 parta eða „flipa“. Snúið nokkrum sinnum upp á hvern flipa. Látið lyfta sér aftur í 30-60 mín. Hitið ofn í 190°C og bakið í u.þ.b. 30 mín. Setjið álpappír yfir ef sultan fer að dökkna of mikið.
Texti / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir