Súpur geta vel staðið einar og sér sem kvöldmatur með góðu brauði og sumar þeirra verða hreinlega betri daginn eftir eins og þessi matarmikla kjötsúpa. Það borgar sig því að gera nóg af henni.
Kjötsúpa
fyrir 4
3 msk. olía
2 stk. hvítlauksgeirar, saxaður
1 laukur, saxaður
3-4 meðalstórar gulrætur, skornar í bita
2 sellerí, sneitt
1 epli, afhýtt og skorið í bita
2 msk. hveiti
2 tsk. karríduft, má vera nokkuð sterkt
2 tsk. karrímauk
1 tsk. kóríanderduft
1,5 lítri grænmetissoð
2 tómatar, saxaðir
salt og pipar til að bragðbæta með
50 g basmati-hrísgrjón, elduð, má sleppa
200 g lambakjöt
handfylli steinselja
Hitið olíu í víðum potti og steikið hvítlauk og lauk í nokkrar í mín. og bætið síðan gulrótum, sellerí og eplum saman við. Stráið hveiti yfir og kryddið með karrí, karrímauki og kóríanderdufti og hrærið saman.
Hellið grænmetissoðinu saman við, bætið tómötum og hrísgrjónum saman við og bragðbætið með salti og pipar.
Látið malla í 30-40 mín. eða þar til grænmetið hefur mýkst. Steikið lambakjötið og setjið að lokum út í súpuna og látið malla í nokkrar mín. Skreytið með steinselju og berið fram með góðu brauði ef hrísgrjón eru ekki notuð.
Mynd / Hákon Davíð Björnsson